Árni Björn og Álfamær báru sigur úr býtum

Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ Myndir: Carolin Giese
Skeiðmót Meistaradeildarinnar er hálfnað en keppni er lokið í gæðingaskeiði og næst verður farið yfir í 150 m. skeið.
Það er blíða hér á Brávöllum á Selfossi miðað við oft áður á skeiðmótum Meistaradeildarinnar. Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ áttu bestu skeiðsýningar dagsins og unnu með 8,75 í einkunn. Annar varð Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk með 8,42 og í þriðja Þorgeir Ólafsson á Mjallhvíti frá Sumarliðabæ 2 með 7,96 í einkunn. Mikilvæg stig sem Þorgeir er að næla sér í en hann varð fimmti í einstaklingskeppninni fyrir daginn og er nú kominn upp í fjórða sætið með 27,5 stig.

Top Reiter unnu liðaskjöldinn en fyrir liðið kepptu þau Árni Björn, Konráð Valur og Eyrún Ýr Pálsdóttir en þau hlutu 58 stig.
Það er mikil spenna orðin í einstaklings- og liðakeppninni en fyrir mótið var Ásmundur Ernir Snorrason efstur með 39 stig. Hesturinn lá ekki í fyrra spretti hjá honum svo hann kemur stigalaus úr greininni en heldur þó toppsætinu. Aðalheiður Anna var önnur og seinni spretturinn klikkaði hjá henni og því enginn stig í hús. Næstu þrír knapar eru þau Eyrún Ýr, Jón Ársæll og Þorgeir. Eyrún Ýr náði sér í dýrmæt stig og er nú komin með 33 stig jöfn Aðalheiði Önnu í öðru sæti. Þorgeir hefur saxað á stigamuninn og er eins og áður sagði kominn í fjórða sæti með 27,5 stig. Það er þó enn nóg af stigum í pottinum enda þrjár greinar eftir.
Í liðakeppninni er Sumarliðabær enn efsta liðið með 203,5 stig en hin liðin nálgast óðfluga. Top Reiter náði sér í helling af stigum og færði sig úr fjórða sæti í annað sæti og er nú með 189,5 stig. Hjarðartún er þriðja með 186,5 stig og Ganghestar/Margrétarhof fjórða með 178,5 stig.
Niðurstöður úr gæðingaskeiðinu
Sæti Knapi Hross Einkunn
1 Árni Björn Pálsson Álfamær frá Prestsbæ 8,75
2 Konráð Valur Sveinsson Kastor frá Garðshorni á Þelamörk 8,42
3 Þorgeir Ólafsson Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2 7,96
4 Hinrik Bragason Trú frá Árbakka 7,88
5 Eyrún Ýr Pálsdóttir Heiða frá Skák 7,79
6 Bjarni Jónasson Eðalsteinn frá Litlu-Brekku 7,75
7 Sigurður Vignir Matthíasson Hlekkur frá Saurbæ 7,71
8 Hanna Rún Ingibergsdóttir Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk 7,63
9 Jóhann Kristinn Ragnarsson Þórvör frá Lækjarbotnum 7,58
10 Sigursteinn Sumarliðason Liðsauki frá Áskoti 7,54
11 Daníel Gunnarsson Strákur frá Miðsitju 7,38
12 Jakob Svavar Sigurðsson Jarl frá Kílhrauni 7,25
13 Hans Þór Hilmarsson Penni frá Eystra-Fróðholti 7,04
14 Viðar Ingólfsson Sjafnar frá Skipaskaga 7,00
15 Sigurður Sigurðarson Rauðskeggur frá Kjarnholtum I 6,96
16 Gústaf Ásgeir Hinriksson Eik frá Efri-Rauðalæk 6,88
17 Jón Ársæll Bergmann Harpa frá Höskuldsstöðum 6,46
18 Jóhanna Margrét Snorradóttir Prins frá Vöðlum 6,42
19 Benjamín Sandur Ingólfsson Álfatýr frá Skíðbakka I 6,13
20 Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir Erla frá Feti 3,92
21 Ásmundur Ernir Snorrason Askur frá Holtsmúla 1 3,54