Föstudagspistill Hinna Sig

  • 25. september 2020
  • Fréttir
Mig langar að segja ykkur smá sögu úr mínum eigin ferli, þar sem glöggt má sjá hluti sem ég held að margir ættu að þekkja að eigin raun í mörgu því sem við tökum okkur fyrir hendur.

Ég hef alltaf haft mikinn metnað í því sem ég geri, viljað mikið og stundum sennilega of mikið, meira en innistæða hefur verið fyrir á hverjum tíma, en á sama tíma hef ég í gegnum tíðina leikið aðalhlutverkið í því að vera stæsta hindrunin mín. Mér hefur í ótal mörg skipti tekist að vinna stór skemmdarverk á eigin velgengni með því einu að hafa „hausinn ekki rétt skrúfaðan á“ þegar á reynir.

Sem ungur knapi var ég á þeim mælikvarða sem ég bar mig saman við frekar lunkinn skeiðreiðmaður. Átti bara auðvelt með að leggja til skeiðs og hafði auðvitað ótrúlega gaman að, eins og gefur að skilja og náði fínum árangri í því með nokkuð marga hesta.
Eftir því sem ég lærði meira og gekk menntaveginn í fræðunum lenti ég í því sem margir gera, og ber oft að varast (kem að því aðeins síðar) að ég fór að hugsa mjög mikið um hvernig ætti að gera hlutina, ég fór að hræra í hlutum sem voru í nokkuð góðu lagi og ég hafði gott vald á.
Allt í einu varð bara töluvert flókið og erfitt að leggja hest til skeiðs. Ekki nóg með það, þá var ég á þessum tíma með hest í keppni sem var alls ekkert auðveldur á skeiði og þurfti svolítið að hafa fyrir. Á stuttum tíma varð skeiðreið allt í einu stóraðgerð, sem var hlaðin vondri tilfinningu um að maður réð ekki við tæknina.
Hugsanir fyrir hvern einasta sprett voru á þá leið „ég vona að það takist betur en síðast“ „vonandi klikkar þetta ekki aftur“.
Með öðrum orðum þá fór ég inn í verkefnið hvert einasta skipti með það í huga að það gæti ekki tekist.
Og viti menn, að sjálfsögðu klikkar spretturinn, yfirleitt. Ég fór inn í verkefnið búinn að ákveða það, og boom það varð eins og ég ákvað.
Þarna tóku hreinlega við nokkur ár af erfiðleikum við að leggja á skeið, og eins og oft verður þegar hlutirnir ganga illa þá fer maður að æfa mjög flókna hluti, búa til alls konar flóknar „seremoníur“ í kring um það að leggja á skeið, breyta búnaði, breyta járningum í allar áttir og svo framvegis.

Vandamálið: Knapinn var fullur efasemda, lélegt sjálfstraust fyrir verkefninu, staðráðinn í að það myndi klikka og þess vegna varð hann spenntur og skemmdi þessa fínu skeiðspretti fyrir hestunum sínum!!!

Lausnin tók svosem ótrúlega stuttan tíma þegar vandamálið er uppi á borðinu og það var eins og mér verður tíðrætt um að hugsa sprettinn þó hesturinn sé hvergi nálægur, fara í verkefnið í huganum með myndir þar sem verkefnið tekst vel, sjá fyrir sér aðdragandann, verkefnið og niðurstöðuna þar sem það tekst.
Fara aftur í grunninn, finna gleðina og hvötina í staðinn fyrir neikvætt hlaðin gildi kringum verkefnið og síðast en ekki síst finna traust á því sem áður hafði virkað, treysta eigin getu og tækni og tilfinningu sem var bara ágæt.

Að fara inn í skeiðsprett með það eitt í huga að hann takist vel, hesturinn fái skýr skilaboð og njóta þess að ná „kickinu“ sem alvöru sprettur gefur er í dag eitt það alskemmtilegasta sem ég veit.

Það sem ég vill koma á framfæri með þessari dæmisögu, sama hvað við erum að fást við eru nokkrir hlutir:

1. Þegar verkefni ganga ekki sem skyldi er ofboðslega mikilvægt að vinna með það að stilla myndirnar, og þar með væntingar okkar að því sem á að framkvæma en ekki því sem á ekki að gerast. Þar með förum við með passandi hugarfar og líkamstjáningu inn í verkefnið sem breytir aðstæðum gríðarlega.

2. Þegar hallar undan, gengur ekki eins og vanalega, byrjum á að einfalda hlutina. Ekki grafa sig dýpra í flókna hluti, heldur búta verkefnið niður í einfaldar einingar og fá þar með tök á verkefninu aftur.

3. Til þjálfara/leiðbeinenda:  Hlutir sem iðkandi/nemandi er að gera vel, er með sjálfstraust og virkni á æfingum ber að varast að fara í miklar tilfæringar með. Breyting á tækni sem iðkandi hefur þróað yfir í að geta gert nánast ómeðvitað hægir á viðbragðshraða, því iðkandinn þarf að byrja aftur að hugsa hreyfinguna/tilfinninguna og því er viðbúið að tæknin versni að minnsta kosti um tíma. Ef breyta á tækni sem er í raun góð til að verða betri er mikilvægt að vita að hægt sé að fylgja því eftir alla leið ef vel á að vera.

Munum að til þess að útfæra „gott mót“, eiga góða frammistöðu í hverju sem er þarf iðkandinn að upplifa „FLOW“ þar sem hreyfingar og aðgerðir flæða áreynslulaust og því sem næst ómeðvitað. Til þess að upplifa þetta ástand sem hægt er að kalla gott sjálfstraus í verkefninu þurfa kröfur/væntingar um útkomu eða árangur að vera í samræmi við upplifða getu iðkandans.
Þjálfari sem setur of flókið verkefni fyrir iðkanda sem ekki er þar skemmir þetta flæði, iðkandinn upplifir kvíða. Með verkefnum sem eru langt undir getu iðkandans minnkar áhugahvötin (doði).
Þarna er ábyrgð okkar þjálfaranna gríðarleg, að setja verkefni við hæfi og passa að iðkandinn upplifi getu sína í samræmi við það.

En jæja, nú er þetta orðið langloka hjá mér, og núna og auðvitað alltaf hef ég alveg klikkað gaman að því að ríða á skeiði, það er toppurinn á tilverunni finnst mér.

Á myndinni er það Óðinn frá Silfurmýri sem fer með mig þennan líka fína sprett í góðu jafnvægi.

Stay cool ??
kv Hinni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar