Ekkert bólar á staðfestingu á heimsmeti
Á Íslandsmótinu í hestaíþróttum sem fram fór í Víðidal þann 25.-27. júlí setti Konráð Valur Sveinsson nýtt heims- og Íslandsmet í 150 metra skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu. Þeir bættu þar þrettán ára gamalt met Catherine Gratzl og Blakkar frá Kambi sem fóru á 13,47 sekúndum en tími Konráðs og Kjarks var 13,46 sekúndur. Nú er liðinn rúmlega mánuður frá því að metið var sett en ekkert bólar á staðfestingu á því hvorki frá LH né FEIF.
Fyrir tveimur vikum fékk blaðamaður Eiðfaxa þau svör frá FEIF að ekkert væri komið inn á borð hjá þeim og á sama tíma fengust þau svör hjá LH að vegna sumarleyfa starfsmanna hefði meðferð tafist en væri nú í vinnslu.
Nýjasta dæmið um bætingu á heimsmeti í skeiðgrein er þegar Daníel Ingi Smárason og Hulda från Margareterehof fóru 250 metrana á 21,07 sekúndum. Þau gerðu það þann 4. júní árið 2021 og tveimur dögum seinna, þann 6.júní, var metið staðfest á heimasíðu FEIF.
Það er því ekki skrýtið að fólki undri hversu langan tíma þessi staðfesting taki, en samkvæmt heimildum Eiðfaxa voru allar aðstæður löglegar á Íslandsmóti og því ekkert því til fyrirstöðu að metið standi.
Í samtalið við Eiðfaxa hafði Konráð Valur þetta um málið að segja. “Ég skil ekki alveg hversu langan tíma þetta tekur, gögn frá mótshöldurum eru fyrir löngu kominn til LH og allt var upp á 10 í þeim, eftir því sem ég best veit.”