Hestur losnaði úr stíu sinni rétt eftir flugtak

  • 17. nóvember 2023
  • Fréttir

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Flugvél hjá Air Atlanta Icelandic þurfti að snúa við vegna óvenjulegs atviks

Fimmtudaginn 9. nóvember þurfti að snúa við fraktvél frá íslenska flugfélaginu Air Atlanta vegna þess að hestur losnaði og slapp úr stíunni sinni. Vélin var á leið frá New York í Bandaríkjunum til Liege í Belgíu. Um borð voru tólf hestar og hver og einn hestur var í sérstíu samkvæmt heimildum Feykis en þeir voru fyrstir til að greina frá atburðinum.

Þegar vélin var komin í 31 þús. feta hæð eftir flugtak bað flugstjórinn, Jónas Kr. Guðmundsson, um leyfi til að snúa til baka. Vélin var þá komin nálægt Boston. „Við erum fraktvél með lifandi dýr, hest, um borð. Hesturinn náði að sleppa úr stíu sinni. Við eigum ekki í neinum vandræðum með flug en við þurfum að komast aftur til New York þar sem við getum ekki fest hestinn á ný,“ sagði Jónas við flugturninn í New York. Fékk hann leyfi til að snúa við.

Hesturinn losnaði innan við 30 mínútum frá flugtaki. Mikil ókyrrð var í flugtakinu og hesturinn fældist. Náði hann að stökkva úr sinni stíu í yfir í stíu hjá öðrum hesti. Slasaðist hann mikið við þetta og þurfti að sprauta hann með deyfilyfjum á staðnum. Sérþjálfað fólk var í vélinni til þess að sjá um hestana eins og ávallt þegar Air Atlanta flýgur með lifandi dýr.

Beðið var um að dýralæknir yrði á vellinum til að taka á móti hestinum. Ekki tókst hins vegar að bjarga hestinum sem drapst skömmu eftir lendingu.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar