Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum Er eðlilegt að þurfa að greiða fyrir útsendingar?

  • 26. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við Sigurbjörn Eiríksson, formann Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum.

„Það er rétt sem að Hilmar íþróttastjóri RÚV bendir á að endanleg ákvörðun var hjá stjórn Meistaradeildarinnar,“ segir Sigurbjörn Eiríksson formaður stjórnar Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum aðspurður út í þá fullyrðingu Hilmars Björnssonar, íþróttastjóra RÚV, að fulltrúar Meistaradeildarinnar hafi ekki viljað semja við RÚV um beinar útsendingar frá mótum deildarinnar í vetur.

Meistaradeildin gerði samning við streymisveituna Alendis.is sem felur í sér að mót deildarinnar verða sýnd þar í beinni útsendingu í vetur, ásamt fleiru efni. Askrifendur Alendis munu hafa aðgengi að efninu.

„Eftir samstarfstilraunir frá því í um miðjan september og fram að nóvember þá var ljóst að af sex af mótakvöldum sem að deildin hafði í huga að halda keppnirnar þá passaði aðeins eitt kvöld fyrir RÚV. Fulltrúar RÚV voru með hugmyndir um að færa fram á miðvikudagskvöld og svarið með lokakvöldið var með þeim hætti að það væru helmings líkur á að það gæti orðið,“ segir hann.

Meistaradeild Líflands hefur verið haldin í rúmlega 20 ár. Mótin eru allra jafna haldin á fimmtudögum og laugardögum.

„Af svörum RÚV að dæma þá gat stjórn deildarinnar ekki fundið fyrir því að það væri gagnkvæmur áhugi á samstarfi hjá sjónvarpi allra landsmanna, RÚV ohf,  sem rekur tvær sjónvarpsstöðvar. Þetta þótti stjórn deildarinnar miður, því á síðustu keppnistímabilum hefur RÚV sýnt frá deildinni og aðilar átt frábært samstarf.“

Hár framleiðslukostnaður

Sigurbjörn segir að Meistaradeildin hafi ávallt greitt háar fjárhæðir í að framleiða efni til að koma sex mótakvöldum á framfæri gegnum RÚV 2.

„Árið 2022 þá nam framleiðslukostnaður deildarinnar vegna útsendinga á RÚV2 um 3.500.000 kr, ég held að þetta fyrirkomulag þekkist hvergi í íþróttaheiminum nema hugsanlega hjá blaksambandinu, miðað við umfjöllun á fjölmiðlum fyrr í vetur.“

Þegar Meistaradeildin fékk tilboð um kaup á sýningaréttum mótanna í haust var tekin ákvörðun um að selja réttinn til streymisveitunnar Alendis.is.

„Við gerðum samning við Alendis um framleiðslu og sjónvarpsrétt á mótum deildarinnar, en það voru tvö fyrirtæki sem höfðu áhuga og gerðu deildinni tilboð, Alendis og E+ (Eiðfaxi). Sjónvarpsrétturinn felur í sér að öll mót deildarinnar verða sýnd, í beinni útsendingu í vetur, ásamt fleira tengdu efni. Allir sem vilja, bæði hérlendis og erlendis geta keypt áskrift af Alendis,“ segir Sigurbjörn.

Ekkert efni í áramótaannáli

Streymisveitan Alendis hefur verið í samstarfi við Meistaradeildina um vinnslu efni sem tengist mótunum, s.s. staðið fyrir kynningu á liðum, beinum útsendingum þegar dregið hefur verið í rásaröð og unnið samantektarþætti.

„Alendis hefur sýnt beint frá fjölmörgum öðrum deildum, kynbótasýningum, þar sem að gríðarlega verðmætt safn er að verða til og mun skipta sköpum síðar meir, Alendis hefur einnig sýnt frá ótal mörgum félagsmótum, Íslandsmótum og núna sl sumar Landsmótið. Allt er þetta að stuðla að framförum og meiri sýnileika í hestamennsku út um allan heim.

Til samanburðar við sjónvarp allra landsmanna, þá hefur RÚV eingöngu sýnt frá Meistaradeild Líflands síðustu árin. Vegna útsendinga þá ættu að vera til um 30 klukkustundir af efni deildarinnar frá árinu 2022, en þrátt fyrir það birtist engin önnur umfjöllun um hestamennsku á RÚV. Þó voru haldin stórmót eins og Íslandsmót og Landsmót hestamanna, ekkert af því kom fram í áramótaannáli um hestamennsku.“

Sigurbjörn segist fagna því að fulltrúar Landssamband hestamannafélaga og RÚV hafi átt gott samtal um hestaíþróttir á síðustu dögum.

„Ég vonast til þess að hestaíþróttir, sem er fjórða fjölmennasta íþróttin hér að landi, verði gerð betri skil. Forsvarsmenn RÚV og Alendis hafa átt gott samtal um að RÚV fái sent efni frá Meistaradeild Líflands og hvet ég RÚV til að senda út efni deildarinnar og almennt megi leggja meiri umfjöllun um hestamennsku almennt,“ segir Sigurbjörn og bætir við í lokinn að þeir sem hafi eitthvað málefnalegt fram að færa eða finnst eitthvað betur mega fara þá er þeim velkomið að hafa samband á netfangið info@meistaradeild.is eða í síma 669 9750.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar