Breytingar á landsliðinu

Breytingar hafa orðið á landsliðshópnum sem fer út í ágúst til að keppa á Heimsmeistaramótinu í Hollandi.
Páll Bragi Hólmarsson á Vísi frá Kagaðarhóli eru farnir úr hópnum og nýr inn er Viðar Ingólfsson á Þór frá Stóra-Hofi en þetta staðfestir Sigurbjörn Bárðarson í samtali við Eiðfaxa.
“Ástæðan er sú að ekki var nægur tími til að ganga frá sölu á hestinum og of mikil áhætta að fara með hestinn óseldan úr landi. Loka skráning er á morgun og því kominn tími til að Palli sagði sig frá verkefninu. Allt gert í sátt og samlyndi,“ segir Sigurbjörn.
Eins og áður sagði er Viðar Ingólfsson að koma nýr inn í liðið á Þór frá Stóra-Hofi og munu þeir alla veganna keppa í tölti T1 á mótinu þar sem þeir hafa verið í fremstu röð hérlendis. „Mjög spenntur fyrir verkefninu en við Þór erum í góðum gír og tilbúnir til leiks,“ segir Viðar í samtali við Eiðfaxa.

Þór og Viðar mæta sjóðheitir til leiks í Hollandi Mynd: Henk Peterse.