Eitt hross hlaut einkunnina 10 fyrir höfuð
Nú þegar kynbótasýningum árið 2022 er lokið þá er gaman að renna yfir níufimmur og tíur ársins í einstökum eiginleikum. Næsti eiginleiki sem við tökum fyrir hér á vef Eiðfaxa er höfuð.
Til þess að fá glögga mynd af því eftir hverju er verið að leita þegar höfuð er metið er gripið niður í stigunarkvarða einstaklingadóma og lýsing á einkunninni 9,5-10 í þeim eiginleikum sem teknir eru fyrir hverju sinni.
Höfuð
Í þessum eiginleika er gerð, lögun og hlutfallsleg stærð höfuðsins metin, þ.m.t. neflínan og dýpt/þykkt kjálkanna og hversu skarpt höfuðið er. Þá er svipur hestsins, stærð og umgjörð augna, eyrnastaða og gerð eyrnanna metin. Einnig stærð nasanna og lengd munnvika.
9,5 – 10
Mjög frítt og fínlegt höfuð, svipgott og skarpt. Eyrun eru þunn og fínleg, hæfilega lokuð og vel sett. Stórt, opið og fjörlegt auga og létt augnaumgjörð. Kjálkarnir eru fínlegir og góð gleidd er á milli þeirra. Neflína bein, nasir flenntar og löng munnvik.
Alls hlutu þrjú hross á árinu einkunnina 9,5 og eitt einkunnina 10,0. Valdís frá Auðsholtshjáleigu hlaut 10,0 og er eina hrossið frá upphafi dóma til þess að hljóta þá einkunn.
Listi yfir þau hross sem hlutu 9,5 fyrir höfuð
Nafn | Uppruni í þgf. | Sýnandi |
Klukka | Þúfum | Mette Camilla Moe Mannseth |
Auðbjörg | Stangarlæk 1 | Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir |
Gleði | Hólaborg | Þorgeir Ólafsson |