Flosi Ólafsson Íþróttamaður Borgfirðings
Uppskeruhátíð Borgfirðings var haldin í gærkvöldi þar sem verðlaunaðir voru knapar ársins og ræktendur kynbótahrossa. Stjórn Borgfirðings vill koma sérstökum þökkum á framfæri til Líflands, sem gaf veglegar gjafir, og Alendis, sem klipptu saman myndbönd fyrir tilefnið.
Flosi Ólafsson var útnefndur knapi ársins í opnum flokki sem og Íþróttamaður Borgfirðings. Flosi átti gott tímabil á gæðingunum Röðli frá Haukagili í Hvítársíðu, Védísi frá Haukagili í Hvítarsíðu, Steinari frá Stíghúsi og Loga frá Valstrýtu. Hann var m.a. í úrslitum bæði í tölti bæði á Lands- og Íslandsmóti á Röðli, efstur forkeppni í A-flokki á úrtöku Borgfirðings á Védísi og í úrslitum á Reykjavíkurmeistaramóti í fimmgangi á Steinari.
Ræktunarbú ársins var útnefnt Leirulækur. Þar stunda hrossarækt þau Guðrún Sigurðardóttir og Sigurbjörn Jóhann Garðarsson. Alls voru sýnd fimm hross úr ræktun þeirra í ár og þar á meðal stórgæðingarnir Þórskýr og Væta.