„Hvað ég geri mun koma í ljós þegar nær dregur“

  • 1. mars 2025
  • Fréttir

Sara og Flóki á HM. Ljósmynd: Bert Collet

Hvernig eru heimsmeistaranir hestaðir?

Framundan á þessu ári er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss. Landsliðhópar Íslands fyrir komandi tímabil hafa verið tilkynntir, þó að sjálfsögðu þar geti orðið breytingar á fram að móti og endanlegt lið liggur ekki fyrir. Nokkrir knapar eiga rétt á þátttöku í mótinu sökum þess að þeir urðu Heimsmeistarar á síðasta móti.

Sara Sigurbjörnsdóttir varð heimsmeistari í fimmgangi á Flóka frá Oddhóli árið 2023 og á því sæti í landsliði Íslands á HM í sumar.

„Ég veit ekki hvort að það breytti miklu fyrir mig að verða heimsmeistari en þetta var frábær lífsreynsla sem marga knapa dreymir um en ekki öllum tekst. Auðvitað fór ég á mótið til þess að sigra þessa grein og það var ánægjulegt að það skyldi takast. Flóki er nú í nýju hlutverki með ungan knapa og þau eru að þróast saman og kynnast hvort öðru, ég sakna hans þó gífurlega mikið og átti erfitt með að skilja hann eftir í öðru landi en ég veit hann er á góðum stað og hefur það gott.“

Sara er ekki örugg með hvaða hest hún stefnir á mótið í ár. „Það er ennþá ráðgáta með hvaða hest ég stefni. Það er ekki þannig að maður sé með fullþjálfaða tilbúna keppnishesta í röðum og hvað þá hesta sem geta skilað manni sigri í jafn sterkri keppni og er á heimsmeistaramóti. Það er mikið til af frábærum hrossum og knöpum sem stefna á mótið og því langar mig ekki að fara með hross erlendis nema að vera samkeppnishæf. Ég hef hugsað það mikið hversu frábært þetta fyrirkomulag er fyrir knapana á meginlandinu sem landa titli og geta svo mætt tveimur árum seinna aftur á sömu hestunum, meira þjálfuðum og sterkari og reynt að verja titilinn. Fyrir okkur Íslendinga getur þetta verið mun erfiðara og jafnvel ákveðin kvöð. Ég tel að það sé mun gáfulegra að fara ekki og taka þátt ef maður er ekki með rétt hestinn. En það mun koma í ljós síðar meir hvað ég ákveð að gera.“

 

 

Viðtal við aðra Heimsmeistara

Elvar Þormarsson stefnir ótrauður á næsta HM

Glódís er hvergi nærri hætt þrátt fyrir heimsmeistaratitil

Hesturinn er í eins góðum höndum og hægt er að hugsa sér

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar