Survive Iceland, 245 km, 4 dagar, 6 knapar, 18 hestar
Við endurútreikninga á niðurstöðum vegna mistaka við tölvuvinnslu kom í ljós að aðeins ein mínúta skilur á milli keppenda í fyrsta og öðru sæti í Survive Iceland 2022.
Heildarniðurstöður eru þessar:
1. Lífland – Hermann Árnason 16:16
2. H. Hestaferðir – Emelie Sellberg 16:17
3. Eldhestar – Sigurjón Bjarnason 16:48
4. Tamangur/Hestaland – Sami Browneller 19:23
5. Stálnaust – Karri Bruscotter 20:49
6. Íslandshestar – Marjon Pasmooij —
Heildarkílómetrafjöldi í reiðinni var um 245 km., stystu leggir voru 25 km. og lengsti leggur var 35 km. Fljótustu hestar voru um 2 klst. að fara hvern legg.
Meðalaldur keppnishestanna var 14,6 ár, hestur keppninnar, sá hestur sem kom best út miðað við hraða og ástand, er 12 vetra.
Tveir hestar urðu að hætta þátttöku í keppninni vegna þess að þeir reyndust lítillega haltir fyrir ræsingu. Þessir hestar voru í sama liði og varð liðið því að hætta keppni á þriðja degi.
Púlsmælar voru á hestunum í reið, þeir eru tengdir við úr sem knapinn ber og getur fylgst með púlsinum allan tímann. Þetta er mjög mikilvægt tæki fyrir knapann til að meta hversu hratt hann getur riðið og gefur vísbendingar um ástand hestins hverju sinni.
Dýralæknaskoðun fer fram 30 mín. eftir að komið er í mark og á þessum 30 mínútum er aðstoðarmönnum gert að ganga rólega um með hestinn og kæla hann því púlsinn fer hraðar niður á hreyfingu en í kyrrstöðu og við kælingu.
Refsistig voru gefin ef púls var yfir 55 á mínútum hálftíma eftir að komið var í mark og ef púls er hærri en 70 verður hestur dæmdur úr leik. Til þess kom ekki. Flest refsistig hlaut Hermann Árnason, eða 24 alls, fæst refistig hlutu Sigurjón Bjarnason og Sami Browneller, eða 9 stig hvort og fengu viðurkenningu fyrir sem knapar mótsins.
Flestir knapa riðu í léttum hnökkum og sumir í dýnum, margir riðu með legghlífar og nokkuð var um að knapar riðu við mélalaus beisli.
Öll liðin lögðu ríka áherslu á skjóta og góða endurheimt keppnishrossanna. Þau höfðu til þess meðferðis sín eigin bætiefni en styrktaraðilar keppninnar buðu líka upp á efni til notkunar.
Annars vegar styrktu Dýralæknar Sandhólaferju hrossin með Electrolyte Re Cover pasta og Electrolyte Performance dufti frá Blue Hors sem bæta upp sölt og steinefni til að hraða endurheimt og bæta vökvabúskap.
Hins vegar veitti Protexin Equine Premium styrk í formi Quick Fix og Gut Bind pasta og Gut Balancer dufts til að styðja við heilbrigða meltingu og magaflóru undir álagi. Í lok keppninnar var samskonar álagsskoðun á vegum MAST og gerð er á Landsmóti.
Gaman að segja frá því að rúmlega 3000 manns fylgdust með staðsetningu knapa á vef fyrirtækisins Samsýnar á meðan á reið stóð og er það frábært miðað við fyrstu keppni. LH þakkar Samsýn frábært samstarf.
Fyrirkomulag og reglur keppninnar er í þróun og munu verða gerðar ýmsar breytingar á keppninni. Var mikill lærdómur sem hlaust af keppninni í ár og er það af hinu góða.