Folaldasýning Adams

  • 15. janúar 2020
  • Fréttir
Minnsta hestamannafélagið á landinu, Hestamannafélagið Adam í Kjós, hélt fyrsta almenna hestaviðburð ársins hér á landi þann 12. janúar 2020

þegar folaldasýning félagsins fór fram í Miðdal í Kjós.  Oft veltur lítil þúfa þungu hlassi.   Árið 2020 verður gott ár fyrir íslenska hestinn.  Eins og oft áður voru fengnir til dómstarfa þeir Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður í hrossarækt o.fl., og Halldór Guðjónsson, sem er kunnur hestamaður í Dallandi.

Á sýninguna mættu með folöld sín félagar í hestamannafélaginu, hrossaræktendur í Kjósinni og  nágrannasveitarfélögum.   Verðlaunað var fyrir fyrstu þrjú sæti í flokki hestfolalda og flokki merfolalda og dæmt var um glæsilegasta folald sýningarinnar í eigu félagsmanns í Adam.   Fjöldi gesta mætti á sýninguna, sem fór fram í frábærri aðstöðu hjá Miðdalshjónunum Svönu og Guðmundi.

Glæsilegasta folald sýningarinnar var kosið Mjallhvít frá Þúfu, sem er í eigu Guðríðar Gunnarsdóttur og Björns Ólafssonar, sem lengi hafa kennt hrossarækt sína við Þúfu í Kjós.   Mjallhvít var jafnframt hæst dæmda merfolaldið.  Hæst dæmda hestfolaldið var Skuggi frá Flekkudal, sem er í eigu Guðnýjar G. Ívarsdóttur, sem ásamt Sigurði Guðmundssyni kennir hrossarækt sína við Flekkudal í Kjós.  Húsráðendurnir Svanborg Magnúsdóttir og Guðmundur Davíðsson, Miðdal í Kjós, áttu merfolald í öðru sæti.  Flest verðlaun sýningarinnar runnu þó til hrossaræktendanna á Meðalfelli í Kjós, þeirra Sigurbjargar Ólafsdóttur og Sigurþórs Gíslasonar, sem áttu merfolald í þriðja sæti og hestfolöld í öðru og þriðja sæti.

Úrslit sýningarinnar voru þessi:

Merfolöld:

  1. Mjallhvít frá Þúfu.   Móðir:  Þyrnirós frá Þúfu.  Faðir:  Herkúles frá Ragnheiðarstöðum.

Eigendur og ræktendur:  Guðríður Gunnarsdóttir og Björn Ólafsson.

  1. Sólstaða frá Miðdal.  Móðir:  Ská frá Miðdal.  Faðir:  Aðall frá Nýja-bæ.

Eigendur og ræktendur:   Svanborg Magnúsdóttir og Guðmundur Davíðsson.

  1. Eik frá Meðalfelli.  Móðir:  Nípa frá Meðalfelli.  Faðir:  Sproti frá Innri-Skeljabrekku.

Eigendur og ræktendur:   Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason.

Hestfolöld:

  1. Skuggi frá Flekkudal.  Móðir:  Ól frá Flekkudal.  Faðir:  Skugga-Sveinn frá Þjóðólfshaga.

Eigandi og ræktandi:   Guðný G. Ívarsdóttir.

  1. Dynjandi frá Meðalfelli.  Móðir:  Dagný frá Meðalfelli:  Faðir:  Hávaði frá Haukholtum.

Eigendur og ræktendur:  Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason.

  1. Krókur frá Meðalfelli.  Móðir:  Klækja frá Stóra-Kroppi.  Faðir:  Sólon frá Heimahaga.

Eigendur og ræktendur:   Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar