„Góð aðferð til að halda hestinum við andlega og líkamlega“

  • 25. nóvember 2023
  • Fréttir
Heimsókn í hestasundlaugina í Áskoti

Í Áskoti í Ásahreppi er eina hestasundlaug landsins. Eigendur Áskots er þau Steinar Sigurðsson og Gréta V. Guðmundsdóttir.

Blaðamaður Eiðfaxa heimsótti þau á dögunum til þess að fræðast meira um þennan þjálfunarkost sem hestamönnum stendur til boða.

„Við byrjuðum með okkar starfsemi hér í Áskoti í maí 2021 og því er núna framundan þriðji veturinn. Fyrsta sumarið fór í að þróa okkur áfram og okkur til stuðnings vorum við mikið í sambandi við dýralækna með ráðleggingar og sóttum okkur þekkingu. Susanne Braun hefur til dæmis stutt okkur vel, Björgvin Þór og Helga Gunnarsdóttir hafa líka ávísað hestum til okkar og þetta er t.d. eina úrræðið fyrir hesta með sina- eða aðra fótaskaða og sundið gerir þeim mjög gott.“

En hvernig hefur reksturinn gengið á þessum tíma sem þau hafa verið í Áskoti og hversu marga hesta hafa þau meðhöndlað? „Á þessum tíma höfum við þjónustað um sex hundruð hesta. Við erum komin með nokkuð fastan kúnnahóp og má segja að þeir knapar séu farnir að skipuleggja vetrarþjálfunina með okkur í huga. Hesthúsið telur 20 einshesta stíur og við erum yfirleitt með 15-16 hross í sundþjálfun í einu þannig að það er í nógu að snúast. Við erum með góð útihólf og það fer mikill tími hjá okkur í umhugsun um gripina enda leggjum við mikinn metnað í það.“ Það að þjálfa hestanna er þó ekki það eina sem þau Steinar og Gréta þurfa að hafa í huga því þau hafa einnig mikinn metnað fyrir allri meðhöndlun þeirra gripa sem til þeirra koma. „Við leggjum mikið upp úr góðri og næringarríkri fóðrun með fram sundþjálfuninni. Hross sem stunda slíka þjálfun þurfa mjög próteinríkt fóður því mikil vöðvauppbygging fer fram á þeim tíma. Við erum með einstaklingsnálgun á hvern grip. Hrossin eru mislengi að ná upp góðri sundfærni og við nálgumst alla hesta með það í huga. Algengasti þjálfunartíminn í sundi eru þrjár vikur en við bjóðum líka upp á lengri þjálfunartíma og höfum líka yfir að ráða hlaupahring fyrir hestanna þar sem þeir hlaupa einir að því undanskildu að í fyrstu skiptin fylgir þeim heimavanur geldingur með til stuðnings.“ Segja þessir metnaðarfullu þjálfarar.

En af hverju sund? „Þetta er öflug aðferð til að halda hestinum við andlega og líkamlega, þeir styrkjast mikið og verða þolnari. Eins má segja að þetta sé frábær leið til þess að brjóta upp þjálfunarmynstrið og breyta til. Við „áttum“ milli 40 og 50 hesta í keppni og kynbótasýningum á síðasta Landsmóti. Hér voru hestar í þjálfun alveg fram að síðustu dögum fyrir Landsmót og mættu þangað í toppstandi eftir nokkrar ferðir í sundlauginni, það var mjög gaman að fylgjast með þessum vinum okkar gera vel á mótinu.“

Góð þolþjálfun og vöðvauppbygging er þó ekki það eina sem hestarnir græða á því að fara í Áskot. „Við getum sagt ykkur góða sögu af hesti sem kom hér í þjálfun til okkar sem var með allskyns sjónhræðslu í reiðtúrum og aðra lesti, knapi hans hringdi í okkur þegar hesturinn var búinn að vera hér og sagði að hesturinn væri gjörbreyttur í allri snertingu og eins hefði umhverfishræðslan í honum stórlagast. Það er í raun mikil tamning fyrir hesta að vera hér hjá okkur, þeir eru alltaf þvegnir fyrir sundið, krafsað úr hófum og í rauninni meðhöndlaðir mjög mikið. Það sem má ekki vanmeta í þessu heldur er að hesturinn þarf að vera í stöðugri framhugsun og þetta er því. Heilmikil tamning.

En hvernig eru bókanir núna, er hægt að koma hestum að hjá þeim í Áskoti? „Þessi vetur fer aðeins rólegra af stað þannig að það er pláss eins og staðan er núna en mikið um bókanir fram í tímann, núna á næstunni fara hestar að týnast inn. Þetta er kjörin leið til þess að koma reiðhestum í form fyrir vetrarútreiðarnar. Hestar geta byrjað sína veterarþjálfun hér og við sjáum um að láta járna hross, raspa þau og annað í undirbúning fyrir útreiðarnar. Það er líka algengt að fólk sem skreppur og sinnir öðrum hugðarefnum s.s. utanlandsferðum eða öðru komi með hestana sína hingað í þjálfun og fá þá svo í fullu fjöri við heimkomuna.“

Eiðfaxi þakkar þeim Steinari og Grétu fyrir móttökurnar og óskar þeim áframhaldandi velgengni í hestasundlauginni í Áskoti sem er ein fjölmörgum þjálfunaraðferðum sem er í boði fyrir hestamenn. Nánar má fræðast um verð á þjálfuninni í Áskoti og hvernig skal hafa samband á heimasíðu þeirra með því að smella hér.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar