Föstudagspistill Hinna Sig

  • 9. október 2020
  • Fréttir
Hugarfarið er vöðvi sem þarf að æfa til að styrkja

Hvað er hugarþjálfun?
Eru margir sem stunda hana?

Já allir, allir stunda hugarþjálfun meðvitað eða ómeðvitað á einhvern hátt í öllu sem þeir gera.

Hugarþjálfun er í rauninni það að búa sér til myndir af einhverju sem gerist í framtíðinni. Maður býr sér til myndir inni í eigin ímyndunarafli af því sem maður er að fara að gera, hvað sem það nú er.
Málið er að mjög margir skapa sér myndir af því sem á EKKI að gerast í þeirri atburðarás sem framundan er.
Sem dæmi „ég vona að ég detti ekki á leiðinni niður“ (skíðamaður/kona á leið í stórsvig), „eins gott að ég skjóti ekki framhjá“ (handboltaiðkandi á vítalínunni) „vona að ég verði ekki of seinn í vinnuna aftur“….
Þið fattið hvað ég meina ekki satt?

Á leið í stórleik, atvinnuviðtal eða heim að faðma maka sinn (skiptir engu hverjar aðstæðurnar eru) er meginmunur á því að mála upp myndina „ég vona að ég tapi ekki“ eða „ég vill vinna“. Þetta eru tvær gerólíkar myndir sem birtast okkur þó þær þýði nokkuð svipaða útkomu. Málið er hvað við sjáum, hvað birtist.
Og vitið þið hvað, heilinn á okkur er það ófullkominn að hann býr sér til einskonar minningar úr þeim myndum sem við málum upp, þó svo að atburðurinn sjálfur hafi ekki átt sér stað ennþá, hausinn á okkur skilur það nefnilega ekki alveg. Hann gerir ekki greinarmun á ímynduðum atburðum og raunverulegum.

Skipulögð og meðvituð hugarþjálfun er til þess fallin að taka stjórn á þeim myndum sem birtast, stjórna þeim, velja þær og búa þannig til „minningar“ sem búa okkur vel undir þær áskoranir sem framundan eru.
Hugarþjálfunin breytir þess vegna miklu fyrir nálgun okkar á þeim verkefnum sem við tökum, og er þess vegna að öllu leyti jafn mikilvæg okkur eins og hefðbundin líkamleg þjálfun.

Það er vel hægt með skipulögðum og einbeittum æfingum og þjálfun að breyta hugafari gangvart hinum ýmsu verkefnum, vinna með frammistöðukvíða, stjórna spennustigi, vinna sér inn jákvæðni í viðhorfi, skipuleggja fundi sem valda stressi, halda ræðu eða hreinlega hvað sem er bara með því að taka stjórnina á þeim myndum sem við birtum sjálfum okkur.

Það er bara tvennt sem stýrir þessu öllu saman
1. Taka ákvörðun
2. Æfa sig, það sem er æft verður betra!

Hugrenning dagsins sem flestir eða allir þekkja sig örugglega í á einhvern hátt.

Næst ætla ég að segja ykkur leyndó, risa leyndó um að æfingin skapar meistarann….

Have a nice day folks, stay cool ?
kv Hinni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar