Flutt að Sandhól í Ölfusi

  • 3. mars 2024
  • Fréttir
Viðtal við Rósu Birnu Þorvaldsdóttur og Þór Jónsteinsson

Rósa Birna Þorvaldsdóttir og Þór Jónsteinsson hafa flutt sig að Sandhól Ölfusi þar sem þau stunda nú tamningar og þjálfun á hrossum. Jörðin er 137 hektarar að stærð með gjöfulu og grasmiklu beitarlandi.

„Við keyptum þessa jörð fyrir tveimur árum ásamt foreldrum Rósu, þeim Margréti Vilhjálmsdóttur og Þorvaldi H Kolbeins, og erum búinn að vera að vinna að því á þeim tíma að koma hérna upp húsakosti og byggja upp framtíðaraðstöðu. Þetta er langtímaverkefni, við búum hér í sumarhúsi á jörðinni núna en í framtíðinni ætlum við að byggja íbúðarhús og ýmislegt annað.“

Hesthúsaðstaðan hjá þeim lítur vel út en þau innréttuðu fjárhús byggt árið 2011 sem hesthús og hafa þar pláss fyrir 27 hross. „Við erum með töluvert mikið í tamningu og þjálfun fyrir aðra auk þess að vera með i kringum 10 hross frá okkur sjálfum. Við erum með skýra sýn á uppbygginguna hér og sjáum fyrir okkur að byggja við hesthúsið auk þess að koma okkur upp reiðhöll.

Hrossarækt sína hafa þau kennt við Kerhól. „Þegar við byrjuðum að rækta hross saman að þá ákváðum við að notast við ræktunarnafnið Kerhól, sem er bæjarnafn úr Eyjafirði úr fjölskyldu Þórs. Ég reikna alveg með því að við höldum því ræktunarnafni enda eigum við orðið töluvert mörg hross kennd við það ræktunarnafn og höfum markaðsett okkur undir því nafni.“

Jón Ársæll Bergmann og Frár frá Sandhól á HM síðasta sumar. Ljósmynd: Bert Collet

Frár frá Sandhól varð, ásamt knapa sínum Jóni Ársæli Bergmann, heimsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum ungmenna í sumar. Hann er úr ræktun foreldra Rósu Birnu og hún hefur frá upphafi fylgt honum eftir og ásamt Þór kepptu á honum um nokkurra ára skeið. „Heimsmeistararmótið var hinn fullkomni endir á því sem við höfum unnið að með Frá. Það er klárlega söknuður af honum hér úr hesthúsinu en við náum þó töluvert mikið að fylgjast með honum í gegnum eigenda hans og Nils Christian Larsen, en hann er nú í þjálfun hjá honum. Við erum heppin að hafa verið með nokkur afkvæmi hans sem bera einkenni föður síns vel. Það sem lýsir þeim vel er mikið sjálfstraust og góð gangskil. Það kemur held ég beint frá afa þeirra Loka frá Selfossi. Við höfum bæði fengið alhliða- og klárhross í tamningu undan honum og erum t.d. með einn son Frás inni núna sem minnir mikið á föður sinn.

Eiðfaxi óskar þeim Rósu Birnu og Þór gæfu og velfarnaðar að Sandhól í Ölfusi.

Hægt er að fylgjast með þeim á Instagram og Facebook undir Kerhólshestar

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar