“Forskot Íslands bara eykst”

  • 7. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við Þórð Þorgeirsson

Þórður Þorgeirsson var í stuttu stoppi hér á landi í kringum jólin og blaðamaður Eiðfaxa ákvað að nýta tækifæri og taka Þórð tali, spyrja hann m.a. út í hestamennskuna í Þýskalandi og endað var á því að spá í spilinn fyrir heimsmeistaramótið í Oirschot í ágúst.

Þórður er búsettur í Rotenburg an der Wümme sem er rétt fyrir sunnan Bremen í Þýskalandi. Hann býr þar ásamt konu sinni, Josefine, og börnum þeirra tveimur Theódóru Ísmey og Stormi Þór en Þórður á þrjú önnur börn sem öll eru búsett á Íslandi þau Kristinn Reyr, Aþenu og Þórð Dreka sem eru dugleg að heimsækja pabba sinn til Þýskalands. Þau Josefine og Þórður reka tamningastöð þar sem þau eru með u.þ.b 40 hross í þjálfun. “Uppistaðan er þjálfunarhross og síðan erum við alltaf með einhver söluhross. Hross í okkar eigu eru ekki mörg en það er alltaf að bætast í þann hóp,” segir Þórður sem er mesta að temja og þjálfa fyrir aðra, ásamt því að sinna kennslu af og til.

Hrossasala hefur verið frábær
Þórður var hér á landi í leit að söluhrossum en mikið hefur verið að gera á þeim markaði síðustu ár. “Markaðurinn er frekar rólegur akkúrat í þessum töluðu orðum en hann er það svo sem á hverju ári á þessum tíma. Fram að þessu hefur salan verið fín, sumarið gott og vorið prýðilegt líka. 2021 og 2022 voru frábær ár í tengslum við sölu. 2021 var eiginlega alveg geggjað,” segir Þórður. Þó markaður sé rólegur í tengslum við sölu á góðum reiðhestum þá segir hann þó alltaf vera eftirspurn eftir frábærum keppnishrossum. “Þeir kúnnar vilja alltaf, eðlilega, sækja þessi hross hingað til Íslands. Það eru líka meiri líkur á því að þú fáir þessi hross keypt hér því hross í þessum klassa eru ekki til sölu eins og t.d. í Þýskalandi.”

Stríðið í Úkraínu hefur haft margvísleg áhrif á heiminn allann og erum við hestamenn og þá sérstaklega erlendis ekki undanskilin því. Margir hafa haft áhyggjur af því að hrossasala eigi eftir að lognast útaf en Þórður segist halda í vonina um að svo gerist ekki. “Ég tek alveg eftir því að Þjóðverjar eru aðeins að halda að sér höndum, sérstaklega núna yfir vetrartímann og þeir vilja spara. Verð á gasi og raforku hefur margfaldast á við það sem það hefur verið. Ég hef aðeins haft áhyggjur af því að þetta hafi áhrif á sölu en ég hef ekki fundið fyrir því enn sem komið er. Ég er bjartsýnn og vona að markaðurinn muni ekki haldast eins og hann er núna,” segir Þórður sem vonast eftir að hrossasala muni glæðast á ný t.d. með aukinni markaðssetningu í tengslum við Heimsmeistaramótið í Hollandi í ágúst. “Stórir viðburðir á borð við WorldToelt í Óðinsvéum, Icehorse Festival í Herning og Meistaradeildin á Íslandi ýtir mjög undir sölu en þessir viðburðir hvetja fólk áfram,” bætir hann við. Íþróttakeppnin gríðarlega vinsæl Þórður segist líka vera bjartsýnn þar sem mikill gangur hefur verið í hestamennskunni á meginlandinu. Fólk hefur verið að kaupa sér mikið af hrossum og það sé vísbending um að eitthvað sé framundan. “Það var haldið aðventumót á Kronshof í lok nóvember. Mótið var stappað bæði í fyrsta og öðrum flokki. Þarna komu góðir knapar víðsvegar að en t.d. mætti Nils Christian Larsen alla leið frá Danmörku til að keppa. Fólk er að halda námskeið víða og eru þau vel sótt. Ég held að fólk geri sér kannski ekki alveg grein fyrir því hvað íþróttakeppnin í Þýskalandi er svakalega vinsæl. Hún er mun stærri en allt sem snýr að kynbótahrossum. Gæðingakeppnin þekkist ekki orðið, kannski eitt eða tvö mót haldin á ári, sem er synd finnst mér. Hér voru sýnd færri hross í dómi heldur en  fyrra en íþróttamótin þau eru yfirfull. Þegar opnað er fyrir skráningar er allt orðið fullt 10 mínútum seinna, þó er pláss fyrir 500 – 600 skráningar,” segir Þórður.

Djásn frá Akurgerði

Forskot Íslands bara eykst

Talið berst að hestamennskunni hér á landi en Þórður hefur fylgst með gangi mála og nýtir sér þar streymisveituna Alendis. “Það virðist ekkert vera lát á framförunum hér hvort sem það er í íþrótta-, gæðinga-, eða kynbótageiranum. Hestakosturinn er yfirburðagóður. Það er búið að vera tala um í yfir 20 ár að Þjóðverjinn, sem er næstur í röðinni á eftir Íslandi hvað varða hrossafjölda og iðkendur, sé að fara ná Íslandi hvað varðar gæði. Mér finnst bilið vera að stækka, forskotið er orðið mun stærra, þróunin sem á sér stað hér á Íslandi á sér enga líka,” segir Þórður og vill bæta við að það séu margir góðir ræktendur í Þýskalandi og mikið af góðum hrossum sem standast bestu hrossin hér á landi en fjöldinn er ekki eins mikill. “Við eigum góða ræktendur í Þýskalandi sem eru ofurdugleg og kraftmikil. Fremst þar í flokki er Kronshof en þau eru með mjög góð hross bæði kynbóta- og keppnishross. Þau standa mjög vel fyrir komandi heimsmeistaramót. Það voru sýndar í sumar fimm og sex vetra hryssur frá búinu sem voru á Landsmótsmælikvarða.”

Danir verða sterkir á heimsmeistaramótinu

Framundan er heimsmeistaramót í Oirschot í Hollandi. Margir hestamenn bíða spenntir yfir því að sjá hvernig komandi keppnistímabil muni þróast. Hverjir eru líklegir kandídatar til sigurs og hvaða þjóðir munu mæta sterkastar til leiks. Þórður hefur aðeins spáð í spilinn og telur hann Dani eiga eftir að koma mjög vel frá mótinu. “Ég er aðeins búinn að vera velta þessu fyrir mér. Allir eru að bíða og sjá hverjir koma til með að keppa fyrir Ísland en hér eru alltaf góðir hestar bara spurning hverjir verða í liðinu á endanum. Ég held að Danir verði óhemjusterkir, ef þeirra sterkustu pör mæta til leiks, miðað við síðustu þrjú ár þegar maður skoðar slaktaumatölt, tölt og fimmgang. Jón Stenild er illviðráðanlegur á Eilíf fra Teglborg. Sys Pilegaard er búin að vera ósigrandi á Óliverssyninum, Abel, og hann er bara að verða massívari og betri hjá henni. Síðan er Julie Christiansen alltaf sterk í slaka taumnum, hún er búin að vera sigra slaktaumatöltkeppnir á Flákasyninum, Felix frá Blesastöðum, og nú er hún komin með Kveik frá Stangarlæk. Hún var önnur í tölti á honum í Stokkhólmi núna í nóvember, búin að vera með hann í viku. Við vitum öll hvað Kveikur er góður á tölti og Julie er ekkert að byrja í þessu. Hún er meinseig ef hún fær tíma með honum,” segir hann og bætir við að Anne Frank Andersen á Vökli frá Árbakka verði sterk í fimmgangnum. “Þessir knapar hafa allir verið með hrossunum sínum í fjögur til fimm ár sem skiptir miklu máli og flest hafa þau reynslu af því að keppa á heimsmeistaramóti.

Þú þarft að vera með ansi mikinn ís í blóðinu ef þú ætlar að fara í gegnum heimsmeistaramót og ekki vera truflaður af því. Þó þú hafir keppt á Íslandsmótum og Landsmótum og heldur jafnvægi þar, þá er þetta umhverfi bara allt annað. Þetta snýst ekkert um að hestarnir verði öðruvísi. Þetta snýst um þig og hausinn á þér. Þarna skiptir mestu að halda sjálfum sér einbeitum og þá geta allir þessir frábæru knapar sem við eigum hér á Íslandi kláraði sig vel frá þessu,” segir hann að lokum.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar