„Ég er mjög spenntur fyrir vetrinum“

  • 24. nóvember 2021
  • Fréttir
Viðtal við Pál Braga Hólmarsson nýjan liðsmann Skeiðvalla/StormRider

Stjórn Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem kom fram að knapaskipti væru í einu liði deildarinnar. Páll Bragi Hólmarsson er nýr knapi í liði Skeiðvalla/StormRider en Sólon Morthens hefur ákveðið að hætta í deildinni. Páll Bragi er menntaður þjálfari og reiðkennari, fyrrum landsliðseinvaldur og rekur hrossaræktarbúið Austurkot, ásamt konu sinni Hugrúnu Jóhannsdóttur.  „Ég er mjög spenntur fyrir vetrinum. Strákarnir báðu mig um að koma í liðið því Sólon dró sig út úr því. Þetta var tækifæri fyrir mig til að komast af stað aftur í deildinni,“ segir Páll Bragi en hann tók síðast þátt árið 2009.

Páll Bragi hefur gagnrýnt deildina undanfarin ár í tengslum við hversu erfitt sé fyrir ný lið og knapa að verða þátttakendur deildarinnar en hann vonast til að deildin sé á réttri leið hvað það varðar. „Mér finnst þessi gagnrýni alveg hafa átt rétt á sér. Einfaldlega vegna þess að ég vil hafa þessa hluti í lagi. Hafa regluverkið gott. Þetta er að stefna í rétta átt en það sem ég hef verið að gagnrýna snýr að reglum deildarinnar og ég held að þær séu að verða skýrari. Mér finnst mikilvægt að það sé endurnýjun og spilað og keppt um sæti í deildinni fyrst og fremst til að gera deildina aðgengilegri og skemmtilegri,“ segir Páll Bragi en hann mun örugglega reyna hafa áhrif til góðs innan deildarinnar þó hann muni fyrst og fremst einbeita sér að því að keppa.

„Við strákarnir höfum ekki enn hisstst en það er búið að dagsetja fyrsta liðshitting og það er stutt í hann. Ég verð þá tekinn út af liðstjórunum og er spenntur að heyra hvað þeir hafa að segja. Ég þekki þessa stráka alla vel og eru þeir hressir og metnaðarfullir. Það er kannski einn galli en ég held ég sé aldursforsetinn í hópnum,“ segir Páll Bragi og hlær og bætir við að hann hlakki til að hjóla í þetta af fullum krafti. Eiðfaxi þakkar Páli Braga fyrir spjallið.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<