Klofningur í röðum hestamanna?

  • 11. ágúst 2020
  • Fréttir

Enginn Íslandsmeistari verður krýndur í ár. mynd: Bjarney Anna Þórsdóttir

Eins og allir hestamenn vita tók stjórn Landssambands hestamannafélaga þá ákvörðun að aflýsa Íslandsmótinu í hestaíþróttum, sem átti að fara fram 12.-16.ágúst, vegna hertra aðgerða sóttvarnaryfirvalda í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19. Í yfirlýsingu stjórnarinnar kom meðal annars fram að samfélagsleg ábyrgð hefði verið í forgrunni við ákvarðanatökuna.

Sitt sýndist hverjum um ákvörðunina, sumum fannst hún fullkomlega eðlileg meðan öðrum þótti full langt gengið og að hægt væri að halda slík mót án þess að brjóta þær reglur sem settar hafa verið varðandi fjölda- og fjarlægðartakmarkanir milli einstaklinga.

Í gærkvöldi gaf Hestamannafélagið Sprettur það út að þau ætli sér að halda opið íþróttamót dagana 21.-23. ágúst. Blaðamaður Eiðfaxa hafði samband við Lilju Sigurðardóttur, framkvæmdarstjóra Spretts, og spurði hana út í ástæður þess að halda ætti opið íþróttamót.
Við í Hestamannafélaginu Spretti höfum fengið fjölda fyrirspurna frá knöpum og aðstandendum þeirra sem stefndu á þátttöku á Íslands- og Suðurlandsmóti um að halda opið íþróttamót. Við teljum okkur geta haldið mót og farið á sama tíma eftir fjarlægðar- og fjöldatakmörkunum með sama hætti og viðhaft var í vor þegar hestamannamót voru haldin.“

Eiðfaxi leitaði einnig viðbragða hjá Ólafi Þórissyni formanni Hestamannafélagsins Geysis þar sem fyrirhugað var að halda Íslands- og suðurlandsmót í ágúst. „Mér finnst þessi ákvörðun einkennileg og taktlaus í ljósi þess ástands sem ríkir hér á landi og í heiminum öllum. Það var ekki skorað á okkur í Geysi að halda Suðurlandsmót eftir að við aflýstum en það kom til umræðu að halda íþróttamót í september ef að ástandið yrði betra.“ sagði Ólafur meðal annars.

Það er ljóst að hestamenn skiptast í fylkingar og gætir klofnings meðal þeirra um stórar ákvarðanir sem þessar.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar