Heildartíðni þrýstingsáverka í munni hefur lækkað

  • 20. maí 2025
  • Fréttir
Niðurstöðurnar eru unnar úr gögnum sem fást við heilbrigðisskoðunina „Klár í keppni“ sem er lögbundin skoðun sýninga- og keppnishrossa á Íslands- og Landsmótum. 

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun, birti í Bændablaðinu grein um tíðni þrýstingsáverka í munni keppnishesta á Landsmóti 2024.

Niðurstöðurnar eru unnar úr gögnum sem fást við heilbrigðisskoðunina „Klár í keppni“ sem er lögbundin skoðun sýninga- og keppnishrossa á Íslands- og Landsmótum en skoðunin hefur verið sambærileg frá árinu 2012 fyrir utan að ítarlegri skoðun á álagseinkennum á fótum var innleidd árið 2022 á Landsmóti það sama ár.

Heildartíðni lækkað frá því 2012

Í greininni kemur fram að heildartíðni þrýstingsáverka í munni hefur lækkað úr 67% á Landsmóti árið 2012 í 21% á Landsmóti 2024.

„Enn meira hefur dregið úr þrýsingsáverkum á kjálkabeini og þeir sem eftir standa eru mun vægari en raunin var árið 2012. Jákvæð áhrif á velferð hestanna eru því ótvíræð,“ kemur einnig fram í greininni.

Beislisbúnaðurinn hefur mikil áhrif

Með greininni fylgir mynd af tíðni þrýstingsáverka í munni keppnishesta á Landsmótum frá árunum 2012 til 2024 og þar sést að áverkar voru nær 70% árið 2012 og fækkar þeim um helming á Landsmóti 2014. Þar er mesti munurinn á þrýstingsáverkum á kjálkabeini.

Tíðni áverka eykst síðan aftur á Landsmóti 2016 og enn meir árið 2018 en fer síðan lækkandi til ársins 2024. Vill Sigríður meina að þessar breytingar á tíðni þrýstingsáverkanna sé að einhverju leyti hægt að útskýra vegna breytinga á reglum um leyfilegan beislabúnað þó fjölmargir aðrir þættir spili einnig inn í.

„Beislisbúnaðurinn hefur einnig mikil áhrif, bæði beint og óbeint. Tíðni þrýstingsáverka nær helmingaðist strax á LM2014, í kjölfar banns við notkun á stangamélum með tunguboga það sama ár. Alvarlegir þrýstingsáverkar á kjálkabeini heyra nánast sögunni til. Þá tók við tímabil þar sem meira var riðið við hringamél. Í kjölfarið fór tíðni þrýstingsáverka í mjúkkvef (kinnum og munnvikum) aftur hækkandi og náði í raun hámarki á LM2018. Sú lækkun sem aftur varð á milli LM2018 og LM2022 hefur að miklu leyti verið rakin til aukinnar notkunar á stangamélum á milli þessara tveggja móta,“ segir í greininni.

Vert að endurskoða keppnisfyrirkomulagið

Sigríður bendir einnig á í greininni að sérstaka forkeppnin sem riðin er á Landsmótum sé mjög krefjandi og telur hún fulla ástæðu til að skoða það fyrirkomulag.

„Enginn vafi leikur á að hin sérstaka forkeppni sem riðin er á landsmótum er mjög krefjandi fyrir hesta og full ástæða til að skoða það fyrirkomulag gagnrýnum augum. Keppnisreglur og dómgæsla varða leiðina fyrir velferð keppnishesta og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Þau teikn sem hér koma fram um jákvæða þróun, samhliða framförum í reiðmennsku, eru hvatning til að gera enn betur. Verkefnið er endalaust og nægt svigrúm til framfara.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar