Árbók Eiðfaxa – Eygló frá Þúfum

  • 13. janúar 2021
  • Fréttir

Eygló frá Þúfum, knapi er Mette Mannseth. Mynd: Árni Rúnar Hrólfsson

Árbók Eiðfaxa 2020 kemur út nú í vikunni, stútfull af fróðlegum og skemmtilegum umfjöllunum um nýliðið keppnis- og kynbótaár.

Meðal efnis í Árbókinni eru umfjallanir um tíu efstu kynbótahross í hverjum aldursflokki. Þeirra á meðal er listatryppið Eygló frá Þúfum sem gerði sér lítið fyrir og uppskar hæsta kynbótadóm sem gefinn hefur verið fjögurra vetra hryssu, á kynbótasýningu á Hólum í sumar og í Árbókinni er að finna viðtal við ræktendur og eigendur Eyglóar, þau Gísla Gíslason og Mette Mannseth á Þúfum:

Í ættartré Eyglóar er að finna flesta af þeim forfeðrum sem Mette og Gísli leggja áherslu á að hafa í sínum hrossum. Kolfinn frá Kjarnholtum er að finna fjórum sinnum í ættartrénu hjá henni og þá Ófeig frá Flugumýri og Náttfara frá Ytra-Dalsgerði þrisvar sinnum. „Sem tryppi að þá munum við eftir henni þar sem hún fór mikið á hreinu tölti. Við eigum myndband af henni þegar hún kemur heim úr Dalnum ásamt fleiri hrossum þá líklega tveggja vetra gömul. Hún dillar sér eftir afleggjaranum hér heim á hreinu tölti meðan önnur unghross voru á brokki eða skeiði og orðin frekar þreytt eftir reksturinn heim. Þannig var hún í uppeldinu ofsalega rýmisleg á tölti og brokki.“

Við munum halda áfram næstu daga að kynna meira efni úr Árbókinni, enda af nægu að taka. Gera má ráð fyrir að Árbókin komi inn um bréfalúgur áskrifenda öðru hvor megin við helgina og verður hún í framhaldinu einnig fáanleg í öllum helstu hestavöruverslunum. Ekki missa af Árbók Eiðfaxa!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar