Sigurbjörn útilokar ekki endurkomu sem landsliðsþjálfari
Sigurbjörn Bárðarson hefur gegnt stöðu landsliðsþjálfara frá árinu 2017 þangað til í síðustu viku.
Sigurbjörn Bárðarson gegndi stöðu landsliðsþjálfara Íslands í hestaíþróttum frá árinu 2017 og þar til í síðustu viku, þegar hann tilkynnti að hann væri hættur í starfi í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér og lesa má hér.
Í yfirlýsingunni sagði meðal annars:
„Nú stendur yfir vinna hjá LH um framtíðarsýn í afreks- og landsliðsmálum LH sem fela m.a. í sér breytingar á starfi landsliðsþjálfara. Eftir að hafa farið yfir stöðuna með formanni LH og landsliðsnefndar er það sameiginleg ákvörðun okkar að leiðir skilji og nýtt fólk verði fengið til að halda utan um landsliðsstarfið í nýrri mynd.“
Í gærkvöldi birtist svo viðtal við Sigurbjörn í kvöldfréttum Sýnar þar sem fram kom að hann útilokar ekki endurkomu í starfið. Í samtali við fréttamann Sýnar sagði hann að hann hefði alltaf séð fyrir sér að starfið myndi ná fram yfir heimsmeistaramótið í Þýskalandi árið 2027 og að markmiðið hefði verið að taka „lokaslaginn“ þar. Hins vegar hafi orðið til óvissa hjá Landssambandi hestamannafélaga, auk ósvaraðra spurninga um framtíðarskipulag starfsins, sem hafi leitt til ákvörðunar hans um að stíga til hliðar núna.
Aðspurður um hvort hann gæti aftur tekið við starfinu sagðist hann ekki útiloka það. „Það er alveg í kortunum og ekki loku fyrir það skotið að ég komi að landsliðinu aftur sem landsliðsþjálfari,“ sagði hann, en bætti við að það færi eftir því hvaða breytingar yrðu gerðar á starfseminni og hvernig uppstokkun landsliðsnefndar og stjórnar yrði næstu daga.
„Það kemur þá í ljós hvaða stefnu þeir taka og hvort þeir leiti til mín,“ sagði hann.
Spurður hvað hann vonist til að gerist svaraði hann:
„Dyrnar eru opnar. Þetta er hugarfóstur manns og hefur verið það lengi, en það kemur bara í ljós á næstu dögum hvað verður.“
FEIF krefst þess að blóðmerahaldi verði hætt
Tilnefningar til knapaverðlauna LH