Dujardin í bann og íþróttin harðlega gagnrýnd

  • 26. júlí 2024
  • Aðsend grein

Charlotte Dujardin með Gio (vinstri) Ólympíu gullverðlaunahafi í Tokyo 2020 og Valegro, fyrrum Ólympíu gullverðlaunahafi Mynd: Ben Birchall/PA

Aðsend grein eftir Thelmu Harðardóttur

Næstkomandi sunnudag, 27. júlí, hefst einn stærsti íþróttaviðburður stórhestaheimsins þegar keppni hefst í hestaíþróttum á ólympíuleikunum í París en þangað mæta glæsilegustu pör heims til keppni í þremur keppnisgreinum. Í undanfara slíkrar veislu fylgir iðulega mikil umræða fjölmiðla, sem hafa það að meginmarkmiði að hámarka umfjöllun og auka áhuga yfir keppnina. Það kom þó eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar ein skærasta dressúr stjarna heims, hin breska Charlotte Dujardin, tilkynnti aðeins sjö dögum fyrir fyrsta keppnisdag að hún myndi ekki fylgja breska landsliðinu á leikanna líkt plön gerðu ráð fyrir. Ljóst er að um blóðtöku er að ræða fyrir breska liðið en hún átti bæði að vera knapi á liðshesti sem og varahesti.

Ástæða þess að Dujardin tilkynnti þá veigamiklu ákvörðun má rekja til myndbands sem alþjóðasambandinu FEI barst og sýnir Dujardin við kennslu. Myndbandið telur nokkrar mínútur og sýnir Dujardin berja á löppum hests viðstöðulaust með ungan knapann á baki sem var nemandi hennar.
Fyrst um sinn var myndbandið ekki gert aðgengilegt almenningi en þegar Djuradin tilkynnti brotthvarf sitt úr breska hópnum lét hún fylgja eigin skoðun á atvikinu og hennar sýn á málið. Þar lýsir hún atvikinu sem dómgreindarleysi af sinni hálfu gagnvart knapa og hesti og muni ekki keppa á meðan málið er til meðferðar hjá FEI. Segja má að tilkynning Djuradin hafi komið fólki í opna skjöldu og aðdáendur og aðrir áhugamenn um dressúr hafi hlaupið upp til handa og fóta á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Tímasetning sem vekur heiminn til vitundar

Þetta mál, líkt og önnur sem snúa að heiðri markverðra knapa, virðist ætla að ná langt út fyrir fréttamiðla og samfélagshópa hestamanna um víða veröld. Allar helstu fréttaveitur hafa fjallað um málið og fréttaskýringaþættir keppast við að ná utan um atvik málsins. Helstu spurningarnar sem brenna á fólki eru hvort myndbandið sé í raun britingarmynd þess sem þarf til svo hestar nái tökum á hinum fullkomna balletdansi eða hvort það geti verið að um undantekningu sé að ræða, jafnvel þó nú hafi þrír framúrskarandi keppnisknapar orðið uppvísir um vinnubrögð sem samrýmast ekki gildum nútíma hestamennsku.

Helgstrand var ekki síðasti níðingurinn

Seint á síðasta ári var mál Andreas Helgstrand á allra vörum ( https://eidfaxi.is/er-helgstrand-sidasti-nidingurinn/ ), en hann er enn í keppnisbanni. Dönsku þættirnir sem opinberuðu hans vinnubrögð náðu eyrum margra og snérist þá umræðan fyrst og fremst um hve mikil undantekning svona hegðun væri og mikill álitshnekkur fyrir annars glæsilega íþrótt. Í febrúar á þessu ári endurtók sagan sig þegar hin kólumbíski-bandaríski Dr. Cesar Parra var gómaður við sömu vinnubrögð og Helgstrand. Myndband var sett á netið af fjölmörgum níðingsatvikum þar sem Parra hagaði sér líkt og Helgstrand. Í tilvikum þessara tveggja knapa hafa samstarfs- og styrktaraðilar, sem áður sáu ótal tækifæri í því að hafa þá á sínum snærum, keppst við að hreinsa upp tengsl sín við þá en það er einmitt það sem samstarfs- og styrktaraðilar Djuradin vinna nú af kappi við.

Það má því segja að dressúr hafi ekki átt sjö dagana sæla síðustu misseri og þegar stórstjörnur hrapa jafn hratt og raun ber vitni, fara eflaust margir að spyrja sig hvort það sé hreinlega ekki mögulegt að ná eftirtektarverðum árangri án þess að beita harðræði eða ofbeldi.

Við sem stundum hestamennsku vitum að fallegt samspil milli manns og hests getur hæglega verið átakalaust og flæðandi en það kostar tíma, þolinmæði og mikið æðruleysi. Kjósi menn að læra og gefa sig allan í slíka reiðmennsku, lærist fljótt að sjá í gegn um harðræðisþjálfun og skyndilausnir. Hestakeppni sem slík, hvort sem um er að ræða dressúr eða íslandshestakeppni, hafa þó allt of fáa og lélega eldveggi sem skilja á milli þessara tveggja leiða að gullinu. Um hestaíþróttir flæða háar upphæðir og til þess að hámarka fjárhagslegan ábata er mikil pressa á knöpum. Árangur verður að skila sér hratt en í slíkum aðstæðum getur verið afar freistandi að stytta sér leið að lokamarkmiðinu með tilheyrandi velferðarfórnum gagnvart hestinum. Hestaíþróttir verða sífellt dýrari íþrótt, og sífellt oftar sjáum við óverjandi vinnubrögð hjá knöpum sem eiga þó allt undir orðspori sínu.

Varist velferðarþvott

Það má búast við að knapar hestaíþróttanna brosi sínu breiðasta brosi og sýni allar sínar bestu hliðar á Ólympíuleikunum næstu daga enda hápunktur í lífi þeirra flestra. Þeir knapar hafa þó einnig þá byrði á bakinu að vera andlit íþróttar sem berst nú fyrir tilvist sinni. Enginn þeirra ætlar sér að verða næsti fréttamatur.

Í íþrótt þar sem meginstefnan er að halda hesta í aðstæðum sem eru svo óralangt frá þeirra náttúrulega atferli hefur oft þótt markvert þegar keppnisknapar ganga svo langt að bjóða hestum sínum hálfs dags útiveru eða samlæti við aðra hesta. Við megum því búast við því næstu misseri að hver dressúrknapinn á fætur öðrum reyni að skapa sér sérstöðu og frið með velferðarþvotti af einhverju tagi. Slíkt yfirskyn verður þó skammvinnur vermir ef hestaíþróttir í heild sinni fara ekki að taka umræðuna fastari tökum með raunverulegum aðgerðum. Íþróttinn er hársbreidd frá því að tapa félagslegu leyfi sínu til ástundunar (e. Social licence to operate).

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar