Föstudags pæling – Pistill eftir Hinrik Sigurðsson

  • 11. september 2020
  • Fréttir
Smá pælingar um hugarfar knapans og þjálfun þess.

Ég er mikill áhugamaður um hugarþjálfun og hef fundið af eigin reynslu hve ótrúleg áhrif maður getur haft með því að markvisst þjálfa hugarfarið samhliða annarri þjálfun.
Ég hef alltaf staðið fastar á því en mínum eigin fótum að reiðmennska sé hugaríþrótt, og fari að langstærstum hluta fram í kolli knapans, mun meira en í líkamlegri tækni hans þó svo að sjálfsstjórn, jafnvægi og samhæfing séu auðvitað allt saman gríðarlega mikilvægir eiginleikar hjá góðum knapa.

Ég þykist alveg handviss um það að líkamstjáningin og stemningin sem knapanum tekst að miðla í ábendingum sínum, þ.e. „tónninn“ í ábendingunni þýði fyrir hestinn mikið meira en ábendingin sjálf eigi nokkurn tíma eftir að geta gert. Máli mínu til stuðnings hafa flestir hestamenn örugglega séð spenntan hest á hlaupum með spenntan knapa sem reynir að gefa ábendingu um að stoppa, með sæti og taum og segir stressað „hó“ og hesturinn hleypur samt, og jafnvel hraðar. Eins með þungan og daufan hest sjást margir knapar sökkva niður í líkamstjáningunni og byrja að hamast með þungum ábendingum og ekkert gerist sem færir hestinn nær léttleika.
Ef líkamstjáning knapans, stemningin og tónninn í ábendingunni stemmir ekki við það sem verið er að reyna að biðja um, þýðir ábendingin sjálf eiginlega ekki neitt.
Það skiptir því ekki alltaf mestu máli hvað er sagt með ábendingunni, heldur hvernig hún er gefin.

Góður knapi þarf þess vegna í öllum aðstæðum að hafa fulla stjórn á því hvaða stemningu er miðlað til hestsins, hvernig ábendingar eru gefnar og hvaða stemningu knapinn nær að búa til í þjálfunartímanum. Góður knapi stjórnast ekki af þeim aðstæðum sem hann lendir í með hestinn sinn, sem er samt ofsalega algengt eins og flestir hestamenn þekkja að einhverju leyti. Þeas. Ef hesturinn verður spenntur er til dæmis mjög létt að knapinn verði eins, og ef hesturinn er þungur vill ábendingatónninn oft fylgja með. Til þess að hjálpa hestinum er mikilvægt að knapinn haldi alltaf þeim tóni í ábendingunum sem hann vill að hesturinn svari.
Almennt séð er það léttur, orkumikill og spennulaus.

 

Það sem ég vildi sagt hafa í þessum pistil mínum áður en hann verður of mikil langloka er mikilvægi þess að stjórna huga sínum.
Við getum ekki hugsað eina hugsun án þess að hún hafi á einhvern hátt áhrif á líkamstjáningu okkar, allar hugsanir gera það á einn eða annan hátt, mismikið. Þess vegna tel ég algjört lykilatriði í þjálfun og tamningu að hugsa alltaf um það sem ég vill ná fram í hverri æfingu og með hverri ábendingu en EKKI hugsa um það sem á ekki að gerast því hestar eru einstakar skynverur á líkamstjáningu og stemningu, og um leið og líkamstjáningin verður spennt og þar með tónninn í ábendingum mínum svarar hesturinn eins.
Ég á eftir að taka fyrir orðið EKKI í öðrum pistli og ræða það vel, svo ég geymi það aðeins.

Knapi sem getur stjórnað hugsunum sínum og líkamstjáningu getur stýrt hesti á góðu jafnvægi með léttleika.
Ég vill þess vegna hvetja alla knapa sem vilja bæta færni sína að prufa að ríða út heima í sófa, sjá fyrir sér hvaða stemningu og hvaða tón þeir vilja miðla til hestsins, hjá mér eru þetta alveg jafn áhrifaríkir þjálfunartímar eins og að fara á bak hesti mínum. Eins er ágæt regla að hugsa sér aðeins hvaða nálgun maður vill hafa í reiðtúr/þjálfunartíma morgundagsins þegar maður leggst á koddann í kvöld, og sá þannig fræi fyrir góðri og uppbyggjandi stemningu í þjálfunartímanum.

Ríðið vel
Kv Hinni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar