Halldóra hæst dæmda klárhryssa ársins
Kynbótasýningar fara nú fram á tveimur stöðum á Íslandi. Yfirlit fer fram í dag á Hólum í Hjaltadal en á morgun á Rangárbökkum við Hellu. Mörg hátt dæmd hross hafa komið fram og þá sér í lagi á Hellu.
Halldóra frá Hólaborg var sýnd nú í því holli sem var að klárast og er hún hæst dæmda klárhryssa ársins með 8,62 í aðaleinkunn með 8,66 fyrir hæfileika og 8,53 fyrir sköpulag. Hæfileikaeinkunn hennar án skeiðs er 9,33.
í sögu kynbótadóma eru aðeins þrjár klárhryssur sem hlotið hafa hærri aðaleinkunn en Halldóra en það eru þær Lýdía frá Eystri-Hól, sem hlaut í aðaleinkunn 8,67, Katla frá Ketilsstöðum, sem hlaut 8,65 í aðaleinkunn, og Sending frá Þorlákshöfn sem hlaut 8,64 í aðaleinkunn.
Halldóra er arfgerðargreind CA hryssa undan Leikni frá Vakurstöðum og Gefjun frá Litlu-Sandvík. Ræktendur hennar eru Ingimar Baldvinsson og Emilia Staffansdotter en eigendur eru Daníel Helgason og Hólaborg ehf. Sýnandi Halldóru var Jón Ársæll Bergmann.