Andlát Bragi á Sperðli fallinn frá

  • 7. janúar 2025
  • Andlát

Bragi og Ófeigur á Landsmóti á Vindheimamelum 1974

Hestamaðurinn Bragi Andrésson féll frá þann 3. janúar en útför hans fer fram frá Eyrarbakka kirkju þann 11. janúar.

Bragi er jafnan kenndur við jörðina Sperðil í Vestur-Landeyjum hvar hann stundaði hrossarækt lengi, en síðustu ár hefur hann verið búsettur á Eyrarbakka.

Hann markaði spor í sögu hrossaræktar og vakti mikla athygli þegar hann sýndi stóðhestinn Ófeig frá Hvanneyri á Landsmóti árið 1974. Þar hlaut Ófeigur m.a. 8,80 fyrir hæfileika sem þá var hæsta hæfileika einkunn sem stóðhestur hafði hlotið.

Á Landsmótinu árið 1982 kom hann svo fram á dóttur Ófeigs, Perlu frá Kaðalsstöðum, hún hlaut einnig 8,80 fyrir hæfileika sem var fádæmi á þeim tíma. Hlaut hún m.a. einkunnina 10,0 fyrir vilja og stóð efst í flokki 6. vetra hryssa. Frægasta afkvæmi Perlu var svo stóðhesturinn Piltur frá Sperðli, ræktaður af Braga og sýndur af honum í kynbótadómi. Piltur hlaut m.a. 1.verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2000.

Bragi var orðheppinn og skemmtilegur maður sem með hestglöggni sinni skilur eftir sig arfleið í hrossaræktinni og minningu um góðan dreng.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar