Allir að mæta á Heimsmeistaramót

Blaðamaður Eiðfaxa hitti Roman Spieler framkvæmdastjóra Heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Sviss á dögunum og tók hann tali en hann ásamt sínu teymi er á fullu að skipuleggja mótið.

„Það er mjög auðvelt að ferðast frá Íslandi til Sviss. Þú getur annað hvort pantað þér flug með Icelandair eða Edelweiss, sem flýgur bæði frá Reykjavík og Akureyri, til Zürich. Þaðan er hálftími með lest eða á bílaleigubíl á mótssvæðið í Birmenstorf,“ segir Roman og hvetur alla til að mæta á heimsmeistaramótið sem fer fram dagana 3.-10. ágúst.
Styðst að gista í Baden
Samkvæmt Roman er best að bóka sér gistingu í bænum Baden sem er í minna en 10 mínútna fjarlægð frá mótssvæðinu.
„Það fer hver að verða síðastur að tryggja sér hótelherbergi í Baden en annars er einnig hægt að panta á Hóteli í Zurich en það er innan við hálftími til Zurich frá mótsvæðinu og mjög góðar samgöngur þar á milli. Í Baden mun verða rúta sem keyrir til og frá mótsstað á klukkutímafresti yfir daginn.“
Eitthvað fyrir alla
Fyrir utan keppnina og kynbótasýninguna á mótinu sjálfu verður nóg um að vera á mótsvæðinu en t.d. verður á hverju kvöldi lifandi tónlist og m.a. mun Stuðlabandið spila á laugardagskvöldinu.
„Það verður eitthvað fyrir alla. Við verðum með fjöldan allan af sölubásum í markaðstjaldinu, verðum með 14 mismunandi matarvagna og síðan á kvöldin verður lifandi tónlist og alls konar skemmtidagskrá. Það ættu allir að finna eitthvað fyrir sig.“
Á heimasíðu Heimsmeistaramótsins eru allar helstu upplýsingar en íslenska stúkan er að seljast upp svo það fer hver að verða síðastur að tryggja sér sæti þar.