Hestamannafélagið Sprettur Námskeið fyrir unga sýnendur kynbótahrossa

  • 28. mars 2025
  • Tilkynning

Fimmtudaginn 22. og 23.maí nk ætlar hestamannafélagið Sprettur, í góðu samstarfi við RML, að bjóða upp á það sem við köllum „æfinga-kynbótasýningu“ fyrir unga knapa.

Slíkt hefur ekki verið í boði hérlendis áður en það getur reynst ungum knöpum erfitt skref að stíga að mæta til dóms á kynbótabrautinni. Því höfum við ákveðið að setja á laggirnar æfinga-kynbótasýningu sem verður útfærð nákvæmlega eins og alvöru sýning nema tölur verða ekki skráðar í gagnagrunn WorldFengs heldur fá þátttakendur umsögn frá kynbótadómurum og einkunnir afhentar á blaði.

Fimmtudaginn 22.maí munu fara fram fordómar, s.s. sköpulags-  og hæfileikadómur,  og föstudaginn 23.maí fer fram yfirlitssýning. Mælingar og sköpulagsdómar fara fram í Samskipahöll og hæfileikadómur á kynbótabraut Spretts. Starfsmenn og kynbótadómarar RML starfa á sýningunni.

Kynbótanefnd Spretts styður verkefnið myndarlega og býður m.a. upp á undirbúningsnámskeið í aðdraganda sýningarinnar í samstarfi við Þorvald Árna Þorvaldsson reiðkennara. Undirbúningsnámskeiðið verður auglýst sérstaklega.

Miðað er við þátttakendur á aldrinum 14-25 ára, ungir Sprettarar ganga fyrir, en utanfélagsmenn eru velkomnir ef laus pláss. Miðað er við þrjú dómaholl og max. 25 skráð hross á sýninguna. Eingöngu er boðið uppá skráningu í fullnaðardóm. Verð er 33.500kr.

Skráning á sýninguna hefst 15.apríl og fer fram á abler.io/shop/hfsprettur

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar