Hvernig lærir hesturinn minn?

  • 4. apríl 2021
  • Fréttir
Páskapistill Hinna Sig

Góðan daginn hestamenn,

Páskahelgin er alltaf skemmtileg hjá okkur hestafólki, þó að samkomubönn og ýmislegt setji strik í reikninginn hvað mótahald og ýmsa viðburði varðar, þá eru páskarnir alltaf líflegir í hestamennskunni. Ég sé að hesthúsahverfin iða af lífi, og fólk er að dunda helling og heilu fjölskyldurnar safnast í hesthúsinu.

Föstudagurinn langi var full stuttur og ég hreinlega náði ekki að klára föstudagspistilinn. Þess vegna er hann aðeins seinn og er bara svona páskapistill í staðinn.

Eitt af því sem mér finnst alveg ótrúlega merkilegt stundum, það er að þegar maður er að pæla mikið í einhverju sérstöku virðist maður stundum detta niður á texta eða samtöl sem einhvern vegin skýra efnið fyrir manni. Það hefur örugglega að gera með ”law of attraction” og maður býr sér örugglega ómerðvitað til aðstæðurnar sem verða að þessum samtölum.

En fyrir mörgum árum síðan var ég á tímabili þar sem ég var svakalega mikið að pæla í því hvernig hestarnir okkar læra af okkur, og hvað gerir að verkum að þeir læri ákveðin viðbrögð við ábendingum til dæmis.

Ég er reyndar enn ofsalega upptekinn af þessu, og eyði miklum tíma í að spá í atferli þessarar frábæru skepnu.

”Allir hestar eru fullkomnir” sagði Eyjólfur Ísólfsson okkur í skólanum á Hólum. ”Þeir bregðast alltaf fullkomlega við samkvæmt sínu eigin náttúrulega eðli, þeir ”feika” ekki, og ljúga aldrei.”

Við þurfum að sjá til þess að skapa aðstæður þannig að þeir bregðist við á þann hátt sem við viljum. Þeim er skítsama hvað okkur finnst rétt og rangt, bara bregðast við samkvæmt sínu náttúrulega eðli.

Eðli hestsins sem er flóttadýr er að spara orku, og upplifa öryggi. Þess vegna læra þeir mest á því að endurtaka hegðun sem skapar þægindi og öryggi.

Þeir læra semsagt á UMBUN. Þeir læra í raun ekkert á ábendingum okkar, þær eru meira bara óþægilegt áreiti sem þeir vilja losna við, það er umbunin sem kennir þeim.

Þess vegna er ofboðslega mikilvægt sem þjálfari að umbuna á réttum tíma. Vissulega mikilvægt að hún komi ekki of seint, en það er ekki síður mikilvægt að umbunin komi ekki of snemma, þ.e ekki umbuna fyrr en viðbrögðin fara í rétta átt.

Allir hestar leitast við að losa sig við áreitið sem ábendingar okkar gefa, og það er einn besti eiginleiki sem hægt er að ná fram í hesti, þ.e viðleitnin að vilja losna undan áreitinu. Við sem knapar verðum að vera flink að leyfa hestinum að komast frá áreiti um leið og hann gerir eitthvað sem okkur þykir rétt. Hesturinn finnur að hann komst undan, og okkur fannst hann gera rétt. Win-win situation, og það er bæði þræskemmtileg og skýr leið við að þjálfa hest. Að rækta viðleitni hestsins að finna umbun.

Að hesturinn stundum svarar aðeins rangt, það er eiginlega alveg geggjað, það er það næstbesta sem gæti gerst hjá okkur í raun, næstbest á eftir rétt. Ef hesturinn svarar, en svara aðeins rangt bíðum við aðeins með ábendinguna á án þess að styrkja hana, og hesturinn heldur áfram að leita. Hann kemur í rétta átt, vitið þið til .

Ef hann svarar ekki neitt, þá má styrkja ábendinguna aðeins, en ef hann svarar en svarar pínu rangt, prufið að bíða, sjáið hvað gerist.

Annað sem ég vill nefna, ég átti mjög áhugavert samtal við Þorvald Árna Þorvaldsson fyrir mörgum árum síðan. Hann útskýrði fyrir mér hvernig hestar læra í nokkrum þrepum í raun.

Skilningur

Það fyrsta sem er mikilvægt, að hesturinn skilji. Að hann skilji ábendingarnar sem við notum og skilji aðstæðurnar sem hann er í. Þetta er grunnforsenda þess að eitthvað þróist í þjálfun hestsins. Hestar eru svolítið eins og við karlmenn. Þeir skilja bara skýr og einföld skilaboð. Það þýðir ekkert að gefa neitt í skyn, heldur bara vera skýr.

Traust

Næsta skref er síðan traust. Það þýðir að hesturinn verður að geta treyst ábendingunum okkar. Að sama ábending þýði alltaf það sama. Þegar við gefum ábendingu erum við að ætlast til þess að fá ákveðin viðbrögð, og hesturinn verður að geta treyst því að þegar ég geri ákveðna ábendingu, þýði hún alltaf það sama. Semsagt, að vera samkvæm(ur) sjálfum sér.

Virðing

Svo kemur virðing. Þegar hesturinn skilur og treystir ábendingum, þá fer hann að virða þær. Svona virkum við meira og minna öll. Þegar við skiljum það sem lagt er fram er auðveldara að treysta því og virða, en ef við skiljum ekki verðum við skeptísk, ekki satt?

Einn af þeim eiginleikum sem allir hestamenn hljóta að vilja að vinna með og verða flinkir í er viðleitnin að skilja hestinn sinn, fá kunnáttu á atferli og eðli hestsins og við hljótum öll að vera dálítið heilluð af þessari frábæru skepnu sem við erum að vinna með.

Í næsta pistli ætla ég svo að spjalla létt um samspil ábendinga, og kenna ykkur á báta- og flugvélaleikinn J

Ríðið vel og gleðilega páska hestamenn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar