“Einn dagur í einu”

  • 18. mars 2023
  • Fréttir
Viðtal við Guðmund Björgvinsson, landsliðsknapa.

Guðmundur Björgvinsson er ríkjandi heimsmeistari í 250 m. skeiði og á því fast sæti í landsliðinu. Guðmundur slasaði sig á skíðum í janúar á þessu ári sem gæti haft mikil áhrif á landsliðssæti hans fyrir Heimsmeistaramótið í ágúst.

“Ég var á skíðum í Bláfjöllum en þetta er fjölskylduáhugamál hjá okkur. Ég lenti á steini, á fleygiferð, og skíðið festist. Það slitnuðu innri og ytri liðbönd, liðþófur og fremra krossband. Einnig mynduðust sprungur í beinum en ég er óbrotinn,” segir Guðmundur en hann hefur verið í spelku í átta vikur sem nær honum frá nára niður að ökkla.

“Ég tek einn dag í einu. Ég er farinn að gera æfingar án spelkunar sem er risastórt skref í rétta átt. Ég er kominn í massífa sjúkraþjálfun. Framhaldið kemur svolítið í ljós á næstu tveimur til þremur vikum. Ég mun þurfa að fara í aðgerð til að laga krossbandið en ég er að vonast til að geta klárað sumarið og fara í aðgerð í haust. Það væri draumastaðan,” segir Guðmundur en ef ekki þá færi hann í aðgerð í lok mánaðarins og er hann að lágmarki sex vikur að jafna sig eftir hana.

“Hausinn á mér er kominn á hestbak og ég hugsa að ég prufi að setjast á bak um helgina án spelkunnar. Fór á bak í gær með hana og það var ekki gott. Ef þú horfir á lærin á mér munar miklu á þeim en annað er miklu rýrara eftir að hafa verið í spelkunni. Ég vona að ég verði fljótur að jafna mig og nái að keppa fyrir Íslandshönd á Heimsmeistaramótinu í sumar,” segir Guðmundur að lokum. 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar