Eiðfaxa berst liðsstyrkur – enn eitt framfaraskrefið

  • 4. febrúar 2020
  • Fréttir
Nú á dögunum var undirritaður samningur á milli Eiðfaxa og Hrossaræktar ehf

Hrossarækt hefur um árabil gefið út stóðhestabækur og haldið stóðhestaveislur bæði sunnan heiða og norðan. Samningurinn felur í sér að hér eftir munu hinar árlegu stóðhestabækur og stóðhestaveislur verða í nafni Eiðfaxa.
Sagan er þó ekki öll sögð þar með, því næsta tölublað Eiðfaxa verður með breyttu sniði, auk þess sem breytinga er að vænta á fjölda útgáfudaga.

Hér eftir mun Eiðfaxi fylgja árstíðunum og gefa út færri en mun veglegri blöð – Eiðfaxa Vetur, Eiðfaxa Vor, Eiðfaxa Sumar og Eiðfaxa Haust. Hvert tímarit mun því bera hljóm af hverri árstíð og fjölbreytileiki í efnisvali verður aukinn.

Auk þessara fjögurra tímarita mun í árslok koma út glæsilegt ársrit, Eiðfaxi Árbók, þar sem farið verður yfir árið í hestamennsku á ítarlegan og vandaðan hátt. Þessu til viðbótar munu allir áskrifendur Eiðfaxa fá senda ávísun sem þeir geta nýtt til að sækja sér Stóðhestabók Eiðfaxa þegar hún kemur út, en einnig verður hægt að nýta þessa ávísun sem afslátt af miðaverði á aðra af þeim tveimur Stóðhestaveislum sem haldnar verða í vor.

Auk þess hefur bæst góður liðsstyrkur við útgáfuna, en þeir Magnús Benediktsson og Snorri Kristjánsson, sem hafa borið hita og þunga af rekstri Hrossaræktar síðastliðin ár, munu á næstunni ganga til liðs við Eiðfaxa. Magnús mun gegna stöðu framkvæmdastjóra og Snorri stöðu rekstrarstjóra. Gísli Guðjónsson mun áfram gegna starfi ritstjóra.

Gylfi Þór Þorsteinsson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra síðastliðið ár, mun því láta af störfum nú í lok janúar. Honum er þakkað fyrir vel unnin störf og óskað velfarnaðar í leik og starfi.

Við vonum að þessar breytingar muni falla vel í kramið hjá áskrifendum og öðrum lesendum Eiðfaxa, svo að hann nái að vaxa og dafna. Markmiðið með þessum breytingum er að vanda ennþá betur til verka við umfjöllun um hestamennskuna.
Eiðfaxi mun því áfram vera leiðandi í umfjöllun um íslenska hestinn og öllu því sem honum tengist.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<