Ótímabundin brottvísun Jóhanns úr landsliðinu óheimil

  • 9. apríl 2024
  • Fréttir
Uppfærð frétt - Dómur í máli Jóhanns R. Skúlasonar gegn LH

Þann 20. febrúar s.l. greindi Eiðfaxi frá því að dæmt hafi verið í máli Jóhanns Rúnars Skúlasonar gegn LH þar sem kom fram að ákvörðun stjórnar LH og landsliðsnefndar að víkja honum úr landsliðshópi myndi standa.

Jóhann áfrýjaði málinu til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem komast að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi verið óheimilt að vísa honum ótímabundið úr landsliðshópi Íslands þann 31. október 2021. Dóminn í heild sinni má lesa HÉR.

Niðurstaða dómstólsins byggir á þeirri forsendu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi ekki haft lagalega heimild til að víkja honum úr hópnum. Brottvísunin var ekki heimil á grundvelli þeirrar lagagreinar íþróttalaga og laga ÍSÍ sem vísað var til í yfirlýsingu stjórnar og landsliðsnefndar sama gefin var út sama dag.

Í dómnum kemur þó einnig fram að vald til að velja knapa í landsliðið er í höndum landsliðsþjálfara og landsliðsnefndar hverju sinni. Svigrúmið sé þó ekki ótakmarkað.

Í dómnum segir m.a:

„Verður ákvörðun stefnda ekki skilin á annan veg en að stefndi hafi ákveðið á grundvelli þeirra lagaheimilda sem gilda innan sérsambandsins að útiloka áfrýjanda frá keppni án tilgreiningar á tímalengd útilokunar. Ekki eru fyrir hendi lagaheimildir fyrir slíkri ákvörðun.“

„Að því gættu verður fallist á kröfu áfrýjanda um að umþrætt ákvörðun verði felld úr gildi. Í þeirri niðurstöðu felst hvorki að áfrýjandi hafi átt rétt á sæti í landsliðhópi Íslands í hestaíþróttum á þeim tíma sem umþrætt ákvörðun var tekin, né heldur að hann eigi slíkan rétt til framtíðar, enda val á þeim hópi háð ákvörðun viðeigandi aðila hverju sinni, heldur eingöngu að ekki hafi verið lagagrundvöllur til ákvörðunar sem ber með sér að vera ótímabundin um að útiloka áfrýjanda til framtíðar fyrirfram frá því að eiga möguleika á að vera valinn.“

Formaður LH vonar að málinu sé lokið

Í samtali við formann Landssambands hestamannafélaga Guðna Halldórsson segir hann fyrst og fremst vera ánægðann með að málinu sé lokið.

„Þetta er búið að fara fjórum sinnum fyrir dómstóla ÍSÍ og það er búið að fara mikið af peningum og orku í þetta. Vona að þessu sé nú bara lokið og við getum farið að snúa okkur að öðru,“ segir Guðni og bætir við; „dómurinn snýst fyrst og fremst um túlkun á lagatæknilegu atriði og hvort heimilt hafi verið að vísa í tiltekna lagagrein en tekur af öll tvímæli um að landsliðsþjálfari og landsliðsnefnd hafa fulla heimild til að ákveða hverjir skipa landslið hverju sinni. Það er aðal atriði dómsins og mikilvægt að hafi fengist á hreint.“

Stjórn LH hefur sent frá sér fréttatilkynningu varðandi málið og telur mikilvægt að koma á framfæri að ekki einvörðungu hafi verið horft til umræddar lagagreinar. Vísar stjórn LH í eftirfarandi málsgrein í upphaflegri yfirlýsingu sinni:

„Stjórn LH telur óverjandi að þeir sem hafi gerst sekir um og eða hlotið refsidóm fyrir alvarlegt kynferðisbrot séu í landsliðshópnum og komi fram sem fulltrúar LH fyrir Íslands hönd, hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. Er slíkt til þess fallið að skaða ímynd LH, landsins og hestaíþróttarinnar í heild, einnig er það andstætt þeim gildum sem LH stendur fyrir, en sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar