„Gerðu það sem þú elskar, lífið er svo stutt“

  • 5. desember 2021
  • Fréttir
Íslendingar erlendis - Viðtal við Sigurð Narfa Birgisson

Eiðfaxi heldur áfram að kynna lesendur fyrir íslendingum sem búa erlendis en næsti viðmælandi er Sigurður Narfi Birgisson.

Sigurður Narfi Birgisson flutti til Niedersachsen, í Þýskalandi, árið 1992 og býr þar enn með konu sinni Susanne Birgisson og tveimur börnum Jakobi Narfa og Grétu Helene. Þau búa á búgarðinum Solaholt þar sem Sigurður starfar við tamningar, sölu og reiðkennslu. “Ég myndi giska á að það séu um +/- 50 hross á búgarðinum og af þeim eigum við 17 hross. Ég er eiginlega að grúska í öllu sem viðkemur hestamennskunni. Við höfum aðeins verið að rækta og fáum um 2 – 3 folöld á ári en við erum með þrjár fyrstu verðlauna hryssur í ræktun,” segir Sigurður eða Siggi Narfi eins og hann er oftast kallaður.

Þegar Siggi Narfi hélt út í fyrsta skipti átti það að vera stutt stopp en nú eftir tæp 30 ár erlendis er hann ekki á leiðinni heim aftur. “Þetta átti að vera þriggja mánaða ævintýri en það tókst ekki. Ég hef farið víða í Þýskalandi en ég hef t.d. unnið á Vindholum, Störtal, Faxabóli og Pfaffenbuck en ég er mjög ánæðgur þar sem við erum í dag,” segir Siggi Narfi en á Íslandi starfaði hann m.a við tamningar hjá Bæring og Kollu á Stóra-Hofi.

Fjölskylan er ekki öll í sportinu en kona hans og dóttir hafa áhuga á hestum en sonur hans er meira fyrir hjólið. “Hefðbundinn dagur hjá okkur hefst á því að vakna. Krakkarnir fara í skólann og frúin í vinnuna en hún er tannsmiður hálfan daginn og vinnukona mín það sem eftir er dagsins. Ég drekk kaffi og fer á hestbak,” segir Sigurður Narfi og brosir.

Sigurður Narfi hefur látið til sín taka á kynbótabrautinni en hann á 130 skráðar sýningar í WorldFeng og hefur m.a. sýnt kynbótahross á Heimsmeistaramótum, bæði fyrir Austurríki, tvisvar sinnum, og Holland, einu sinni. “Ég hef ekki mikið verið í keppni en ég er núna aðeins að leika mér á skeiðbrautinni. Stundum tekst og stundum ekki. Í sumar tókst það nokkuð vel með Gust frá Syðri-Hofdölum og Snarp frá Nýjabæ,” segir Siggi Narfi.

Búgarðurinn sem Siggi Narfi býr á er í miðju Þýskalandi og er mikið um íslenska hestinn á því svæði. Hann telur þó að félagslífið í kringum Íslands hestamennskuna mætti vera öflugra. “Þetta er ekki eins og á Íslandi, fjarlægðirnar á milli staða spila þar inn í,” segir Siggi Narfi en saknar hann aldrei Íslands? “Ekki þannig við reyndar förum alltof sjaldan heim. Það væri gaman að reyna komast á Landsmót næsta sumar en það er ekki auðvelt að finna einhvern til að sjá um staðinn á meðan. Við erum ekkert að koma heim í framtíðinni. Framtíðarplönin okkar eru að reyna rækta okkar draumahest og halda heilsu” segir Siggi Narfi og bætir við að lokum “Það er svo mikilvægt að gera það sem þú elskar því lífið er svo stutt.”

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar