Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
Menntanefnd LH hefur tilnefnt Heklu Katharínu Kristinsdóttur reiðkennara ársins 2025.
Þetta árið var lögð áhersla á ungu kynslóðina í valinu, eftir tilmælum frá FEIF sem á ársþingi sínu í lok janúar mun tilkynna Trainer of the year, sem kosinn hefur verið í netkosningu úr hópi tilnefndra frá aðildarlöndum.
Menntanefnd LH valdi að þessu sinni Heklu Katharínu Kristinsdóttur fráfarandi þjálfara U21 landsliðs Íslands í hestaíþróttum sem reiðkennara ársins á Íslandi.
Hekla kemur úr mikilli hestafjölskyldu og hefur verið virk bæði á keppnisbrautinni frá unga aldri, sem og sem reiðkennari alla tíð frá útskrift hennar á Hólum 2012. Hún rekur ásamt fjölskyldu sinni hestamiðstöð að Árbæjarhjáleigu og starfar alfarið sem hrossaræktandi, reiðkennari, tamningakona og þjálfari og kennir bæði á Íslandi og erlendis. Hekla hefur verið tilnefnd nokkrum sinnum innan Íslands til þessa titils enda bæði vinsæl og farsæl í sínu starfi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hekla Katharina tilkomumikla ferilskrá sem inniheldur m.a. fjölda Íslandsmeistara- og Landsmótstitla, Heimsmeistaratitil og fjölmargar flottar kynbótasýningar. Einnig hefur hún starfað sem reiðkennari við Háskólann á Hólum og reiðkennari við Reiðmanninn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hekla Katharina hefur á sínum árum með U21 landsliðinu markað djúp spor í starf landsliðsins með fagmennsku og frábæru utanumhaldi. Árangur ungra knapa á stórmótum fyrir Íslands hönd undir stjórn Heklu hefur verið frábær, og er þar skemst að minnast þess að íslensk ungmenni úr liði henna unnu 7 af 9 mögulegum gullverðlaunum á Heimsmeistaramótinu í Sviss á árinu, og lögðu sannarlega sitt að mörkum við að endurheimta liðabikarinn sem kominn er í hendur Íslands á nýjan leik.
Hekla Katharína er frábær fulltrúi reiðkennara og þjálfara og hefur gert virkilega góða hluti við þjálfun ungra afreksknapa og hér með útnefnd Reiðkennari ársins á Íslandi 2025.
Til hamingju Hekla Katharína!
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
Árni Svavarsson á Hlemmiskeiði látinn
Fréttatilkynning frá stjórn Suðurlandsdeildar
Styttist í fyrsta mót í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum