Leiðbeinandi reglur fyrir aðbúnað hryssna á sæðingastöðvum

  • 14. maí 2025
  • Fréttir

Ljósmynd: Jens Einarsson

Gefið hefur verið út leiðbeinandi reglur fyrir aðbúnað hryssna á sæðingastöðvum.

Frétt á vef MAST  og heimasíðu LH segir frá því að samstarfshópur á vegum Matvælastofnunar, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Lands og skóga, Landssambands hestamannafélaga og deildar hrossabænda hjá Bændasamtökum Íslands hafi nú gefið út leiðbeinandi reglur fyrir aðbúnað hryssna á sæðingastöðvum.

Góður aðbúnaður sem tryggir velferð hryssna og folalda sem þeim fylgja eru mikilvæg forsenda fyrir starfsemi sæðingastöðva. Að lágmarki skal aðbúnaðurinn uppfylla kröfur sem settar eru í reglugerð nr. 910/2014 um velferð hrossa og reglugerð nr. 540/2016 um búfjársæðingar og flutning fósturvísa. Hér eru lagðar fram nánari leiðbeiningar, byggðar á reynslu undangenginna ára, sem bæði þeir sem veita þessa þjónustu og nota hana, geta haft til hliðsjónar.

Folöld

Öll folöld skulu vera skráð og örmerkt við komu á sæðingastöð. Til að draga úr hættu á folaldaskitu og öðrum veikindum skulu folöld vera a.m.k. vikugömul (helst 10 daga) við flutning á sæðingarstöð (eða flutning vegna húsnotkunar). Aðeins má flytja sýnilega heilbrigð folöld.

Ræktunarhryssur

Þarfir hryssna yfir fengitímann stjórnast mest af því hvort þær séu mjólkandi eða geldar en aðrir þættir sem hafa áhrif eru holdafar, aldur og hvort þær eru að koma úr stífri þjálfun eða ekki. Æskilegt er að ræktunarhryssur séu í bata á fengitímanum en þó er enn mikilvægara að fyrirbyggja efnaskiptaraskanir og þar með hættuna á hófsperru hjá hryssum sem koma of feitar eða með aðra áhættuþætti inn í vorið og sumarið.

Grunnþarfir:

  • Beit eða hey sem uppfyllir þarfir til framleiðslu og viðhalds
  • Aðgangur að grængresi (í úthaga eða á túni)
  • Óheftur aðgangur að rennandi vatni
  • Þurr svæði innan beitarhólfs sem halda sér í bleytutíð
  • Slysahætta í lágmarki
  • Streitu haldið í lágmarki (hryssur ekki reknar að oftar en nauðsynlegt er)
  • Ormasmit og önnur smithætta í lágmarki
  • Möguleiki til að takast á við smitsjúkdóm eða grun um smitsjúkdóm

Fóðurþarfir mjólkandi hryssna:

  • Góð beit, þó helst á gömlu túni og með aðgang að úthaga og/eða meðalgrófu heyi

Fóðurþarfir geldhryssna:

  • Hófleg beit, gjarnan á úthaga og/eða með aðgang að meðalgrófu heyi

Hólfaskipan:

Á stærri sæðingastöðvum, er mælt með því að halda hryssurnar í a.m.k. fjórum aðskildum hópum og að ekki séu fleiri en 40 folaldshryssur samtímis í hverju hólfi. Þannig er hægt að mæta ólíkum þörfum hjá geldum hryssum og mjólkandi, fækka skiptum sem reka þarf hryssurnar að og stytta biðtíma í gerðum.

Geldar hryssur sem bíða sæðingar Folaldshryssur sem bíða sæðingar
Geldar hryssur sem bíða fangskoðunar Folaldshryssur sem bíða fangskoðunar

 

Varnir og viðbrögð gegn smitsjúkdómum:

Ormasýkingar:

Hætta á ormaveiki er ekki mikil hjá hryssum á besta aldri en þó er mikilvægt að hindra að ormasmit magnist upp í beitarhólfum og öðru umhverfi á sæðingastöðvum. Almennt hreinlæti skiptir máli. Meðhöndlun með ormalyfjum við komu á sæðingastöð er til þess fallin að draga úr smitálaginu, en ber líka með sér hættu á ofnotkun og lyfjaónæmi. Því þarf að meta þörfina á hverjum stað fyrir sig, miðað við aðstæður, svo sem þéttleika og umfang starfseminnar. Ef starfsemin er aðeins fyrri hluta sumars en beitarhólfin friðuð að öðru leyti, hreinsast þau með náttúrulegum hætti á milli ára. Til að draga úr líkunum á að lirfur dreyraorma lifi og verði smithæfar næsta vor er gagnlegt að slóðadraga beitilandið snemma á friðurnartímanum.

Ekki er ástæða til að meðhöndla folöld fyrr en við 3ja-4ra mánaða aldurinn (sept-október) við spóluormum og 6-8 mánaða við dreyraormum.

Aðrar sýkingar:

Þrátt fyrir góða sjúkdómastöðu í hrossastofninum geta skapast aðstæður þar sem smitefni ná að magnast upp, einkum þar sem þéttleiki er mikill og nýjar hryssur koma sífellt inní hópinn. Æskilegt er að sæðingastöðvar hafi yfir að ráða einangrunahólfi (þar sem hross komast ekki í snertingu við önnur hross) og/eða einangrunaraðstöðu innanhúss ef upp kemur smitsjúkdómur eða grunur þar um. Hvers kyns grun um nýjan eða alvarlegan smitsjúkdóm ber að tilkynna strax til Matvælastofnunar sem metur hvort viðbragðsáætlun stofnunarinnar sé virkjuð.

Landnotkun:

Landþörf til hrossabeitar er háð aðstæðum s.s. landgerð, árferði og beitarskipulagi. Mikilvægt er að umráðaaðili fylgist vel með ástandi landsins. Þegar hrossin eru farin að bíta nærri sverði þarf að létta beit eða friða til að koma í veg fyrir myndun rofdíla, en myndun þeirra er merki um að gengið hafi verið of nærri landinu. Þá þarf strax að grípa til aðgerða, svo sem heygjafar, bættrar beitarstýringar, og fækkunar hrossa í hólfinu. Æskilegt er að sæðingastöðvar nýti skiptibeit, einkum ef sæðingatímabilið er lengra en 2 mánuðir.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar