1. deildin í hestaíþróttum „Ekki verður samþykkt að láta verkefnið frá sér“

  • 9. janúar 2025
  • Tilkynning
Yfirlýsing frá stjórn hestamannafélagsins Spretts.

Stjórn hestamannafélagsins Spretts hefur sent frá sér tilkynningu vegna 1. deildarinnar í hestaíþróttum en skiptar skoðanir hafa verið um eignarhald deildarinnar á milli hestamannafélagsins og einkaaðila.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa tilkynningu frá stjórn Spretts varðandi eignarhaldið.

Tilkynning Stjórnar Spretts

Stjórn Spretts þarf að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri til að eyða þeirri óvissu sem virðist vera uppi.

Undanfarinn mánuð hefur verið samtal milli stjórnar Spretts og stjórnar 1. deildar um rekstrarfyrirkomulag 1. deildarinnar og fékk stjórn Spretts póst þann 7. janúar þess eðlis að stjórn deildarinnar ætlaði ekki í áframhaldandi samstarf við Sprett.

1. deildin fór af stað árið 2024 og var það jafnframt fyrsta keppnistímabil deildarinnar. Þáverandi stjórn Spretts samþykkti að taka deildina inn í Samskipahöllina veturinn 2024 með því skilyrði að deildin væri rekin af Spretti og væri í eigu félagsins eins og Áhugamannadeildin og Blue Lagoon deildin. Fráfarandi formaður 1. deildar var vel upplýstur um þessa ákvörðun stjórnar Spretts. Sprettur stóð straum af öllum þeim kostnaði sem varð til við stofnun deildarinnar og veitti deildinni allan þann stuðning sem til þurfti svo sem að nýta höll og veislusal félagsins að kostnaðarlausu, ásamt því að hafa aðgang að sjálfboðaliðum og starfsfólki félagsins. Í dag eru enn óuppgerð fjárhagsleg mál frá fyrra tímabili sem hvorki fráfarandi né núverandi formaður 1. deildar hefur fylgt eftir þrátt fyrir ítrekaðar óskir frá gjaldkera Spretts. Það eru allir á sama máli að einstaklega vel tókst til og taldi stjórn Spretts sama háttinn verða á komandi tímabili og tók frá dagsetningar, samhliða Áhugamannadeild, í Samskipahöll svo að hægt yrði að endurtaka leikinn 2025.

Stjórn 1. deildar sér breytingar á þessu fyrirkomulagi og sótti um kennitölu fyrir deildina án þess að upplýsa stjórn Spretts um þann gjörning og var þetta því ekki gert í samtali eða samráði við stjórn Spretts, þó svo að forsvarmenn 1. deildar hefðu átt fundi með stjórn Spretts og ákveðið að upplýsa ekki á þeim fundum að sótt hefði verið um kennitölu. Kennitalan var fyrst um sinn skráð í eignarhaldi hjá bæði fráfarandi formann ásamt núverandi formann 1. deildarinnar.

Ljóst er að deildin er í eigu og að fullu fjármögnuð af Spretti og ekki verður samþykkt að láta verkefnið frá sér í kennitölu í eigu annarra félaga eða einstaklinga. Hallir Spretts eru fráteknar fyrir hestatengda viðburði sem Sprettur stendur fyrir og höfum við þurft að hafna beiðnum annarra deilda um leigu á Samskipahöllinni til að koma okkar viðburðum fyrir. Sprettur hefur boðið stjórn 1. deildar að reka deildina með óbreyttu sniði keppnistímabilið 2025 og setjast svo niður í vor með stjórn Spretts og endurskoða rekstrarfyrirkomulagið. Því boði var hafnað af stjórn 1. deildar. Við lítum því á að stjórn 1. deildarinnar sé að stefna viðburðinum í hættu og sér stjórn Spretts þann eina valkost að manna nýja stjórn/nefnd og þar með tryggja að deildin fari fram 2025 í Samskipahöllinni eins og auglýst hefur verið. Stjórn Spretts hefur mikinn metnað fyrir því að 1. deildin verður haldin í vetur og vonumst við eftir því að félagsmenn hjálpi okkur við það verkefni.

Stjórn Spretts kallar því eftir öflugum sjálfboðaliðum í Spretti til að koma inn í þetta verkefni og hjálpa okkur að láta deildina verða að veruleika í vetur hjá okkur, áhugasamir sem vilja koma í verkefnið geta sent póst á fyrstadeild@sprettur.is.

Stjórn Spretts vonar að þessi óvissar setji ekki skugga á frábæra verkefnið sem við byggðum upp saman á síðasta ári og hefur alla burði til að halda áfram að blómstra í vetur í Samskipahöllinni.

Kveðja stjórn Hestamannafélagsins Spretts
Jónína Björk, Katla, Sigurbjörn, Hermann, Davíð, Haraldur og Lárus Sindri.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar