Gæðingalist næst á dagskrá

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðstöðum Mynd: Carolin Giese
Á föstudaginn 14. mars n.k. verður keppt í Gæðingalist í Meistaradeild Líflands og hefst keppnin stundvíslega klukkan 19:00. Keppnin verður haldin í HorseDay Höllinni, Ingólfshvoli.
Dregið í rásröð á miðvikudaginn
Í fyrra voru það Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðsstöðum sem unnu gæðingalistina. Aðalheiður er sem stendur í þriðja sæti í einstaklingskeppninni og ætlar sér eflaust sigur á föstudaginn.
Ragnhildur Haraldsdóttir á Úlfi frá Mosfellsbæ varð í öðru sæti og þriðji var Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti. Sést hefur til þeirra Ragnhildar og Úlfs á æfingum og gaman verður að sjá hvort þau mæti ekki í braut á föstudaginn. Jakob Svavar mun ekki mæta með Skarp í ár og verður spennandi að sjá hvaða hrossi hann teflir fram en Jakob hefur ávallt verið ofarlega í þessari grein síðustu ár og er sá knapi sem hefur unnið hana oftast í deildinni eða þrisvar sinnum.
Ásmundur Ernir Snorrason er efstur sem stendur í einstaklingskeppninni. Hann mætti með Hlökk frá Strandarhöfði í fyrra og enduðu þau í sjötta sæti en líklegt þykir að Ásmundur teflir henni aftur fram í ár.
Dregið verður í rásröð á miðvikudaginn kl. 20:00 og spennandi að sjá hvaða knapar mæta í gæðingalistina á föstudaginn. Enn er hægt að bjóða í uppboðssætið fyrir áhugasama.
Steikarhlað og frítt inn í HorseDay höllina
HYDROSCAND Á ÍSLANDI býður áhorfendum frítt í stúkuna svo allir geta upplifað keppnina í einstakri stemningu á staðnum. Fyrir þá sem vilja gera kvöldið enn betra verður glæsilegt steikarhlaðborð á staðnum og gestir sem panta fyrir fram fá frátekið sæti á besta stað í stúkunni. Njóttu ljúffengrar máltíðar áður en keppnin hefst en pantanir fara fram á HÉR og húsið opnar klukkan 17:00. Hlaðborðið er hlaðið dýrindis veitingum, kjöti og fjölbreyttu meðlæti, steiktu og fersku grænmeti og bragðgóðum sósum. Þetta er veisla sem kitlar bragðlaukana en verðið er 4.990kr.
Fyrir þá sem komast ekki í höllina verður keppnin sýnd í beinni útsendingu www.eidfaxitv.is þar sem hægt verður að fylgjast með keppninni ásamt áhugaverðum viðtölum og kappkostað er að senda stemninguna úr höllinni heim í stofu!