Færri hross flutt út árið 2022 en árið áður

  • 14. janúar 2023
  • Fréttir
Útflutningstölur fyrir árið 2022

Árið 2022 voru flutt út alls 2.085 hross en það er töluvert minna en metárið 2021 en þá voru flutt út 3.341 hross. Árið 2020 voru flutt út 2.324 hross og sé litið yfir útflutning síðasta áratugar þá var útflutningur þessa árs vel yfir meðallagi.

Mynd: Bændablaðið

Af þessum 2.085 hrossum eru 312 stóðhestar, 823 geldingar og 950 hryssur. 556 hross fóru í útflutning með A-vottun en hross fær A-vottun þegar bæði hrossið og foreldrar þess eru erfðagreind með DNA greiningu og sönnun um ætterni liggur því fyrir. 125 af útfluttu hrossunum höfðu hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi en hæst dæmda hrossið sem fór út var heimsmetshafinn Viðar frá Skör (9,04) en hann fór til Danmerkur.

Eins og jafnan áður voru flest hross, 970, flutt til Þýskalands, 269 hross voru flutt til Danmerkur og 243 hross til Svíþjóðar en hrossin voru flutt til nítján landa innan Evrópu og til Bandaríkjanna.

Hægt er að skoða sundurliðun eftir löndum sem flutt var út til og samanburð á milli áranna 2020 og 2021 í töflunni hér fyrir neðan.

Samkvæmt Bændablaðinu hefur uppgefið meðalverð á útfluttu hrossi hækkað en fyrir fyrstu tíu mánuði ársins 2022 var uppgefið meðalverð tæpar 916.000 kr. samanborið við 690.000 kr. árið áður. Hæst uppgefna meðalverðið er fyrir hross sem fóru til Svíþjóðar eða um 3.000.000 kr. en lægsta verðið fyrir hross til Belgíu, eða um 148.960 kr.

Land 2022 2021 2020
Austurríki 119 192 145
Belgía 12 30 43
Kanada 0 1 4
Sviss 110 148 135
Þýskaland 970 1.477 974
Danmörk 269 530 271
Finnland 40 119 62
Færeyjar 17 17 17
Frakkland 47 36 28
Bretland 11 29 31
Grænland 0 0 8
Ungverjaland 14 3 1
Írland 1 9 4
Ítalía 2 2 2
Lettland 0 0 1
Lúxemborg 20 19 12
Litháen 0 0 3
Holland 63 107 80
Noregur 52 48 56
Pólland 1 0 0
Nýja-Sjáland 0 0 0
Rúmenía 1 4 0
Svíþjóð 243 460 306
Slóvenía 0 3 0
Bandaríkin 93 107 141
Samtals: 2085 3.341 2.324

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar