Sýningarárið 2025

  • 17. október 2025
  • Fréttir

Dögg frá Kvistum hlaut 10 fyrir hægt stökk á árinu. Hún er dóttir Kveiks frá Stangarlæk 1 sem skilaði mörgum frábærum hrossum til dóms á árinu.

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur hjá RML

Sýningarárið 2025 gekk að flestu leyti vel með mikilli þátttöku hrossa og áhuga á sýningarhaldinu. Alls var felldur 1.331 dómur en fleiri dómar hafa ekki verið felldir á ári á milli Landsmóta síðan 2013. Alls komu 1.093 hross til dóms. Haldnar voru 16 sýningar um landið en sýning var á Vesturlandi í aðdraganda Fjórðungsmóts en ekki hefur verið haldin sýning þar síðan 2019. Miðsumarssýningar voru vinsælar en alls var sýnt 371 hross á þeim sýningum; á Hellu og Akureyri. Fjórðungsmót var haldið í Borgarnesi fyrstu vikuna í júlí. Alls máttu 86 kynbótahross mæta á mótið en nokkuð var um afskráningar og 50 hross voru dæmd á mótinu. Mörg úrvalshross mættu þar til leiks og gekk mótið vel. Heimsmeistaramót var haldið í Sviss í ár. Ísland sendi eins og vant er eitt hross í flokka fimm, sex og sjö vetra og eldri hryssna og stóðhesta. Hrossin sem tóku þátt fyrir Íslands hönd stóðu sig afar vel. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var efstur í elsta flokki stóðhesta, Drangur frá Ketilsstöðum var efstur í sex vetra flokki og Sörli frá Lyngási var efstur í fimm vetra flokki. Þá var Eind frá Grafarkoti þriðja í elsta flokki hryssna, Ólga frá Lækjamóti var önnur í sex vetra flokki og Óskastund frá Steinnesi var efst í fimm vetra flokki hryssna.

Í töflunum hér fyrir neðan má sjá meðaltöl og breytileika í einkunnagjöf allra eiginleika í sköpulagi og hæfileikum á Íslandi á árinu:

Meðaltöl eru nánast þau sömu samanborið við síðasta ár og engin breyting sem talandi er um. Einnig er breytileiki í einkunnagjöf afar svipaður og á síðasta ári sem segir að notkun skalans er ekki að dragast saman og skalinn var aðeins betur notaður á þessu ári ef litið er til hæstu og lægstu einkunna. Meðalaldur sýndra hrossa í ár var 6 ár (5,97) sem er nánast sami meðalaldur og í fyrra. Þetta er heldur lægri meðalaldur ef þetta er borið saman við fyrri ár þar sem ekki var Landsmót en yfirleitt er meðalaldur sýndra hrossa heldur lægri á Landsmótsárum. Í meðfylgjandi töflu er fjöldi hrossa sem kom til dóms í hverjum aldursog kynflokki:

Staða skeiðsins

Klárhross voru 34% sýndra hrossa í ár en það er heldur hærra hlutfall en undanfarin ár (var 31% í fyrra). Þetta hlutfall hefur farið hækkandi á síðastliðnum árum en lengi vel var þetta um fjórðungur sýndra hrossa sem voru klárhross. Þó hlutfall klárhrossa fari hækkandi er staða skeiðsins afar sterk um þessar mundir og aðalskýringin er líklega sú að fleiri ákveða að sýna ekki skeið í hrossum sem hafa takmarkaða skeiðgetu enda fer einkunnum 5,5 til 6,5 heldur fækkandi. Afar mörg flugvökur hross voru sýnd á árinu og 210 hross fóru í 8,5 eða hærra, eða 21% sýndra hrossa, en þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra. Þá voru 94 hross sem fengu 9,0 eða hærra í einkunn fyrir skeið.

Knapar og dómarar

Það voru 178 manns sem sýndu hross á árinu og 156 knapar sem sýndu hross í reiðdómi, þar af voru 105 knapar sem sýndu 2 eða fleiri sýningar, 57 knapar sem sýndu 5 eða fleiri sýningar og 26 sem sýndu 10 sýningar eða fleiri. Þetta er því töluverður hópur knapa sem sýna kynbótahross á Íslandi þessi misserin og árlega mæta öflugir ungir knapar til leiks sem er afar verðmæt staða. Þá komu 19 dómarar að dómum á Íslandi í ár en þeir dæmdu frá 89 upp í 423 hross en meðaltalið var um 320 Sýningarárið 2025 hross. Það er mikilvægt að fremur fámennur hópur dómara komi að dómstörfum árlega og fá nægilega þjálfun þannig að samræmi sé sem mest í dómsstörfunum og náðist það ágætlega í ár.

Feður sýndra hrossa

Alls 272 feður voru á bak við sýnd hross í ár og í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir þá stóðhesta sem skiluðu átta eða fleiri hrossum til dóms en flest hrossin voru undan Skýr frá Skálakoti. Ef þeir stóðhestar eru skoðaðir sem skiluðu flestum fjögurra vetra hrossum til dóms í ár, þá var það Álfaklettur frá SyðriGegnishólum með 13 fjögurra vetra afkvæmi. Næstur kemur Þráinn frá Flagbjarnarholti með 10 afkvæmi, Skýr frá Skálakoti með átta og Hannibal frá Þúfum með fimm afkvæmi. Þetta sýnir sterka stöðu þessara heiðursverðlaunahesta en Þráinn náði lágmörkum til þeirra verðlauna á árinu. Þá mættu fyrstu afkvæmi Hannibals til dóms í ár og lofar það góðu með framhaldið.

Tíur ársins

Þegar breytileiki í einkunnagjöf er skoðaður má sjá að nokkrar tíur voru gefnar á árinu fyrir einstaka eiginleika. Náttfari frá Tölthólum fékk 10 fyrir bak og lend og er hann einungis fjórða hrossið í sögunni til að hljóta þessa einkunn. Hann er undan Nátthrafni frá Varmalæk og Sneglu frá Reykjavík. Þá hlutu tveir hestar 10 fyrir hófa; þeir Púls frá Lækjamóti og Kjarni frá Korpu. Púls er undan Útherja frá Blesastöðum 1A og Nútíð frá Leysingjastöðum II. Púls er skyldleikaræktaður út af Orra frá Þúfu en magnað er að Orri er enn með 117 stig í kynbótamati fyrir hófa sem endurspeglar hans miklu og jákvæðu áhrif á hófa í stofninum. Þá er Kjarni undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Eldingu frá Haukholtum og er því albróðir Apollos frá Haukholtum. Átta hross fengu 10 fyrir prúðleika. Tveir hestar fengu 10 fyrir brokk á árinu; þeir Miðill frá Hrafnagili og Fálki frá Traðarlandi. Fálki er undan Kveik frá Stangarlæk 1 og Freyju frá Traðarlandi, afar léttstígur, skrefmikill, taktviss og rúmur á brokki. Þá er Miðill undan Auði frá Lundum II og Gígju frá Búlandi en hún er undan Hrym frá Hofi og gæðingamóðurinni Heklu frá EfriRauðalæk. Miðill er óvanalega framhár og svifmikill á brokki með afar volduga framgöngu. Þrjú hross fengu 10 fyrir skeið á árinu; þau Ramóna frá Heljardal, Elma frá Staðarhofi og Andvari frá Kerhóli. Ramóna er undan Draupni frá Stuðlum og Auði frá Hofi, Hróðursdóttur. Elma er undan Spaða frá Stuðlum og Spes frá Ingólfshvoli, Stáladóttur og Andvari frá Kerhóli er undan Braga frá Skriðu og Ösp frá Ytri-Bægisá I. Bragi er undan Óskasteini frá Íbishóli og Ösp er undan Blæ frá Torfunesi og er því mikið rými og teygja á bak við Andvara. Þá var eitt hross sem hlaut 10 fyrir hægt tölt á árinu en það var Upplyfting frá Reykjavík, undan Austra frá Úlfsstöðum og Valhöll frá Reykjavík, en hún býr yfir miklu jafnvægi á hægu tölti og eðlisfótaburði. Dögg frá Kvistum hlaut 10 fyrir hægt stökk en hún er undan Kveik frá Stangarlæk 1 og Dögun frá Kvistum en sú er undan Þyt frá Neðra-Seli og Orku frá Hvammi. Dögg er einstaklega framhá og jafnvægisgóð á hægu stökki og býr yfir miklu fjaðurmagni. Dögg er einungis áttunda hrossið í sögunni til að hljóta 10 fyrir hægt stökk. Skemmtilegt er að nefna að tvö af þessum hrossum í upptalningunni að ofan eru undan Kveik frá Stangarlæk 1 en hann skilaði mörgum úrvals hrossum til dóms í ár. Fjögur af tólf hrossum sem fengu 9,5 fyrir fegurð í reið á árinu voru undan honum svo dæmi sé nefnt og meðaltal sýndra afkvæma í ár fyrir tölt var 8,67 sem er afar hátt. Kveikur hefur verið afar öflugur að skila sínum góðu kostum til afkvæma sinna; miklum léttleika, mýkt og fjaðurmagni.

Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa

Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað eins og undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og átti þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu. Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverkar og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Skráð voru ágrip á fótum í 13% tilfella sem er svipað og var í fyrra en þá var tíðni ágripa 14% og hefur þetta hlutfall farið heldur lækkandi undanfarin ár. Megnið af þessum athugasemdum, eða 70%, voru í flokki 1, tíðni eiginlegra áverka á fótum (flokkar 2 og 3) var því 4,0% þar sem áverkar af þriðja stigi voru afar fáir (4 hross). Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 3% tilfella og var í öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða. Það má því segja að staðan á þessum málum sé ásættanleg og hefur verið árleg minnkun í tíðni alvarlegra áverka á síðastliðnum árum. Þetta skýrist væntanlega fyrst og fremst af hestvænni sýningum og betri undirbúningi hrossa til dóms. Það er reynt að taka á grófri reiðmennsku á hverju ári en alls voru tveir knapar sem hlutu áminningu fyrir grófa reiðmennsku á árinu.

Eistnaskoðun var framkvæmd á öllum stóðhestum sem komu til dóms þar sem mæld er stærð eistnanna, stinnleiki þeirra metin og kannað með frávik svo sem snúninga. Mikill meirihluti stóðhestanna er með þétt og eðlileg eistu, eða tæplega 90% hestanna. Merkt var við eistnagalla hjá 3 stóðhestum á árinu, samanborið við 6 hesta í fyrra og var þá um of mikla smæð að ræða (heildarbreidd beggja eistna undir 8,0 cm) í tveimur tilfellum og misstór eistu að ræða í einu tilfelli. Enginn hestur var með eineistni. Ef meðaltal á heildarbreidd eistna er skoðað, þá kemur í ljós að það er 10,03 cm í ár og staðalfrávikið er um 1 cm. Það er því ljóst að krafan um að heildarbreiddin sé að lágmarki 8,0 cm eru ekki miklar kröfur en líklega alveg nægar kröfur þar sem stærð eistna hjá íslenskum stóðhestum er heldur að aukast sem er vel.

Starfsfólk og staðarhaldarar

Að lokum vil ég þakka öllu starfsfólki kynbótasýninganna í ár fyrir vel unnin störf. Mikið til er þetta sama fólkið ár frá ári og hópurinn orðinn samhentur og góður; hvort sem það eru dómarar, sýningarstjórar eða ritarar. Einnig vil ég þakka gott samstarf við staðarhaldara á hverjum sýningarstað, en verkefninu er tekið af áhuga og metnaði og reynt að hafa alla þætti sýninganna sem besta. Þá vil ég að þakka sýnendum, ræktendum og eigendum hrossanna fyrir skemmtilega viðkynningu og gott samstarf á árinu.

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum átti flest afkvæmi sem voru sýnd fjögurra vetra í kynbótadómi á árinu, eða 13 talsins.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar