Bjóða upp á námskeið allt árið í kring

  • 28. nóvember 2022
  • Fréttir
Viðtal við Coru Claas reiðkennara í reiðskólanum á Bjarnastöðum í Ölfusi

Reiðskólinn á Bjarnastöðum í Ölfusi opnaði 1. júní 2020 og er rekinn af Coru Claas sem er útskrifaður reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum. Frá upphafi reiðskólans hafa um 250 börn sótt hann á aldrinum 1,5 árs til 14 ára, einnig eitthvað af fullorðnum og koma þau frá Hveragerði, Þorlákshöfn, Selfossi, dreifbýlinu í Ölfusi og Árborg og stundum einnig frá Reykjavík og nágrenni.

„Byrjað var með sumarnámskeiðin, þar sem börn mættu í 5 daga í senn og gekk það strax mjög vel. Börn og foreldrar hafa ávallt verið mjög ánægð með starfið sem unnið er hér og var strax eftir fyrsta sumarið gríðarleg eftirspurn með að halda áfram með námskeiðin eftir sumarfrí og fram á haust. Við buðum þá upp á haustnámskeið þar sem börnin mæta 1x í viku í 120 mín í senn í 9 vikur og eru að meðaltali um 50 börn á slíkum námskeiðum í 5 -7 barna hópum. Eftir vetrafrí tók við vornámskeið með svipuðu sniði og svo annað stutt námskeið fyrir sumarfrí og sumarnámskeiðin,“ segir Cora.

Reiðskólinn er nú með sitt þriðja haustnámskeið og hefur verið bætt við Stubbahóp, þar sem börn frá 1,5 árs og upp í 6 ára mæta í klukkutíma í senn í 4 skipti 3-4 börn í hóp.

„Áður fyrr voru stubbanámskeiðin haldin af og til í eitt til þrjú skipti í senn en vegna mikillar eftirspurnar var boðið upp á lengri námskeið. Fullt er á öllum námskeiðum og hafa námskeiðin þróast þannig að haust- og vornámskeiðin eru nýtt til að kenna og þjálfa og sumarnámskeiðin sem einhvers konar uppskeruhátíð fyrir þau börn sem hafa verið að æfa í allan vetur því mörg þeirra sækja námskeiðin á hverju hausti, vori og sumri. Einnig eru sumarnámskeið fyrir nýliða og eru þau með svipuðu sniði og haust- og vornámskeiðin.“

Mörg börn hafa sótt námskeiðin samfellt frá upphafi reiðskólans og að sögn Coru má sjá greinilegan árangur hjá þeim. Nokkur börn eru búin að fá sína eigin hesta og sum þeirra hafa komið foreldrum sínum út í hestamennskuna á ný. Flest börn eru í Hestamannafélaginu Ljúfi í Hveragerði/Ölfusi og hafa sum þeirra jafnvel treyst sér til að taka þátt á hestamannamóti hjá Ljúfi. Reiðskólinn skaffaði hesta og reiðtygi og kom hestum á staðinn. Á þessu ári voru sótt fleiri mót undir handleiðslu Coru meðal annars í Þorlákshöfn og á Selfossi. Tveir 10 ára knapar úr Reiðskólanum á Bjarnastöðum fóru á úrtökumót fyrir Landsmót Hestamanna og unnu sér rétt til að keppa þar.

„Knaparnir kepptu bæði á skólahestum frá reiðskólanum í barnaflokki á Landsmóti Hestamanna á Hellu með góðum árangri og var það einstök upplifun fyrir alla sem að því komu. Það þarf heilt teymi í kringum þannig viðburð og gátu þá fleiri börn lært mikið án þess að keppa sjálf. Keppnisárangur er þó ekki aðalmarkmið reiðskólans en er góður með. Aðalmarkmið skólans er að hjálpa börnum að tengjast náttúru og dýrum, nota hendurnar, taka þátt, bæta sína eigin líkamsvitund og eiga samskipti við dýr og menn. Árangurinn mátti heldur betur sjá í sumar þegar riðið var út í marga klukkutíma á dag. Meðal annars var einn hópur með börn á aldrinum 7 til 10 ára, sem fór ríðandi um 70 km á fimm dögum,“ segir Cora en farið var þvert í gegnum Ölfus frá Bjarnastöðum upp í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði, niður Ölfusósinn og alla leið að ströndinni við Þorlákshöfn.

Fengin var gisting fyrir hrossin og var þetta ótrúlega mikið ævintýri. Í hópnum voru gjörólíkir karakterar, bæði stelpur og strákar, allir hjálpuðust að við að smala hrossum, leggja á, pakka nesti og klæða sig eftir veðri fyrir allt að 5 tíma reiðtúra. Ferðin var einstaklega frábær því það er eitt sem sameinar þau öll og það er gríðarlegur áhugi fyrir hestamennsku og útiveru. Ljóst er að hér læra börnin mun meira en bara að sitja á hesti og er starf eins og þetta ómetanlegt fyrir börnin. Síðast liðið vor fór hópur af börnum úr reiðskólanum á Hestafjör æskulýðsnefndar Sleipnis á Selfossi og sýndi þar atriðið, Smalamennska. Börnin tóku þátt í að skipuleggja skrautreið, hanna búninga og velja tónlist.

Haust- og vornámskeiðin hafa fest sig í sessi hjá reiðskólanum og námskeiðunum læra nemendurnir ýmislegt í tengslum við samspil manns og hests sem og er lögð mikil áhersla á sjálfstæði og hjálpsemi.

„Við æfum færni knapa um líkamsvitund og að læra að lesa hesta og skilja þá til þess að geta brugðist rétt við. Knapar eru þjálfaðir í að geta brugðist við af næmni og nákvæmni svo lokaúrkoma, samspil manns og hests, verður sem fallegust og sanngjörnust. Við finnum ávallt nýja leiðir til að bæta knapana, bæði frá jörðu og á hestbaki. Við förum í þrautabrautir, sætisæfingar, útreiðartúra á reiðvegum og víðavangi og margt fleira. Við leggjum mikla áherslu á að kenna rétta umgengni í kringum dýrin og hvetjum til sjálfstæðis og hjálpsemi. Auk hesta eigum við hunda og hænur sem öll ganga laus og kennum við börnum um atferli þessar dýra þar sem þau hugsa og hegða sér öll á mjög ólíkan hátt, auk þess að hvert dýr hefur sína skapgerð eins og mannfólkið.“

Þegar börnin mæta í upphafi dags byrja þau á að sækja sinn hest sjálf út í gerði. Þau sjá um að kemba hestinum og leggja á hann áður en haldið er upp í gerði í reiðatíma eða í reiðtúr. Í reiðtímunum er síðan lögð áhersla á að kenna krökkunum góða ásetu, bæta jafnvægi og skilning knapans á því hvernig hesturinn hugsar.

Við erum með góða hesta fyrir börn á öllum stigum, erum með reiðtygi og hjálma. Ef einhverjum vantar hjálp, þá má leita til næsta manns eftir aðstoð, börnin eiga að hjálpa hvort öðru, því maður lærir mest á að kenna öðrum, en auðvitað er kennarinn alltaf til staðar. Í reið er lögð mikil áhersla á velferð hrossa með því að kenna góða ásetu, bæta jafnvægi og skilning knapans á því hvernig hesturinn hugsar. Góð áseta er lykilatriði í hestamennsku til að geta stjórnað hestinum á sem hestvænstan hátt. Góðri ásetu fylgir gott jafnvægi, gott jafnvægi bætir vellíðan, öryggi og næmni knapans, allt þetta bætir samskiptakerfi á milli knapa og hests sem er lykillinn að sáttum hesti. Sáttur hestur og knapi með gott jafnvægi geta fyrirbyggt slys. Öryggi knapa og vellíðan hestsins eru okkur efst í huga.“ segir Cora að lokum en reiðskólinn á Bjarnastöðum hlakkar til að fylgja börnunum eftir í gegnum fleiri ævintýri.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar