Fjögur hross hlutu 9,5 fyrir hægt tölt

  • 17. september 2021
  • Fréttir

Glampi frá Kjarrhólum hlaut 9,5 fyrir hægt tölt. Knapi er Daníel Jónsson

Kynbótasýningar ársins

Alls hlutu fjögur hross einkunnina 9,5 fyrir hægt tölt í ár hér á landi. Meðalaldur þessara hrossa er 7 ár. Af þessum fjórum hrossum eru þrír stóðhestar. Tveir hlutu einkunnina á vorsýningu, einn á fjórðungsmóti og ein á síðsumarssýningu.

Yngstur í hópnum er stóðhesturinn Sólfaxi frá Herríðarhóli en hann er 5 vetra. Sólfaxi var sýndur af Árna Birni Pálssyni. Ræktandi er Ólafur Arnar Jónsson en hann er jafnframt eigandi ásamt Renate Hannemann og Grun ehf. Sólfaxi er undan Óskastein frá Íbishóli og Hyllingu frá Herríðarhóli sem er undan Herkúles frá Herríðarhóli og Hamingju frá Herríðarhóli.

Óskasteinn á annan fulltrúa á listanum en það er hann Sigursteinn frá Íbishóli, 8 vetra og var hann sýndur af Magnúsi Braga Magnússyni. Móðir Sigursteins er Bylgja frá Dísarstöðum 2 sem er undan Vísi frá Syðri-Gróf 1 og Jörp frá Dísarstöðum 2. Ræktandi og eigandi Sigursteins er Íbishóll ehf.

Auðlind frá Þjórsárbakka, eina hryssan í hópnum, var sýnd af Teiti Árnasyni. Eigandi og ræktandi er Þjórsárbakki ehf. Auðlind er 6 vetra undan Loka frá Selfossi og Andvaradótturinni, Golu frá Þjórsárbakka en móðir Golu er Elding frá Hóli.

Glampi frá Kjarrhólum er aldursforsetinn, 9 vetra, og var sýndur af Daníel Jónssyni. Glampi er undan Arion frá Eystra-Fróðholi og Gígju frá Árbæ sem er undan Galsa frá Sauðárkróki og Glás frá Votmúla 1. Ræktandi Glampa eru þeir Bragi Sverrisson og Axel Davíðsson en eigandi er gæðingar ehf.

Nafn Uppruni í þgf. Sýnandi
Glampi Kjarrhólum Daníel Jónsson
Sigursteinn Íbishóli Magnús Bragi Magnússon
Auðlind Þjórsárbakka Teitur Árnason
Sólfaxi Herríðarhóli Árni Björn Pálsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar