Fagna niðurstöðu málsins
Eins og áður hefur komið fram á vef Eiðfaxa hefur verið dæmt í máli Jóhanns R. Skúlasonar gegn Landssambandi hestamannafélaga. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ komst að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi verið óheimilt að víkja honum úr landsliðshópi Íslands þann 31. október 2021. Dóminn í heild sinni má lesa HÉR.
Í samtali við Eiðfaxa segir Þorsteinn Einarsson lögmaður Jóhanns að niðurstaða dómsins sé ánægjuleg, hún sé rétt og í samræmi við málatilbúnað þeirra.
„Í dómi áfrýjunardómstólsins er fallist á það að ákvörðun Landssambands hestamannafélaga og landsliðsnefndar hafi verið ólögmæt og að ákvörðunin hafi ekki átt stoð í lögum sambandsins né lögum ÍSÍ. Dómurinn staðfestir valdníðslu gagnvart Jóhanni enda byggir hin ógilda ákvörðun ekki á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.“
Í dómnum kemur fram að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi ekki haft lagalega heimild til að víkja Jóhanni úr hópnum en einnig kemur þar fram að vald til að velja knapa í landsliðið sé í höndum landsliðsþjálfara og landsliðsnefndar hverju sinni þó svigrúmið sé ekki ótakmarkað.
„Svigrúm þessara aðila er ekki ótakmarkað og þeir geta ekki ákveðið að sniðganga einstaka aðila í andstöðu við lög. Ég lít svo á að þetta sé alvarlegur áfellisdómur yfir Landssambandinu og landsliðsnefnd og við fögnum því að réttlætið hafi náð að sigra. Viðurkennt er að landssambandið og landsliðsnefnd gekk fram með ólögmætum hætti og braut gróflega gegn hagsmunum Jóhanns.“
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði lengra með málið en Þorsteinn telur engan vafa leika á um að Jóhann hafi orðið fyrir tjóni vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar landssambandsins og landsliðsnefndar.
„Dómurinn er ný genginn. Hvort það verður eitthvað framhald á málinu fyrir almennum dómstólum get ég ekki sagt um að svo stöddu. Jóhann hefur orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar ákvörðunar stjórnar LH og landsliðsnefndar sem og umfjöllunar landsliðseinvaldsins og fleiri aðila um málefni hans.“