Áhrifa gætir víða

Otur og Eiríkur Guðmundsson á Fjórðungsmóti á Melgerðismelum 1987
Eiðfaxi hefur fylgt hestamönnum frá árinu 1977 og geymir hann því margar heimildir úr heimi hestsins en í hann hefur margt verið ritað um hesta og hestamann, málefni líðandi stunda og það sem hvílir á huga greinarhöfunda hverju sinni. Í 1.tölublaði Eiðfaxa árið 2019 birtist grein eftir Óðinn Örn Jóhannsson þáverandi ritstjóra Eiðfaxa er fjallar um Otur frá Sauðárkróki sem var féll síðla árs 2018. Það er vel við hæfi að birta þessa grein nú á vefsíðu okkar svo fleiri geti notið hennar en hún er áhugaverð og vel skrifuð.
Áhrifa gætir víða
Otur frá Sauárkróki fallinn eftir langa veru í Þýskalandi 36 vetra gamall.
Höfundur: Óðinn Örn Jóhannsson
Það má segja að sumir hestar hrífi menn meira en aðrir en flestir sem sáu fjörhestinn Otur frá Sauðárkvóki sýndan muna vel eftir því. Um hann hafa verið notuð orð eins og fjörhestur, gammagæðingur og ólgandi viljahestur. Þetta er líka lýsingin á Otri hjá þeim sem riðu klárnum. Ég minnist samtala við bæði Einar Öder Magnússon sem frumtamdi hestinn, sýndi hann fjögurra vetra og Eirík Guðmundsson sem þjálfaði Otur á fimmta vetur. Báðir lýstu þessari miklu orku en þó þannig að hann hafi ávalt verið undir stjórn. Það er minnisstætt hvernig þeir settu sig báðir í ákveðnar stellingar þegar þeir töluðu um hestinn og það hefði þurft hjarta úr steini til þess að skynja ekki hvað þeim fannst mikið til hestsins koma. Otur var alinn upp á Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum en eins og sagði þá sá Einar Öder um tamningu hans fyrsta árið. Hann sýndi hann svo um vorið í Gunnarsholti þar sem hann hlaut 7,91 í aðaleinkunn og var hæstur fjögurra vetra hesta inn á Landsmótið 1986 á Gaddstaðaflötum. Á landsmótinu hækkaði hann svo í 8,04 í aðaleinkunn og stóð efstur í flokknum á undan þeim Gassi frá Vorsabæ II og Anga frá Laugarvatni en allir áttu þessir hestar eftir að vera áberandi ræktunarhestar.
Árið 1987 þá fimm vetra hækkaði hann í 8,22 í aðaleinkunn þá sýndur af Eiríki Guðmundssyni en það er á Landsmóti árið 1990 sem þeir ná hæsta einstaklingsdómi Oturs 8,37 í aðaleinkunn. Á þessu landsmóti varð Otur í þriðja sæti í elsta flokki stóðhesta á eftir Gassa frá Vorsabæ II og Kolfinni frá Kjarnholtum, en í viðtali við Svein Guðmundsson ræktanda hestsins leyndust vorbrygði hans ekki með að Otur hafi ekki staðið eftur í flokknum og sagði „Ég hef aldrei fyrr né síðar fundið slíkt fjör með þessari dásamlegu eftirgjöf ef svo má að orði komast“ Hæst hlaut Otur fyrir sköpulag 9,0 fyrir hófa en það er eitt aðalsmerki afkomenda Oturs hvað sköpulagið varðar. Fyrir kosti hlaut hann 8,69 en þar af hæst 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir vilja og fegurð í reið. Lægst hlaut hann 8,0 fyrir brokk og geðslag og segja má að það hafi verið sá annmarki á afkvæmum Oturs sem flestir hafa sett út á. Það er ljóst að heppilega reyndist með knapa sem þjálfuðu hestinn því að bæði Einar og Eiríkur voru hrifnir af flugvökrum fjörhestum og kunnu vel með þá að fara.

Ljósmynd: Friðþjófur Þorkelsson
Líktist mikið móður sinni
Í samtali við Guðmund Sveinnson á Sauðárkróki segir hann sig ekki muna mikið eftir Orti í uppeldinu enda hafi hann farið ungur í uppeldi á Stóðhestastöð ríkisins sem þá var rekin í Gunnarsholt. „Við kíktum á hann eitthverju sinni í uppeldinu en það ver ekki fyrr en á við fórum suður að sjá hann á fjórða vetur sem ég man fyrst vel eftir honum“ segir Guðmundur og segir Otur strax hafa verið eftirtektarverðan. Otur var tamin af Einari Öder þarna á fjórða og segir Guðmundur þá feðga hafa verið ánægða með tamininguna og sýningarnar á honum á fjórða vetri. „Það kom strax í ljós þetta mikla fjör sem hann bjó yfir en það er mjög líkt móður hans sem var svona orkumikil þegar komið var á bak.“ Segir Guðmundur og telur Otur vera miklu líkari móður sinni en föður og sem dæmi komi þessir einstöku hófar frá henni „Það var eins og að reka nagla í harðvið þegar maður var að járna hana.“ Það var svo ekki fyrr en á sjötta vetur sem Otur kom norður í þjálfun þar sem Guðmundur tók við þjálfuninni. „Ég fékk leiðbeiningar varðandi þjálfunina frá Eiríki Guðmundssyni sem sýndi Otur fimm vetra. Meðal annars man ég eftir því að hann lagði til að feta Otri talsverða stund í upphafi hvers reiðtúrs til fá ró yfir huga þessa mikla fjörhests, en þó fékk ég aldrei á tilfinnnguna að hann væri ekki undir stjórn.“ Segir Guðmundur en bætir við að það hafi ekki verið til í því að Otur hafi ætlað annað en að geðjast knapanum. „Þetta var bara svo einstakur fjörhestur“ Í þessa tíð voru stóðhestar ekki í keppni eins mikið og þekkist í dag. „Otur hafði mikið að gera í hryssum strax eftir vorsýningar og því var ekki í boði að notan hann í keppni. Það var þó í tvö skipti sem ég keppti á honum hér fyrir norðan í töltkeppni og man ekki betur en að hafa unnið í bæði skiptin. Töltið í honum var frábært og trúlega hefði hann verið bestur sem B-flokks hestur því að brokkið hafi styrkst mikið með aukinni þjálfun“
Þegar Guðmundur er inntur eftir því hver áhrif hans hafi verið í ræktuninni segir hann „Otur reyndist okkur feðgum ekki vel í okkar ræktun og trúlega höfum við verið komnir á endapungt í að rækta út af okkar hrossum og hrossum skyldum þeim. Hervar faðir Oturs passaði vel inn hjá okkur en trúlega var það of mikil skyldleikarækt fyrir okkur að nota Otur“ segir Guðmundur hugsi. Það er erfitt fyrir Guðmund að nefna annað en að Otur ræktist mest út frá Orra frá Þúfu en hann segir það ákveðin vorbrygði að dætur Oturs hafi ekki reynst betur í ræktun en raun ber vitni. „Þó er það klárt að Oturslínan hefur gert mjög gott hvað varðar kynbætur fyrir betri hófum“
Að lokum berst talið að því hvernig það kom til að Otur var seldur út. „Það hafði auðvitað verið spurt um klárinn í gegnum tíðina en þegar við seldum hann þá hafði áhugi á honum og notkunn minnkað og grundvöllurinn til að halda honum úti var kannski mikill. Þá kom tilboð í hann frá Þýskalandi og þar sem að við vissum að hann væri að fara á góðan stað var ákveðið að selja hestinn út“ segir Guðmundur en tekur jafnframt fram að það hafi verið mikil eftirsjá af honum.

Einar Öder Magnússon á Oturssyninum Þey frá Akranesi
Kattmjúkur, öskuviljur gammur
Valdimar Kristinsson blaðamaður Morgunblaðsins skrifaði árið 2000 um Otur þegar ákveðið hafði verið að selja hann út: „Otur frá Sauðárkróki á að baki skrautlegan feril sem stóðhestur í íslenskri hrossarækt. Óhætt er að segja að alltaf hafi gustað í kringum hann sem er mjög í takt við atgervi hans og útgeislun. Otur hefur verið ímynd hins villta óbeislaða vilja íslenska hestsins, kraftsins og rýmisins. Mörgum þótti eiginlega nóg um orkuna í þessum kattmjúka öskuviljuga gammi og var ekki laust við að sumum stæði ógn af honum. Á hans tamningarárum gengu sögur um að hann væri hrekkjóttur og viðsjárverður til ræktunar af þeim sökum.“ Til að kanna hvað til væri í þessum sögum sem fóru af Otri tók Valdimar viðtal við Einar Öder Magnússon og sagðist hann vera tilbúinn að rétta tíu fingur upp til guðs því til staðfestingar að hrekkir hefðu ekki verið til í Otri árið sem þeir áttu samleið. „Ég var oft spurður um þá hálfbræður Otur og Kjarval sem ég tamdi veturinn sem ég var á stóðhestastöðinni. Svaraði ég því gjarnan á þann veg að ég væri hrifinn af Kjarval en ástfanginn af Otri. Hann var alltaf þægur en mjög næmur og kvikur frá því fyrst var farið honum á bak. Viljinn var einnig kraumandi strax frá byrjun og vil ég skilgreina hann sem ósvikinn fjörhest eins og það var kallað hér áður fyrr. Töltið var alla tíð mjög gott og öruggt, skeiðið opið og eðlislægt en á brokki gat hann verið háll sem áll. Ekki var alltaf hægt að ganga að því vísu en í góðu tómi var ekkert mál að láta hann brokka og þá var það líka gott. Otur var strax frá fyrstu stundu sem farið var á bak honum þessi mikli höfðingi, svipmikill, faxprúður og ólgandi í fjöri. Mér fannst ég alla tíð sitja fullþroska hest með sterkum persónuleika en ekki trippi á fjórða vetur,“ sagði Einar Öder sem var mjög brugðið þegar hann heyrði þau tíðindi að klárinn væri á leið úr landi. „Ég hefði helst kosið að sjá þennan höfðingja enda ævi sína á Íslandi því hann býr yfir og gefur af sér verðmæta eiginleika sem við höfum full not fyrir þau ár sem hann á eftir ólifuð og vil ég þar nefna töltið, úrvals hófa og alvöru vilja eða fjör. Alla þessa eiginleika hefur hann gefið í mjög ríkum mæli,“ bætti Einar við.
Náði ekki heiðursverðlaunum
Otur hlaut tvisvar sinnum 1.verðlaun fyrir afkvæmi fyrra skiptið árið 1993 á Fjórðungsmót á Vindheimamelum en seinna skiptið var það á Landsmóti á Gaddstaðaflötum árið 1994. Þetta á sér þá skýringu að búið var að setja saman afkvæmahóp Oturs fyrir mótið árið 1994 en við útreikninga á kynbótamatinu lækkaði hann niður í 123 stig og náði þar með ekki því 125 stiga lágmarki sem þurfti til heiðursverðlauna. Þrátt fyrir að þetta hafi verið talsverð vonbrigði fyrir Sauðárkróksfeðga tóku þeir þá ákvörðum að sýna hestinn aftur til 1.verðlauna fyrir afkvæmi enda væri afkvæmahópur hans þannig að þau mundu kynna föður sinn með sóma. Í hópnum var Orri frá Þúfu fremstur í flokki en hann stóð efstur í B-flokki á mótinu en ásamt honum má nefna Kjark frá Egilsstaðabæ, Óttu frá Grafarkoti of Dagsbrún frá Hrappsstöðum. Árið 1994 voru afkvæmaorð ráðunautanna um Otur eftirfarandi:“Afkvæmi Oturs hafa myndarlegt og svipmikið höfuð en eyru oft illa sett. Hálsinn er reistur, þykkur, herðar háar og bógar skásettir. Bakið er beint, lendin frekar stutt og áslaga. Afkvæmin eru stuttvaxin og bolmikil en lofthá. Fætur eru grannir, oft votir, kjúkur beinar og langar. Hófar eru framúrskarandi vel gerðir. Sum afkvæmanna hafa úrvalstölt, brokkið er mistækt en vekurðin rúm sé hún fyrir hendi. Þau eru kraftmikil á stökki, fjörhörð og fasmikil.“
Þrátt fyrir að hafa ekki náð heiðrusverðlaunum þá voru vinsældir hans áfram talsverðar og áhrif hans í ræktuninni talsverðar en þræðir hans liggja víða í hrossastofninum í dag.
Heiðursforeldrar
Otur var undan tveimur heiðursverðlaunahrossum þeim Hervari og Hrafnkötlu. Þegar afkvæmaorð foreldra Oturs eru skoðuð má sjá ýmislegt sem hann efur erft frá foreldrum sínum: Það er gaman með svona langræktaðan hest að bera afkvæmaorð hans saman við afkvæmaorð foreldra hans og geta sér til hvaðan eiginleikarnir koma.
„Afkvæmi Hervars eru með fremur gróft höfuð og eyrun oft útstæð. Þau eru hálslöng og mjög vel reist, bakið stutt, lendin ávöl og meðallöng. Bolurinn er stundum djúpur en oftar vel borinn og léttur. Fætur eru grannir og ekki traustlegir, kjúkur langar og oft snoðnar. Réttleikinn er þokkalegur og hófar líta vel út og eru heldur efnisgóðir. Afkvæmin eru fjölhæf í gangi, hreingeng og rúm en til beggja átta bregður með fótaburð. Viljinn er mikill, lundin ör og fremur köld. Myndarleg, höfuðgróf, reist og viljug reiðhross með allan gang sem fara fallega.“
„Afkvæmi Hrafnkötlu 3526 eru höfðingleg og svipmikil á höfuð, þau eru herðahá og vel reist, bakið þokkalega mjúkt en full stutt, lendin áslaga og full gróf. Fætur eru þurrir, nokkuð snúnir en hófar prýðilegir. Þau eru fjörviljug alhliða ganghross með snarpa vekurð en oft er lundin hörð.“
„Afkvæmi Oturs eru liðlega meðalstór, höfuðið er myndarlegt og svipmikið en eyru oft illa sett. Hálsinn er reistur, þykkur, herðar háar og bógar skásettir. Bakið er beint, lendin frekar stutt og áslaga. Afkvæmin eru stuttvaxin og bolmikil en fremur lofthá. Fætur eru grannir, kjúkulangir og oft votir, réttleiki er í meðallagi en hófar frábærir. Afkvæmi Oturs hafa úrvals tölt, brokkið er verklegt og vekurðin rúm sé hún fyrir hendi. Þau eru kraftmikil á stökki, fjörhörð og fasmikil.“
Gull og grjót
Þó svo hægt sé að nefna þónokkrar dætur Oturs sem reynst hafa ágætlega sem ræktunarhryssur eins og Viðju frá Sauðárkróki sem gefið hefur þrjú 1.verðlaunaafkvæmi, Klassík frá Grafarkoti sem gefið hefur fimm fyrst verðlaunaafkvæmi þá eru þær Orka frá Hvammi og Fjöður frá Ingólfshvoli örugglega þær dætur Oturs sem reynst hafa best í ræktun. Orka er undan heiðursverðlaunahryssunni Löpp frá Hvammi og á Orka tólf skráð afkvæmi og þar af tvo syni með yfir 8,60 í aðaleinkunn þá Oliver og Óm frá Kvistum en sá síðarnefndi hlaut heiðursverðlauna fyrir afkvæmi á síðasta Landsmóti. Oliver hefur einnig reynst vel sem ræktunarhestur en hann var seldur til Svíþjóðar sama ár og hann hlaut sinn hæsta dóm. Því var hann ekki mikið notaður af ræktendum hér á landi. Lengi vel biðu ræktendur eftir syni Oturs sem taka mundi við föður sínum sem ræktunarhestur. Fjöður er undan Otri og heiðursverðlaunahryssunni Gyðju frá Gerðum en af sextán afkvæmum Fjaðrar eru sjö með 1.verðlaun en hún er í ræktun í Auðsholtshjáleigu. Dætur Fjaðrar hafa reynst vel í ræktun og hafa þónokkur afkvæmi þeirra gert það gott bæði í keppni og á kynbótabrautinni.

Orka frá Hvammi, móðir heiðursverðlaunastóðhestsins Óms frá Kvistum, er trúlega sú dóttir Oturs sem reynst hefur best í ræktun
Í umfjöllun um Otur sem ræktunar hest var eitt sinn sagt að hann gæfi ýmist afkvæmi sem væru gull eða grjót. Með þessu var átt við að hátt hlutfall afkvæma Oturs væru þannig að þau nýttust eigendum sínum alls ekki en inn á milli væru gullgóðir gæðingar. Undir þessi orð má taka að vissu marki en í afkomendahópi Oturs eru hross sem unnið hafa alla stæstu titla íslandshestamennskunnar. Trúlega hefur enginn stóðhestur gefið eins marga sigurvegara í B-flokki gæðinga á Landsmóti en þrír synir hans hafa unnið þann titil og tveir sonasynir.
Án efa er Orri frá Þúfu besta afkvæmi föður síns en saga hans er ævintýri líkust og hefur hann fyrir löngu sýnt að hann er farsælasti kynbótahestur sögunnar. Fyrir utan Orra má nefna Rökkva frá Hárlaugsstöðum sem sjálfur var einn fremsti keppnishestur landsins um langt skeið og hefur í seinni tíð sýnt sig sem einn besti keppnishestafaðir seinni tíma. Af sonum hans má nefna Greifa frá Holtsmúla sem var samanlagður heimsmeistari í fimmgangsgreinum, Hrímnir frá Ósi íslands- og heimsmeistari í fjórgangi og Spölur frá Njarðvík úrslitahestur á heimsmeistaramóti. Að auki er Rökkvi faðir Glóðarfeykis frá Halakoti sem stóð efstur í elsta flokki á heimsmeistaramóti.

Hrímnir frá Ósi fyrrum heimsmeistari í fjórgangi er sonarsonur Oturs en hann er undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum
Margur sá eftir Otri
Árið 2000 þegar Otur var seldur úr landi varð talsverð umræða um hvort rétt hefði verið á þeim tíma að stofnverndarsjóður hefði átt að gang inn í kaupin. Þá var sú regla að hestar sem höfðu ákveðið kynbótamat voru ekki sendir án þess að sjóðurinn tæki til skoðunar hvort rétt væri að handa hestinum í landinu. Kynbótamat Oturs á þeim tíma var ekki þannig að þetta kæmi til en í þessari umræðu ritaði Valdimar Kristinnsson eftirfarandi „Salan á Otri minnir menn á að íslenskir hrossaræktendur verða að halda vöku sinni hvað viðkemur útflutningi á góðum stóðhestum. Finna má mörg dæmi þess að búfjárræktendur víða um heim hafi glutrað niður góðum stofni með hömlulausri sölu bestu kynbótagripanna úr landi. Nú hafa samtök hrossaræktenda ekki aðgang að stofnverndarsjóði eins og áður var og hömlur á sölu góðra gripa hafa verið rýmkaðar. Markaðslega séð er nauðsyn á því að selja ræktendum í öðrum löndum góða gripi en einhvers staðar verður að draga mörkin. Hvað Otur varðar má segja að hann hafi skilað góðum fjölda til hrossaræktarinnar og þar á meðal besta stóðhesti landsins og því kannski í lagi að hann fari úr landi. Hinu má ekki gleyma að ekki er útilokað að hann geti enn skilað jafningja Orra eða jafnvel betri kynbótahesti og þá er hætt við að svipurinn verði skrýtinn á íslenskum hrossaræktendum sem hingað til hafa lagt ofurkapp á að halda forystunni í ræktun íslenska gæðingsins í heiminum.“
Otur hefur ekki skilað miklu til hrossaræktarinnar í Evrópu en þó er hæst dæmda afkvæmi hans Teigur frá Kronshof fæddur þar. Það hafa reyndar margir haldið því fram að þegar Otur fór út hafi menn verið farnir að átta sig á hvernig hryssur pössuðu best á móti honum, en hver saga Oturs hefði verið hér á landi hefði orðið með áframhaldandi veru hér heima er ómögulegt að segja. Þó er ljóst að áhrif hans í ræktuninni hér heima eru talsverð og þá sér í lagi í gegnum Orra son hans sem klárlega skipar sér í sérflokk ættfeðra hrossastofnsins.