Björn Þorsteinsson látinn

  • 11. september 2021
  • Fréttir

Hestamaðurinn Björn Stefán Þorsteinsson er látinn 65 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu á Höfn í Hornafirði þann 17. ágúst síðastliðinn. Útför Björns Þorsteinssonar hefur farið fram í kyrrþey.

Starfsfólk Eiðfaxa sendir aðstandendum Björns innilegar samúðarkveðjur.

 

Sigfús Ólafur Helgason skrifar minningar orð vin sinn Björn Þorsteinsson.

Björn Stefán Þorsteinsson

Fæddur 14. febrúar. 1956. Dáinn 17. ágúst 2021.

Minning.

Það er með miklum söknuði og trega sem ég sit nú hér og reyni að koma á blað kveðjuorðum til vinar míns, Björns Þorsteinssonar.

Vissulega kom andlát hans ekki neinum á óvart, en einhvernvegin er það svo að undir svona fréttir eins og andlát vinar er, getur maður ekki undirbúið sig.

Björn lést á heimili sínu á Hornafirði þriðjudaginn 17. ágúst sl.

Björn eða Bjössi Þorsteins eins og ég kallaði hann alltaf, hefur nú lagt af stað yfir Gjallarbrú, yfir í sólarlandið helga, langt á undan áætlun að mínu mati, og með honum er genginn góður drengur. Já, ég segi það hiklaust, góður drengur, því Bjössi var alla tíð með þannig hjartalag að hann vildi öllum alltaf vel, og þannig er ég sannfærður um að hann hafi hugsað. Kannski má segja að hann hafi gleymt einum þeim er honum var þó mikilvægastur, honum sjálfum.

Greiðvirknin og hjálpsemin var honum í blóð borin og þá skipti ekki máli hvort hjálparbeiðnin var stór eða smá. Bjössi var alltaf til og oft var staðið upp frá verki fyrir hann sjálfan til að veita öðrum liðsinni. Heimavinnan gat beðið.

Björn var náttúrubarn og hestamaður af Guðs náð.

Snemma komu þeir eiginleikar hans í ljós og oft fannst manni eins og að Bjössi heyrði hrossin tala. Mér, sá er þetta ritar sem ungum dreng þá, fannst einstaklega gaman að sjá hvernig Bjössi gat lesið út úr hrossum og einhvern vegin vissi hann alltaf, hvað næst. Bjössi kom snemma fram með hross til sýninga og keppni og minnist ég margra hrossa er Bjössi tamdi og sýndi á sinni tíð.

Hryssurnar Alda, Dimmalimm, Bára og Bylgja koma upp í hugann sem og skeiðhestarnir frá Hauganesi, Blær og Þór svo einhver hross séu nefnd. Ekki má heldur gleyma gæðingnum Snarfara frá Húsey en þeir félagarnir áttu marga glæsta spretti saman.

Einnig vil ég nefna stóðhestinn Frey sem og mörg önnur hross ónefnd hér sem Bjössi sýndi og ljóst að þar hélt um taumana maður sem vissi hvað hann var að gera. Ég segi hiklaust að á tímabili var Björn einn alfremsti skeiðreiðarmaður landsins.

Já, Bjössi var sannkallað náttúrubarn og undi sér best innan um hross, talandi um hross og hugsandi um hross.

Þannig leið lífið og þannig munum við vinir hans nú minnast hans þegar kveðjustundin er upp runnin.

Eitt verð ég að segja líka um þennan vin minn. Hann sá yfirleitt spaugilegu hliðina á mannlífinu, tók því á stundum mátulega alvarlega og gerði óspart grín að sjálfum sér og öðrum, en alltaf var grínið og glettnin án þess að það meiddi eða særði nokkurn. Það var ekki til neitt slíkt í mínum manni.

Guðmundur Sveinsson, Guðmundssonar á Sauðárkróki sagði við mig um daginn að þeir Bjössi hafi verið miklir vinir og margt sem þeir félagarnir gerðu saman á þeirra ungdómsárum væri ekki hægt að setja á prent, þetta kannast ég vel við og get staðfest það að margar liðnar stundir er við Bjössi áttum saman fyrrum, koma nú upp í hugann og þær mun ég geyma þangað til við vinirnir hittumst hinumegin og þá verður blásið til sagnakvölds með stórum staf.

Uppátækin hjá okkur voru á stundum hreint út sagt lygileg.

Bjössi Þorsteins, eins og margir góðir menn sem eitthvað kvað að, átti stundum erfitt með að höndla lífið og sannarlega var líf Bjössa vinar míns á stundum erfitt, og sá skelfilegi sjúkdómur sem því allt of margar góðar manneskjur hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir, herjaði á Bjössa minn af miklum þunga sérstaklega nú hin síðari ár og sem svo að lokum örugglega hefur flýtt fyrir brottför hans úr heimi hér.

Sannfærður er ég um að Bjössi Þorsteins vildi ekki þetta hlutskipti, en hér réð hann bara ekki för, en hann tókst á við það með æðruleysi eins og hann svo oft þurfti að beita.

Björn eignaðist einn son, Þorstein, og sannarlega hefur það verið vilji Bjössa að fá að lifa og fylgjast með honum og barnabörnunum sem síðar komu vaxa og dafna og það veit ég að undir niðri var Björn mjög stoltur af Steina sínum og í honum og barnabörnunum mun minningin um drenginn góða, Bjössa Þorsteins lifa.

Að leiðarlokum.
Það er huggun harmi gegn að vita að nú eru allar þrautir Björns Þorsteinssonar að baki og eilíf sólin mun nú skína í fótspor hans í himnasal.

Nú þegar ég kveð minn kæra vin Björn Þorsteinsson hinstu kveðju sendi ég Þorsteini syni hans, tengdadóttur og barnabörnum, elsku Aldísi Björnsdóttur móður Björns, minni kæru vinkonu, sem og systkinunum Birgi og Helgu, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég beygi höfuð mitt í þakkarskuld fyrir kynni mín af góðum dreng.
Far þú í friði vinur sæll.
Blessuð sé minning Björns Þorsteinssonar.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar