Fyrsta kynbótasýning ársins fer nú fram í Þýskalandi

Högni Fróðason, Sigurður Óli og Sigurður Óskarsson lítt þekkjanlegir með grímur í Ellringen
Fyrsta kynbótasýning ársins er nú í gangi í Ellringen í Þýskalandi en þar eru alls 75 hross skráð í dóm.
Eiðfaxi heyrði í Sigurði Óla Kristinssyni sem er einn af þeim knöpum sem eru með hross á sýningunni. „Hér er mikið umstang vegna Covid-19 og eru allir knapar og starfsfólk með grímur. Sýningunni er í raun tvískipt til þess að takmarka hversu margir eru á svæðinu í einu. Þau hross sem voru sýnd í gær eru á yfirlitssýningu í dag og svo byrja byggingadómar og reiðdómar í dag og seinni yfirlitssýning á morgun. Hér er því allt gert samkvæmt reglum og Þýski aginn í hámarki.“
Hæst dæmda hrossið á sýningunni að svo stöddu er Léttfeti vom Kronshof II sem er sýndur af Frauke Schenzel. Sjö vetra gamall stóðhestur sem hlotið hefur fyrir sköpulag 8,46, fyrir hæfileika 8,37 og í aðaleinkunn 8,40. Hér fyrir neðan má sjá dóminn á honum en þar má einnig sjá hæfileikaeinkunn án skeiðs og aðaleinkunn án skeiðs.
