„Forréttindi að fá að starfa við það sem maður elskar“

  • 6. september 2024
  • Fréttir
Viðtal við Benjamín og Jóhönnu

Að Káragerði í Landeyjum reka þau Benjamín Sandur Ingólfsson og Jóhanna Guðmundsdóttir tamningastöð. Eigendur Káragerðis eru þau Viðar Halldórsson og Ragna Bogadóttir þar eru 30 stíur í nýlegu hesthúsi og reiðhöll sem er 18×40 að stærð.

„Það er algjör draumur að búa í sveit og hafa hestamennsku að atvinnu. Það eru forréttindi að starfa við það sem maður elskar og fyrir það ber að vera þakklátur. Það getur alltaf eitthvað komið upp á þannig að maður geti það ekki lengur og því á að njóta hvers dags.“

Benjamín og Jóhanna eiga von á sínu öðru barni nú í september og því er í nógu að snúast hjá þeim en auk þeirra starfar hjá þeim tamningakonan Tania sem hefur reynst þeim vel. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ár og Landsmótið stendur alltaf upp úr þau ár sem það er haldið. Við vorum með fjögur kynbótahross á Landsmóti og tvö keppnishross. Við erum það heppinn að okkur hefur verið treyst fyrir góðum hrossum og eigum í góðum samskiptum við eigendur þeirra. Við leggjum okkur fram um það að vera heiðarleg gagnvart okkar kúnnum og á því byggjum við okkar rekstur.“

Jóhanna á Erpi frá Rauðalæk Ljósmynd: Karen Guðmundsdóttir

Benjamín sýndi 29 hross í ár í fullnaðardómi og fjögur þeirra unnu sér inn þátttökurétt á Landsmóti,  auk þess að vera með tvö hross í keppnishluta Landsmótsins. „Okkur finnst kynbótahluti hestamennskunnar einna skemmtilegastur. Að temja og þjálfa ung hross og undirbúa þau fyrir kynbótadóm er það sem okkur líkar hvað best. Samskipti okkar við dómara og starfsfólk á kynbótasýningum eru góð og þessi samvinna knapa, eigenda hrossa og starfsfólk kynbótasýninga er yfirleitt skemmtileg og gefandi.“

Á Landsmóti árið 2022 sýndi Benjamín eitt hross í kynbótadómi en það var Elding frá Hrímnisholti, hann hefur svo verið með hana í keppni í ár. „Hágengara hross en hana er erfitt að finna, við höfum verið svo lánsöm að vera í góðu samstarfi við Rúnar eigenda hennar. Sagan sem á eftir fylgir er til marks um það. Hún kom til okkar eftir að Vignir í Hemlu hafði gert hana reiðfæra, frá byrjun var hún með þessar miklu hreyfingar og frábært geðslag, hún þarf því mikinn styrk til að valda sínum hreyfingum. Þegar Benjamín sýndi hana svo í fyrsta skipti í kynbótadómi hlaut hún 7,80 fyrir hæfileika sem var langt undir væntingum. Hann var hræddur um að Rúnar myndi fá annan reynslumeiri knapa til að sýna hana en hann treysti okkur til þess að klára dæmið og fyrir það erum við þakklát. Tveimur vikum seinna hlaut Elding svo 8,28 fyrir hæfileika og farmiða á Landsmót. Það er mjög mikilvægt fyrir ungt fólk eins og okkur að fá slíkt traust frá eigendum og þannig nær maður að þróa sig áfram og verða betri.“

Auk Eldingar að þá var Benjmín einnig með Áka frá Hurðarbaki í B-flokki og svo þá Stardal frá Stíghúsi, Blöndal frá Reykjavík, Álfatý frá Skíðbakka I og Helnuminn frá Skíðbakka 1A í kynbótahluta Landsmótsins. „Við erum mjög ánægð með árangur ársins, fórum til að mynda með fjögur 4.vetra hross til dóms og 3 þeirra hlutu 1.verðlaun. Augnablikin voru mörg og skemmtileg í sumar en framundan eru svo tamningar og þjálfun hrossa og svo hefst keppnistímabilið aftur með Meistaradeildinni. Benjmín verður í liði Sumarliðabæjar í vetur.“

Þá er Heimsmeistaramót framundan á næsta ári en Benjamín var á meðal keppenda á síðasta HM á Júní frá Brúnum. „Við erum með þrjú kynbótahross sem munu standa til boða fyrir hönd Íslands og auk þess keppnishross sem gaman væri að reyna sig með. Þeirra á meðal verður vonandi Fáfnir frá Efri-Rauðalæk sem Benjamín varð Íslandsmeistari á í 100 metra skeiði árið 2021. Hann hefur nú verið frá í nokkurn tíma en er að koma sterkur til baka.“

Benjamín fagnar Íslandsmeistaratitli í 100 metra skeiði árið 2021 á Fáfni frá Efri-Rauðalæk

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar