Það á að vera merkilegt að eiga fyrstu verðlauna hross

  • 20. desember 2021
  • Fréttir
Hrossabændur teknir tali - Ragnheiðarstaðir

Nú þegar líða fer að jólum ætlar Eiðfaxi að stytta okkur stundirnar og taka nokkra ræktendur landsins á tali sem eru í óðaönn að undirbúa komandi tímabil. Næsta hrossaræktarbú sem við kynnum til leiks er Ragnheiðarstaðir

Á bakvið ræktunina er Helgi Jón Harðarson, eða Helgi í Hraunhamri eins og hann er betur þekktur, og fjölskylda hans. Afhverju ákvað Helgi að hella sér út í ræktunina? “Já þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég hef haft mikinn áhuga á hestum alla tíða en sem ungur drengur var ég í sveit hjá Ingimari á Jaðri en hann ræktaði hross af Hornfirska kyninu. Eftir sveitadvölina settist ég á skólabekki og stundaði fótbolta o.fl., algjör alæta á íþróttir, og hugsaði lítið um hesta á meðan,” en Helgi lagði leið síðan á Landsmót 2000 í Reykjavík þar sem hann sá þá Orra frá Þúfu í Landeyjum og Kolfinn frá Kjarnholtum og þá var ekki aftur snúið. “Ég hugsaði bara mig langar í hross eins og þessa tvo gæa. Ég eignaðist líka góð hross undan þessum tveimur höfðingjum en ég er heltekinn Orra og Kolfinns aðdáandi. Ég sæki í þetta blóð og vill helst hafa Kolfinn tvisvar sinnum á bakvið þau hross sem ég rækta,” bætir Helgi við.

Reynir að halda í eitthvað af hryssunum

Það má segja að ræktunin hafi byrjað 2005 en þá fæddist þeim brún hryssa, Hrund frá Ragnheiðarstöðum, en hún var fyrsta afkvæmi Hendingar frá Úlfsstöðum. Síðan þá hafa margir gæðingar bæst í hópinn og má þar nefna stóðhestana þá Herjólf, Hákon og Herkúles. Allir hafa þeir vakið verðskuldaða athygli og hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi. “Þegar ég tala um hrossin mín reyni ég að bulla ekki mikið og er ég búin að vera heppinn með að ég hef getað staðið við þessi orð sem ég sendi frá mér. Herkúles og Herjólfur eru farnir að utan en Hákon er ennþá hér á landi og verður líklega áfram,” segir Helgi, aðspurður hvort það sé ekki erfitt að selja þessa gæðinga segir Helgi það vera af nauðsyn. “Ég er að reyna reka þetta svo það er allt í lagi að það komi eitthvað í kassann. Þetta kostar helling af peningum þó þetta sé bara áhugamál,” bætir hann við en hann reynir að halda í eitthvað af hryssunum.

“Þegar ég keypti Ragnheiðarstaði var jörðin landmikil eða um 540 hektarar, ég er síðan búinn að losa mig við tvær stórar spildur síðan þannig að jörðin hefur minnkað heilmikið en samt alveg feykistór fyrir litla ræktun. Við fjölskyldan ríðum mest út í Hafnarfirði en þar erum við með stórt hesthús þar sem pláss er fyrir slatta af hrossum en við erum með hross á húsi ca. átta mánuði á ári. Síðan erum við með litla inniaðstöðu sem nýtist ágætlega. Húsið var byggt 2012 og er samtals 700 fm. Draumurinn er að byggja á lóðinni hér við hliðina sem við eigum en þar gæti ég byggt og stækkað reiðskemmuna og haft innangengt í leiðinni en lóðin þar er 2.000 fm,“ segir Helgi.

Eru að fá fjögur folöld að jafnaði á ári

Ræktunin á Ragnheiðarstöðum er ekki stór en þrátt fyrir það hefur hún verið afar farsæl. Meðal annars hefur búið verið tilnefnt sem ræktunarbú ársins undanfarin tvö ár. “Við erum að fá fjögur folöld að jafnaði á ári. Aðalræktunarhryssurnar hafa verið þær Hátíð og Hending báðar frá Úlfsstöðum en þær eru að detta út. Hátíð reyndar fallin frá. Þruma frá Hólshúsum (8,40) hefur líka verið drjúg en hún er líklega að syngja sitt síðasta. Yngri hryssurnar eru þær Hrund (8,25), Helga-Ósk (8,09) og Heiða allar frá Ragnheiðarstöðum en Helga-Ósk og Hrund eru Orradætur undan Hendingu. Hátíðs- og Hrannarsdóttir, Hávör frá Ragnheiðarstöðum (8,54), er komin í ræktun, fylfull við Ský frá Skálakoti, einnig eru við að rækta líka annað hvert ár undan annari Hátíðardóttir undan Krák frá Blesastöðum“, segir Helgi sem nældi sér líka í nýtt blóð fyrra haust þegar hann festi kaup á Dimmu frá Hjarðartúni 6v. (8,56) en hún er undan Dögg frá Breiðholti og Spuna frá Vesturkoti. „Ég er reyndar búinn að selja helminginn í henni til Birgis og fjölskyldu í Sumarliðabæ. Dimma er að koma inn um næstu helgi og verður byrjað að þjálfa hana létt hér af okkur, jafnvel verður stefnan tekin á Landsmót með Dimmu, hver veit“ bætir Helgi við.

Vonar fyrst og fremst að hrossin heilli brekkuna

Það verður nóg um að vera hjá Helga og fjölskyldu í vetur en þau verða með fullt af hrossum á járnum og síðan verður hann með sjö til átta hross á öllum aldri í þjálfun hjá atvinnumönnum í vetur. “Það er margt spennandi í þjálfun í vetur. Þyrnirós frá Ragnheiðarstöðum (8,33) 6 vetra undan Herkúles verður í þjálfun en það er jafnvel stefnt með hana í keppni. Mjög flott hryssa. Við eigum nokkur ung og efnileg mertryppi tveggja til þriggja vetra m.a. Adríansdóttir undan Þrumu frá Hólshúsum, Spaðadóttir undan Helgu-Ósk, Hendingardóttir undan Þráni, Boðadóttir undan Hrund. Einnig er til Hákonardóttir undan Þrumu líka og flottur Lokasonur undan Hátíð sem er á fjórða vetur. Síðan er efnilegur Álfaklettssonur undan Hendingu á fjórða og Boðadóttir á sama aldri. Helgu-Ósksonur á fimmta undan Boða er líka mjög efnilegur,“ segir Helgi en í sumar hélt hann undir m.a. Hreyfil f. Vorsabæ, Ský frá Skálakoti og Hrannar frá Flugumýri II. En hvert er markmiðið með ræktuninni? “Það er langskemmtilegast ef hrossin eru eftirtektarverð. Þú getur verið með hross sem eru að stiga vel en ég vil frekar að þau séu eftirtektarverð þó þau detti endilega ekki inn í einhvern skala,” segir Helgi sem vonar að fyrst og fremst að hrossin heilli brekkuna. “Mér fannst hrossin í sumar vera góð. Vandæmd á köflum þá sérstaklega ungu hrossin af þeim sem ég sá. Það á ekki að vera sjálfsagt að hross komist í fyrstu verðlaun og þau eiga að þurfa hafa fyrir því. Það á að vera merkilegt að eiga fyrstu verðlauna hross. En þegar upp er staðið þá uppsker maður eins og maður sáir, samt ekki alltaf, en stundum og þá er maður glaður“ segir Helgi en það er í nógu að snúast hjá honum þessa dagana enda fasteignabransinn aldrei verið blómlegri. Við endum þetta ræktunarspjall hér og dembum okkur í jólakveðju og annað jólatengt.

Helgi óskar hestamönnum öllum gleðilegra jóla “ágætu hestamenn njótið vel því sem er framundan. Ég þakka fyrir árið og þakka fyrir að vera innan um allt þetta góða hestafólk þótt covid hafi áhrif á mikla samveru, Við fjölskyldan erum í Sörla Hfj og erum stolt að því enda mikið framundan þar, gleði og stemmning. Sörli er á uppleið enda líka staðsett á einu flottasta útreiðasvæði landssins, svo erum við líka að fara að byggja nýja alvöru reiðhöll í samstarfi við bæinn en skóflustungan var tekin í sumar. Þetta svæði er mekka hestamennskunar á stór Hafnarfjarðarsvæðinu ! Enda allt uppselt af hesthúsum ! Það eru samt allir velkomir í Sörla í Hafnarfirði. Hér er nóg af flottum lóðum sem ég er með í sölu fyrir bæinn.“

Hvernig eru jólin hjá ykkur? “Við erum svo heppin að við búum rétt hjá hesthúsinu sem er algjör lúxus. Við verðum örugglega mikið að ríða út í kringum jólin. Skreppum kannski á skíði til Akureyrar nokkra daga um áramótin en frúin er að hvetja mig áfram í því. Við borðum önd á aðfangadag en hún er alltaf klassísk og jóladagana æði ég og dæturnar frekar snemma upp í hesthús og er deginum oftast eytt þar.“

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar