Lukku-Láki seldur til Þýskalands

  • 16. október 2020
  • Fréttir

Hinrik Bragason og Lukku-Láki á Reykjavíkurmeistaramóti árið 2019

Viðtal við Benedikt ræktenda Lukku-Láka

Stóðhesturinn Lukku-Láki er seldur til Þýskalands, þetta staðfesti Benedikt G. Benediktsson ræktandi hans við Eiðfaxa.

Lukku-Láka þekkja allir hestamenn enda er hann stórættaður undan hæst dæmdu hryssu allra tíma, Lukku frá Stóra-Vatnsskarði, sem hlaut í aðaleinkunn 8,89 á Landsmóti á Hellu árið 2008 sýnd af Þórði Þorgeirssyni. Faðir Lukku-Láka er Álfur frá Selfossi, sem líkt og Lukka var einn af stjörnum Landsmótsins árið 2008.

Lukka með Lukku-Láka með sér sem folald

Lukku-Láki vakti fyrst eftirtekt þegar hann kom fram tveggja vetra gamall á ungfolasýningu á vegum Hrossaræktarsambands Suðurlands í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli og stóð þá efstur í sínum aldursflokki. Til viðbótar við það völdu áhorfendur hann annan af glæsilegustu folum sýningarinnar. En sá Benedikt, ræktandi hans, strax hvað í honum bjó? ,,Hann var strax mjög áberandi sem folald og í uppvexti og það má segja að hann hafi verið kominn til þess að gera góða hluti. Vitur og yfirvegaður og vildi allt fyrir mann gera frá fyrsta degi. Hann hefur alla tíð verið mjög mannelskur og fylgst með öllu sem fram fer í hesthúsinu. Hann er fyrsta afkvæmi Lukku og fékk hann meiri athygli en þau sem á eftir komu sem má segja að hafi bæði verið gott en stundum ekki til bóta.“  

Lukku-Láki vakti fyrst athygli á ungfolasýningu árið 2011

Lukku-Láki kom fyrst til kynbótadóms fimm vetra gamall árið 2014 þar sem hann hlaut 8,40 fyrir sköpulag, 8,42 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,41. Þar bera hæst einkunninar 9,0 fyrir háls,herðar og bóga og samræmi. Hann hlaut jafnan og góðan dóm í hæfileikum 8,5 fyrir flesta þætti. Hann hækkaði svo á Landsmótinu og hlaut þá 8,44 fyrir hæfileika og þar af 9,0 fyrir brokk og stökk. Sýnandi hans var Hans Þór Hilmarsson.

Hans Þór og Lukku-Láki á Íslandsmótinu 2016

Hans Þór sýndi hann einnig í hans hæsta dóm sem hann hlaut 7.vetra gamall á Brávöllum á Selfossi árið 2016. Hlaut hann þá 8,46 fyrir sköpulag og 8,70 fyrir hæfileika þar af 9,0 fyrir brokk, skeið og fegurð í reið. Aðaleinkunn hans í þeim dómi er 8,60. Þá reið Hans honum til A-úrslita í fimmgangi á Íslandsmótinu í Hestaíþróttum árið 2016.

Lukku-Láki hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmótinu í Víðidal árið 2018. Í afkvæmaorðum hans segir m.a.

,,Lukku-Láki gefur stór hross með fremur frítt höfuð. Hálsinn er langur og mjúkur en í meðallagi settur. Afkvæmin eru fótahá og myndarleg. Fætur eru þurrir með góð sinaskil en nágengir að aftan. Hófar eru efnisþykkir með hvelfdan botn og prúðleiki er í rúmu meðallagi. Afkvæmin hafa þjálan reiðvilja, töltið er jafnan best en fá sem skeiða að gagni. Töltið er takthreint og skrefmikið, brokkið er skrefmikið með góðri fótlyftu. Stökkið er teygjugott og fetið er yfir meðallagi. Lukku-Láki gefur skrefmikil hross sem fara afar vel í reið með góðum höfuðburði, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og áttunda sætið.“

Lukku-Láki hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 2018

En hverja telur Benedikt að séu hans helstu kostir. „Að mínu mati eru hans helstu kostir stærð og myndarskapur, rými á gangtegundum og þá er hann hestur sem gefur knapanum feiknar góða tilfinningu og má líkja því að vera kóngur um stund að ríða honum.“

Hinrik Bragason hefur séð um þjálfun og sýningu á Lukku-Láka síðastliðinn ár og hann hafði náð góðum árangri á honum í fimmgangi og var m.a. í A-úrslitum á Reykjavíkurmeistaramóti árið 2019 þar sem hann varð í öðru sæti með einkunnina 7,36.

Eins og áður segir að þá er Lukku-Láki seldur og fer hann til Þýskalands og er fyrirhugað að hann haldi af landi brott á mánudaginn. En var það ekki erfið ákvörðun að taka að selja hann?
,,Það var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun, hann hafði þjónað sínu hlutverki vel hér á landi og það er ekki markmið að safna stóðhestum. Nýjir hesta taka við hjá mér m.a. náfrændni hans sem er nauðalíkur Lukku-Láka og er líkt og hann sé endurfæddur. Hann er undan Kylu frá Stóra-Vatnsskarði og Þránni frá Flagbjarnarholti. Hann er því náskyldur Lukku-Láka beggja megin.“

Er fyrirhugað að hann verði notaður í keppni eða hvert verður hlutverk hans í Þýskalandi? ,,Hlutverk hans í Þýskalandi er að vera nýjum eigendum sínum til ánægju og yndisauka og ekki er ósennilegt að hann verðir notaður eitthvað til ræktunar enda alla tíð verið vinsæll hjá Þýskum unnendum íslenska hestsins“

Eiðfaxi þakkar Benedikt fyrir spjallið og óskar honum áframhaldandi velgengni við ræktun hrossa.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar