Fyrirheitna landið – Ferðasaga fjallmanna í lönguleit

  • 31. ágúst 2025
  • Fréttir

Fjallhestum beitt í Tjarnaveri í baksýn má sjá í Hofsjökul og Arnarfell hið Mikla

Fjallferð í Arnarfell hið Mikla, grein er birtist í tímariti Eiðfaxa árið 2019

Senn líður að göngum og réttum og fjallmenn huga nú að hestum sínum og búnaði og gera sig klára fyrir smalamennskur, bæði í styttri og lengri ferðum. Ein lengsta fjallferð sem farinn er hér á landi er farinn inn í Arnarfell hið Mikla í Hofsjökli en í þeirri grein sem hér að neðan fylgir segir frá slíkri ferð sem greinarhöfundur fór árið 2019 og þótti við hæfi að birtist nú hér á vef Eiðfaxa við upphaf september mánaðar.

 

„Fyrirheitna landið – Ferðasaga fjallmanna í lönguleit“

Íslenski hesturinn hlaut nafngiftina þarfasti þjónninn fyrr á öldum og kom það til vegna þess hversu ómissandi hann var til hinna ýmsu verka. Með tilkomu vélaaldarinnar varð hann að mestu óþarfur sem vinnuhestur. Það má þó segja að eitt vinnuhlutverk hans haldi sér ennþá, er það í kringum fjallferðir á haustin. Þar nýtist úthald hans, fótafimi og ósérhlífni vel, hvort sem tilgangurinn er að koma sauðfé eða hrossum til byggða eftir sumarlanga dvöl í fjallasölum. Það er málvenja í hverjum landshluta hvort þessar ferðir eru nefndar göngur eða fjallferðir, en á suðurlandi er yfirleitt talað um síðarnefndu nafngiftina. Um allt land fara nú fram smalamennskur bæði í heimalöndum og á afréttum og er óvíst að allir geri sér grein fyrir því hversu margir smalar og hestar eru á ferðinni að hausti. Smalamennskur hefjast yfirleitt um mánaðamótin ágúst/september og standa víða fram að jólum, með eftirsöfnum og eftirleitum. Greinahöfundur hafði samband við þá sem koma að smölun í Árnessýslu og í ljós kom að í fyrstu leitir fara alls 240 smalar og 470 hross. Það má því nærri geta hversu margir hestar og menn koma að smalamennskum um landið allt. Taka skal þó fram að víða hafa fjórhjól og bílar leist hestinn af hólmi og á sumum stöðum fara gangandi menn þar sem ekki er hægt að fara um með hesta.

Í þessari grein verður ferðasaga þeirra fjallmanna sem leita svæðið inn að Arnarfelli hinu Mikla í Hofsjökli rakinn.

Tilurð smölunar

Það að fara á fjall tengist sögu okkar Íslendinga frá því rétt eftir landnám. Þeir sem fara slíkar ferðir þekkja tilfinninguna vel að vera hluti af góðum hópi smala sem leggur af stað að morgni í hinum ýmsu veðrum. Eftir langan dag á fjöllum verða oft til skemmtilegar sögur og svo skemmir ekki fyrir að fá sér örlítið göróttan vökva að kvöldi og syngja og gleðjast saman. Í slíkum ferðum kynnast smalar náttúrunni hvað best, ógnvænleika hennar en um leið fegurð. Það má með sanni segja að þótt smalar skili sér oft heim í kofa þreyttir og slæptir að þá eru slíkar ferðir eldsneyti fyrir sálarlífið, þegar þreytan hefur sigið úr líkamanum eru flestir tilbúnir að leggja af stað aftur. Þeir fjallmenn sem í þessa ferð fóru, sem í greininni er um ritað, eru bæði úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi en innsti hluti afréttarins er sameiginlegur afréttur þessara sveitarfélaga. Samheiti þessarar lengstu smölunar á Íslandi er Sandleit eða Langaleit. En alls eru þeir fjallmenn Flóamanna sem inn í Arnarfell fara 10 daga á fjöllum og eru því 12 daga að heiman með hesta sína, ef þeir kjósa að ríða neðan úr Flóa og heim aftur eftir réttir. Hér á eftir skal rakið í stórum dráttum, hvernig leitarskipan er á þessu svæði á afréttinum og er stuðst við lýsingu Ágústs Þorvaldssonar heitins, bónda á Brúnastöðum og alþingismanns, sem hann rekur í Sunnlenskum Byggðum II. „Innsta leitarsvæði Flóamanna, langaleit, er sameiginlegt með Gnúpverjum. Liggur það norðan Fjórðungssands vestan úr Kerlingafjöllum austur með Hofsjökli í Arnarfell og að Þjórsá. Leita þetta svæði 8 menn: 4 úr Gnúpverjahreppi og 4 úr Flóa og Skeiðum. Fjallkóngur Gnúpverja stjórnar þessari leit. Samsmölun er einnig með Gnúpverjum í næstlengstu leit Flóa- og Skeiðamanna. Kallast hún Norðurleit og tekur þremur dögum skemmri tíma en sú lengsta. Norðurleit tekur yfir svæðið norðan frá Fjórðungssandi suður að Dalsá. Er það smalað á einum degi af 20 mönnum. Eru það þeir 8 menn, sem inn yfir Fjórðungssand fóru og 12 menn sem bætast við: 6 frá Gnúpverjum og 6 frá Flóa- og Skeiðamönnum.“  Þær breytingar hafa orðið síðan að þetta var ritað að fækkað hefur verið fjallmönnum í Lönguleit úr tíu þegar mest var í fimm og eru það þrír Gnúpverjar og 2 Flóamenn. Kemur það til vegna fækkunar á fé. Í Norðurleit hefur verið fækkað úr 12 í 10 og smala það fjórir Gnúpverjar og 6 flóamenn til viðbótar við þá sem koma innan úr Lönguleit. Oft fara þó fleiri í Lönguleit en skyldan segir til um, þar sem vinsælt er að fá að fara um þessar slóðir. Á síðustu öld var töluvert mikið um fé á svæðinu inn við Hofsjökul. Nú hefur sá stofn sem gekk um þessar slóðir verið skorinn niður og eru það einungis flækingskindur sem finnast þar. Þær eru oftar en ekki óragar við að skella sér út í jökulkvíslarnar og geta leikið fjallmenn grátt ef ekki er vasklega en á sama tíma varlega farið.

Fyrsta nóttin

Ferðin hefst á því að fjallmenn gista í Hólaskógi aðfaranótt fimmtudagsins í 21.viku sumars. Í ár var það því miðvikudagurinn 4.september sem fjallmenn riðu af stað úr Gnúpverjahreppi. Greinahöfundur hafði þó daginn áður riðið alla leið neðan frá Selfossi og að Þjórsárholti ásamt Rúnari Hjálmarssyni, sem einnig var fjallmaður Flómanna í lönguleit. Fjögur hross hafði ég til skiptanna og þar af var eitt þeirra sem bar töskur sem í var nesti, járningaráhöld, skeifur og annar útbúnaður sem þarf til svona ferðar. Við Rúnar riðum frá Þjórsárholti ásamt Guðmundi Árnasyni fjallkóngi upp Gnúpverjahrepp þar sem Sigurður Loftsson og Hrafnhildur Jóhanna Björg, dóttir Sigurðar, biðu okkar fyrir neðan bæinn Fossnes. Þaðan lá leið okkar yfir Gaukshöfða að Fangabrekkugerði, sem stendur við Sandá. Þar bættust í hópinn þeir Einar Gestsson, Einar Hermundsson og Tryggvi Ágústsson. Alls voru því á ferðinni 9 fjallmenn auk þess að Ólafur Jónsson í Eystra-Geldingaholti, sem sinnt hefur stöðu trúss frá því árið 1971 beið okkar í Hólaskógi, en fjallskrínur og hey fyrir hesta ásamt mat fyrir fjallmenn, hafði hann meðferðis. Óli trússari er vel búinn á New Holland dráttarvél með sérútbúna vagna í eftirdragi. Hann hefur farið í 106 slíkar ferðir bæði í fjallsafni, eftirsafni og eftirleitum bæði á Gnúpverja- og Flóamannaafrétti. Hann hefur reynst mörgum fjallmanninum vel sem um þessar slóðir fer og skortir ekki á neitt í mat eða öðru. Síðasti fjallmaðurinn bættist í hópinn fyrir framan Reykholt í Þjórsárdal og var það Ari Björn Thorarensen. Frá Fangabrekku var riðið inn Þjórsárdal yfir Fossá, sem markar skilin milli Skeiða- og Flóamannaafréttar og Gnúpverjaafréttar, að bænum Stöng. Stöng er einn þekktasti bærinn frá þjóðveldisöld en talið er að hann hafi farið í eyði í Heklugosi 1104 ásamt mörgum öðrum bæjum í Þjórsárdal. Frá Stöng var riðið meðfram Stangarfjalli að Hólaskógi um Kjóaflöt en þar er siður að á. Var þessi dagleið frá Þjórsárholti 35 kílómetrar að lengd og töluverð hækkun í landið. Litlu mátti þó muna að illa færi í Hólaskógi, þegar hestunum var sleppt í nætur hólfið, því efri strengurinn á girðingunni lá niðri og stukku hestarnir út fyrir hana. Heppni má teljast að fjallmenn hafi verið komnir í björtu og náðu því að hlaupa fyrir hestanna áður en þeir tóku stökkið niður í byggð.

Bjarnalækjarbotnar

Fimmtudaginn 5.september var riðið frá Hólaskógi að Bjarnalækjarbotnum. Eftir að fjallmenn höfðu gætt sér á staðgóðum morgunverði sem Óli trússari reiddi fram af stakri prýði, var lagt í hann. Veðrið var gott og drottning íslenskra fjalla, Hekla, gnæfði yfir okkur í suðurátt. Riðið er frá Hólaskógi í austur yfir Sandafell og er þá komið inn á vörðuðu leiðina um hina fornu Sprengisandsleið, sem liggur úr Þjórsárdal norður í Bárðardal. Riðið var um Skúmstungur. Í Skúmstungur falla tvær ár, Fremri- og Innri -Skúmstungnaá. Venjulega eru þetta vatnslitlar ár en til eru sagnir af erfiðleikum fjallamanna að koma yfir þær fé í miklum vatnsveðrum. Frá Skúmstungum var haldið í norður Sprengisandleið um Starkaðsver og framhjá Starkaðssteini. Sagt er að maður norðan úr landi sem Starkaður hét hafi átt unnustu í Gnúpverjahreppi. Starkaður lagi af stað að norðan er leið að jólum til þess að hitta unnustu sína, en varð úti undir steininum. Dreymdi unnustuna nótt eina upp úr áramótum að það var kveðið til hennar.

Frost og fjúk er fast á búk
frosinn mergur í beinum
Það finnst á mér sem fornkveðið er
að fátt segir af einum

Angur og mein fyrir auðarrein
oft hafa skattnar þegið
Starkaðs bein undir stórum stein
um stundu hafa legið.

Eftir að hafa riðið í 4-5 klst er áð í Gljúfurleit, sem er leitarmannakofi Gnúpverja, og þar tekur á móti okkur Óli trússari með hádegismat og kaffi. Að því loknu er riðið í norður og komið að Dalsá sem er önnur mest Þverá sem gengur í Þjórsá, aðeins Fossá er henni meiri. Við vaðið yfir Dalsá er gamall leitarmannakofi, sem talið er að mjög sé reimt í en þaðan er örstutt í Bjarnalækjarbotna. Fram undir miðja nítjándu öld var einungis smalað svæðið inn að Dalsá í fyrstu leit. Einstaka ofurhugar þorðu lengra inn á fjöllinn því hræðslan við útilegumenn og allskyns óvætti fylgdi þjóðinni á þessum árum. Kofaherðingurinn gagntekur menn oft þegar komið er inn yfir Dalsá í Loðnaver, enda eru á þeim slóðum góðar reiðgötur. Dagleið þessi frá Hólaskógi er 43 kílómetrar.

Starkaðssteinn

Innsti leitarmannakofinn

Frá Bjarnalækjarbotnum var haldið í Tjarnaver, þar sem innsti leitarmannakofinn á Gnúpverjaafrétti stendur sem ennþá er í notkun. Bólstaður er rétt norðar og stendur á móti Sóleyjarhöfða þar sem vað er á Þjórsá á Sprengisandsleið. Á Bólstað gistu leitarmenn fyrr á tímum en kofinn er byggður seint á nítjándu öld og höfðu þar aðsetur sitt varðmenn, er gættu þess að sunnanfé hefði engan samgang við norðanfé í fjárkláðanum á nítjándu öld. Í Tjarnaveri var reist nýtt og glæsilegt hús árið 2016, en húsið sem hafði verið reist þar árið 1984 hefur nú verið fjarlægt. Fjallmenn ríða í norður frá Bjarnalækjarbotnum og fylgja bílveginum að mestu. Farið er yfir Miklalæk þaðan sem riðið er í norður að Skiptiöldu en þar skipar Guðmundur fjallkóngur í leitir. Framundan er fjórðungssandur, en svo heitir landssvæðið á milli ánna Kisu og Hnífár. Kisa kemur úr austanverðum Kerlingafjöllum og eru upptök hennar í Efri-Hveradölum sunnan undir Hánípum. Fjórðungssandur ber nafn með rentu en þar er lítið sem ekkert um graslendi og hver sandaldan rekur aðra. Þó svo að ekki sé mikil kindavon á þessum slóðum er svæðið leitað, þar sem ein og ein kind á flækingi fer þar um. Greinahöfundur ásamt Ara Thorarensen, Einari Hermundssyni og Rúnari Hjálmarssyni var falið að leita vesturhluta fjórðungssand. Rúnar fór vestur fyrir Setur en við hinir dreifðum okkur á sandinn austan við þær. Yfir Hnífá fórum við og slógum okkur þá austur á bóginn í átt að Tjarnaveri. Ekki fundum við kindur þennan daginn en töluvert var um nýleg kindaför um og yfir Fjórðungssand. Reikna má með því að þessi dagur sé um 35 kílómetrar, þær slóðir sem greinahöfundur reið. Þeir sem fóru upp með Þjórsá áttu styttri dag en Rúnar sem fór vestur fyrir Setur ennþá lengri dag. Þegar í Tjarnaver var komið blasti Hofsjökull við með allri sinni dýrð og minnti fjallmenn á það að hann tæki á móti þeim daginn eftir. Kindavon var á þeim slóðum því fréttir höfðu borist af morgolsóttri ær með lamb með sér í sama lit, fyrr um sumarið. Ekki hafði fundist kind á þessum slóðum síðan í fjallsafni árið 2014. Þá um kvöldið var skálað og sungið og eftirvænting mikil meðal fjallmanna að komast inn í Arnarfell hið Mikla.

Tjarnaver

Eltingaleikur við Arnarfellsmúla

Snemma morguns laugardaginn 7.september var haldið af stað ríðandi inn í átt til Hofsjökuls. Tóku flestir fjallmenn með sér tvo hesta og ekki var um annað að ræða en fara í pollagalla enda skúraleiðingar af suðri. Leiðin sem farinn er í Arnarfell er á þann hátt að riðið er frá Tjarnaveri í norðvestur og farið yfir aura Blautukvíslar og stefnan tekin á Nautöldu. Nautalda er lágreist móbergsalda og ber hún nafn sitt af því að þar fundust naut, sem Jón Guðmundsson ritstjóri átti. Hann fluttist frá Kirkjubæ á Síðu suður til Reykjavíkur árið 1847, nautin munu hafa ætlað að snúa aftur austur eftir að til Reykjavíkur var komið. Þau hljóta að hafa farið yfir Hvítá langt inn í óbyggðum og fundu eftirleitarmenn nautin á þessum slóðum (Nauthagi) þá um haustið. Þegar á Nautöldu var komið sendi fjallkóngur greinahöfund við annan fjallmann, Rúnar Hjálmarsson, inn að Jökulkrika en þar hefur stundum verið fjárvon. Sérstaklega á árum áður þegar mikið var um sauðfé á þessum slóðum. Jökulkriki þessi er á milli Söðulsfells og Ólafsfells og er Blautukvíslarjökull í vestri en Nauthagajökull í austri. Ekki var neitt líf sjáanlegt í Jökulkrikanum en Haförn lét þó sjá sig við Nautölduna og fylgdi hann fjallmönnum eftir allan daginn, líklega í þeirri von að eitthvað ætilegt væri hjá þeim að hafa. Við Rúnar hittum aftur á hina fjallmennina þar sem þeir beittu klárum sínum í Nauthaganum sem er austan við Miklukvísl, hér áður fyrr gistu fjallmenn í tjöldum. Frá Nauthaganum er haldið í austur yfir Fremri Múlakvísl og meðfram Arnarfellsmúlum en þar fyrir innan blasir við Múlajökull sem er ákaflega tignarlegur skriðjökull. Á þessum slóðum hafði sést til þeirrar morgolsóttu fyrr um sumarið og því voru fjallmenn á varðbergi skyldu þeir sjá kind. Þegar við vorum nýlagðir af stað meðfram múlunum gerðist hið óvænta, svartflekkótt kind sést rétt innan við reiðleiðina meðfram þeim. Um leið og hún verður fjallmannanna var tekur hún stökkið í norðaustur meðfram Múlunum og tekur stefnuna í átt að Arnarfelli hinu Mikla. Fjallmenn geysast af stað á eftir til þess að missa ekki sjónar af henni. Rúnar, sem áður hefur verið nefndur í þessari grein, var létt ríðandi á rauðskjóttum hesti sem heitir Tvistur frá Breiðholti í Flóa. Taka þeir félagar nú á rás á eftir þeirri flekkóttu og komast fyrir hana við Arnarfellskvíslina en reikna má með að kapphlaup þetta hafi verið um 6 kílómetra langt og alls ekki á sléttu landi heldur í grýttum Arnarfellsmúlunum. Hafist var við það að setja bönd á flekku og Rúnar sendur af stað gangandi með hana niður með Innri-Múlakvísl. Með honum fór Ari Thorarensen sem er margreyndur fjallmaður á þessum slóðum og hefur þegar þetta er ritað farið 21 fjallferð í lönguleit. Aðrir fjallmenn fara nú inn að Arnarfelli hinu mikla auk þess að greinahöfundur, Sigurður Loftsson, Hrafnhildur Jóhanna Björg og Einar Gestsson ríða inn að Arnarfelli hinu litla, sem er örlítið innar en hitt fellið. Ekki fannst fleira fé þann daginn en haförninn hélt áfram að fylgja fjallmönnum og hefur eflaust séð á eftir þeirri flekkóttu sem líklega hefði orðið að fýsilegri máltíð fyrir hann, þegar líða tæki á vetur. Af ferðum þeirra Rúnars, Ara og flekku er það að segja að við náðum þeim þar sem þríeykið var komið að Oddkelsöldu. Við komum ánni niður að Bólstað þar sem hún var skilin eftir um nóttina og Óli trússari og Einar Hermundsson sóttu hana daginn eftir. Ekki fréttist af morgolsóttu einlembunni en líklegt verður að þykja að hún hafi verið farinn af þessum slóðum. Í kofann að Tjarnaveri voru fjallmenn komnir rétt fyrir myrkur um kvöldið eftir langan en árangursríkan dag. Óli trússari hafði þá grillað dýrindis lambalærissneiðar og var nú skálað í rauðvíni og sungið fram á nótt. Þennan dag var ferðast um það bil 60 kílómetra og farið yfir margar jökulkvíslar sem voru misdjúpar og straumharðar.

Fleiri fjallmenn bætast í hópinn

Sunnudaginn 8.september var ferðbúist frá Tjarnaveri og stefnan sett að Bjarnalækjarbotnum. Þangað riðu einnig þennan dag, frá Hólaskógi, fjallmenn sem smala áttu Norðurleit á mánudeginum, ásamt okkur sem komum úr lönguleit. Flestum lönguleiturum var dreift á svæðið milli Norðlingaöldu og Þjórsár. Í Eyvafenskrók fundust sex kindur, er líklegt að það hafi verið féð sem förin sáust eftir á Fjórðungssandi tveimur dögum áður. Þrír fjallmenn voru sendir í Kisubotna. Það voru, ásamt greinahöfundi, Ari Thorarensen og Rúnar Hjálmarsson. Var okkur ætlað að ríða þangað og hitta fjallmenn úr Hrunamannahreppi, en þeir smala einnig þetta svæði. Riðum við að stað í norðvestur úr Tjarnaveri og fórum við á bílvaðinu yfir Hnífá. Riðum við norðan við Setuhraun og yfir Þverbrekkur í Efri-Kisubotna. Þar komum við auga á tvær tvílembur fremur hátt upp í fjöllunum. Stuttu síðar kom Eiríkur Kristófersson á Grafarbakka í Hrunamannahreppi en hann kom akandi. Þrír smalar Hrunamanna þeir Elvar Logi Gunnarsson, Elís Arnar Jónsson og Harri Kjartansson. Gengu þeir nú af stað inn fyrir ærnar og komu þeir með þær á undan sér niður. Að svo búnu lögðum við af stað suður í átt til Bjarnalækjarbotna. Hey reiddum við með okkur, því ekki er von á mikilli beit fyrir hross á þessari reið, í neðri Kisubotnum var áð og fjallhestum gefin tugga, auk þess að við snæddum það nesti sem við höfðum smurt um morguninn. Svo var riðið niður með ánni Kisu um Efri- og Neðri-Miklulækjarbotna og komið í fjallaskálann Bjarnalækjarbotna um kvöldmatarleyti. Dagleiðin sem Kisubotna menn ríða er talin um 60 kílómetrar.

Fjallhestum gefið hey er komið var úr Kisubotnum

Norðurleitin smöluð

Mánudaginn 9.september er Norðurleitin smöluð, eins og áður hefur komið fram er það svæðið á milli Dalsár og Kisu. Smölum er skipað í leitir af Guðmundi Fjallkóngi og er svæðið smalað á línulegan hátt. Þ.e.a.s. að fjallmenn séu meðvitaðir um það hvar þeir fjallmenn sem næstir þeim koma eru og ríði ekki langt á undan þeim eða verði á eftir. Ef það gerist getur féð runnið á milli manna og tapast. Markmið dagsins er að koma þeim kindum sem á þessu svæði eru fram yfir Dalsá. Þar er gerði sem þær eru geymdar í yfir nóttina og svo eru þær reknar fram afréttinn daginn eftir. Austasti fjallmaður þennan dag leitar svæðið niður með Þjórsá en sá sem vestast fer hann smalar Lambafell og Rjúpnafell og Dalsárdrögin. Við þrír sem fórum í Kisubotna daginn áður fengum stuttan dag og smöluðum Kjálkaver og Loðnaver. Við vorum svo mættir í fyrirstöðu við Dalsá. Í Norðurleitinni fundust 25 kindur, þar af tveir útigangar frá Háholti. Greinahöfundur ferðaðist alls 20 km þennan dag.

 

Flóamannaafréttur

Þriðjudaginn 10.september var komið að því að fjallmenn skildu halda á þrjá mismunandi staði og hitta þar fyrir smala sem höfðu verið 2 daga á ferðinni. Gnúpverjar smala þennan dag fram Gljúfurleit og gista í Gljúfurleitarkofa. Hitta þeir þar fyrir 18 aðra fjallamenn sem smala með þeim fram afréttinn daginn eftir. Flóamannaafréttur skiptist í austur- og vesturleit. Fjórir fjallmenn úr austurleitinni ríða því til móts við félaga sína á Skeiðamannafit. Er það fremur stutt leið og fara þeir m.a. um Fossárdrög. Þeir sem smala í vesturleit fara hins vegar um Öræfin í gegnum Flóamannaskarð og smala fram Laxárdrögin, en þar á Stóra-Laxá upptök sín.  Vesturleitarar hitta fyrir félaga sína á Sultarfit. Þeir sem fara um öræfin reiða með sér hey fyrir fjallhestanna og er siður að gefa það þegar í Laxárdrögin er komið. Lítil sem enginn beit er fyrir fjallhestanna á leiðinni og því hefur þessi siður verið viðhafður um aldir. Er þessi dagleið talinn um 40 kílómetrar. Segir nú ekki meira af ferðum Gnúpverja og Flóamanna í austurleit því greinahöfundur smalaði fram vesturleitina. Daginn eftir að komið er á Sultarfit er afrétturinn smalaður fram að Hallarmúla. En til viðbótar við þá 6 fjallmenn sem við hittum fyrir á Sultarfit eru nú komnir 11 fjallmenn í Hallarmúla og er þeim ætlað að smala svæðið sem kallast einu nafni tangi, og eru þeir því kallaðir tangamenn. Miðvikudaginn 11.september eru því 21 fjallmaður í smalamennskum í vesturleit á Flóamannaafrétti. Fimmtudaginn 12.september er afrétturinn smalaður fram að afréttargirðingu og féð geymt um nóttina í safngerði í Skáldabúðum. Föstudaginn 13.september var svo safninu smalað í Reykjaréttir á Skeiðum og þar er einnig réttað því fé sem Austurleitin smalar. Reiknað er með að heildarfjöldi fjár í Reykjaréttum sé 6500.

Kort er sýnir gróflega þá leið sem greinarhöfundur ferðaðist á hestum frá Selfossi og inn í Arnarfell hið Mikla.

Heim á leið

Að réttardeginum loknum, sem er mikill hátíðisdagur fyrir bændur og búalið, er riðið heim á leið. Er riðið niður skeið og er oft mikið fjör á leiðinni þar sem margir ríða í réttir. Ferð þessi inn í Arnarfell hið Mikla var ákaflega vel heppnuð í góðum félagsskap og veðri. Alls reið greinahöfundur um það bil 450 kílómetra á þessum dögum. Íslenska hestinum ferst það hlutverk vel að vera smalahestur, enda hefur hann verið það frá því um landnám og er mótaður af þeirri notkun.

Smalar í Lönguleit árið 2019 talið frá vinstri; Rúnar Hjálmarsson, Hrafnhildur Jóhanna Björg, Einar Hermundsson, Sigurður Loftsson, Gísli Guðjónsson, Ari Thorarensen, Guðmundur Árnason, Einar Gestsson, Ólafur Jónsson og Tryggvi Ágústsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar