Fjögur hross hlutu 9,5 fyrir háls, herða og bóga
Nú þegar kynbótasýningum árið 2022 er lokið þá er gaman að renna yfir níufimmur og tíur ársins í einstökum eiginleikum. Næsti eiginleiki sem við tökum fyrir hér á vef Eiðfaxa er háls, herðar og bógar.
Til þess að fá glögga mynd af því eftir hverju er verið að leita þegar eiginleikinn er metinn er gripið niður í stigunarkvarða einstaklingadóma og lýsing á einkunninni 9,5-10 í þeim eiginleikum sem teknir eru fyrir hverju sinni.
Háls, herðar og bógar
Í þessum eiginleika er lögun, reising, setning og lengd hálsins metin. Þá er einnig lagt mat á hæð og lengd herðanna sem og lengd og halla bóganna. Lögð er áhersla á að frambyggingin nýtist í reið og þar er skoðuð reising, höfuðburður og/eða bóghreyfing.
9,5 – 10
Afar vel lagaður háls sem er mjúkur, reistur og hátt settur. Yfirlína hálsins er löng og hvelfd, hálsinn er vel aðskilinn frá bógum, grynnist vel upp í kverk og samtenging höfuðs og háls skapar úrvalsgóða hnakkabeygju. Herðar eru háar og langar og bógar eru langir og vel skásettir.
Fyrir einkunnina 9,5 eða 10 fyrir háls, herðar og bóga skal sannreyna að frambyggingin nýtist hrossinu í reið.
Alls hlutu fjögur hross á árinu einkunnina 9,5 fyrir háls,herðar og bóga, tveir stóðhestar og tvær hryssur, en ekkert hross hlaut einkunnina 10,0 í ár frekar en þau fyrri en ekkert hross hefur hlotið þá eftirsóknarverðu einkunn.
Listi yfir þau hross sem hlutu 9,5 fyrir háls, herðar og bógar.
Nafn | Uppruni í þgf. | Sýnandi |
Díva | Austurási | Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir |
Fróði | Flugumýri | Eyrún Ýr Pálsdóttir |
Hersir | Húsavík | Teitur Árnason |
Lýdía | Eystri-Hól | Árni Björn Pálsson |