Fékk Hervar 10 fyrir tölt?

  • 10. júlí 2020
  • Fréttir

Hervar frá Sauðárkróki og Albert Jónsson á Landsmóti 1982. Mynd: Eiríkur Jónsson

Í nýjasta Eiðfaxa – Eiðfaxi Vor – sem kom út nú í vikunni, er að finna áhugavert viðtal við Albert Jónsson þar sem hann fer yfir æviferilinn og eftirminnileg hross. Þar rifjar hann meðal annars upp kynni sín af Hervari frá Sauðárkróki sem hefur markað djúp spor í íslenska hrossarækt og fullyrðir Albert að Hervar hafi hlotið hvorki meira né minna en 10 fyrir tölt á kynbótasýningu í Svarfaðardalnum árið 1982. Gefum Albert orðið:

Það var mikill metnaður í Sveini Guðmundssyni eiganda og ræktanda Hervars að ná honum í efsta sætið á Landsmótinu (á Vindheimamelum 1982) en Hervar var næst efstur inn á mót. Ég hafði sýnt hann í forskoðunardómi í Svarfaðardalnum þar sem hann hlaut gríðarlega háa einkunn sem klárhestur. Ég man það mjög vel að þar hlaut hann 10 fyrir tölt en því miður virðast skrifleg gögn frá þeirri sýningu hafa glatast. Nema hvað að Sveinn biður mig svo um það að ég verði að leggja hann til þess að ná í efsta sætið á Landsmótinu en ég var frekar tregur til þess enda fannst mér hesturinn algjörlega frábær sem klárhestur og á margan hátt á undan sinni samtíð sem slíkur. Ég vissi að hann bjó yfir skeiði undir niðri en þegar ég fór að prófa að leggja hann dalaði hann mikið á tölti og ég er viss um að hann hefði orðið mikið vinsælli ef hann hefði verið sýndur á Landsmótinu sem klárhestur. En það skiptir nú litlu máli þannig séð því hann hefur reynst frábær ræktunarhestur.“ 

Þetta og miklu fleira er að finna í Eiðfaxa Vor. Ert þú ekki örugglega áskrifandi??

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<