„Íslenski hesturinn er eitt það dýrmætasta sem þjóðin á“

  • 25. mars 2020
  • Fréttir

Ljósmynd: Vilhelm Gunnarsson

Telma Tómasson er hestamönnum vel kunn en hún hefur komið að mörgum þáttum hestamennskunnar. Hún er menntaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og hefur í gegnum störf sín í fjölmiðlum verið iðin við að koma hestaíþróttinni á framfæri.

Markmiðið að gefa innsýn í fjölbreyttan heim hestamennskunnar

Nýjustu þættirnir úr hennar hugmyndasmiðju hafa birst á vef Vísis í vetur og bera nafnið Hestalífið, en hver er hugmyndin á bak við þættina. ,,Hugmyndin á bak við þættina er sú að ræða við fólk sem stendur framarlega á hinum ýmsu sviðum í þjóðfélaginu og hefur það eitt sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á hestum og hestamennsku. Með því langar mig til að gefa öðrum hestamönnum og ekki síst almenningi, innsýn í einstakan og fjölbreyttan heim hestamennskunnar, koma því áleiðis til eins margra og hægt er hve umstangið í kringum hesta er dásamlegt. Hestalífið er nafnið á þáttunum og er í hnotskurn það sem við viljum sýna.
Unnt er að stunda hestamennsku á svo mörgum forsendum, sem íþrótt, afþreyingu, útivist, nálægð við skepnur og einstakt tækifæri til að eyða gæðastundum með fjölskyldu og vinum. Viðmælendur mínir koma úr ólíkum áttum, en rauði þráðurinn í viðtölunum verður nú samt hversu nærandi, andlega og líkamlega, hestamennskan er.

Ástæðan fyrir þeirri nálgun sem ég beiti er að reyna að höfða til sem flestra, sérhæfðir þættir um keppnisíþróttina setti ég fram með allt öðrum formerkjum þegar við bjuggum til formatið í kringum beinar útsendingar og umræðuþætti um Meistaradeildina í hestaíþróttum á sínum tíma. Þeim þáttum var ætlað að upplýsa hestasamfélagið sérstaklega um íþróttahlið greinarinnar, sem einnig tókst sérlega vel til.” Segir Telma og er greinilega meðvituð um fjölbreytileika hestamennskunnar.

En hvernig hafa viðtökurnar við þessum skemmtilegu þáttum verið.

,,Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar og eiginlega farið fram úr björtustu vonum. Tugþúsundir hafa horft á fyrstu tvo þættina og viðbrögðin einstaklega jákvæð. Við erum sérlega ánægð með útkomuna, en hún er ekki síst samstarfsmanni mínum, Herði Þóhallssyni hjá Beit production, að þakka. Við vinnum náið saman, ég er skipuleggjandi, vinn handrit og svo framvegis. Hörður tekur síðan við boltanum, stýrir upptökum, klippir, sér um hljóðvinnslu og tónlist. Hörður er einstaklega lausnamiðaður, hugmyndaríkur og fjölhæfur kvikmyndagerðarmaður. Það er gaman að vinna með góðu fólki og þá verður útkoman vonandi eitthvað sem aðrir hafa gaman af.” Nýjasti þáttur Hestalífsins kom inn á vefsíðu Vísis í dag en hverju má fólk búast við í næstu honum og næstu þáttum.

,, Nýjasti þáttur Hestalífsins er um ljósmyndun, en hesturinn hefur verið viðfang listamanna frá örfófi alda. Hann er heillandi á að horfa og við sjáum og heyrum hvað er mikil vinna á bak við eina ljósmynd. Það kemur á óvart hve erfitt er að ná góðri mynd af hesti. Mér hefur í það minnsta ekki tekist sérlega vel til með það í gegnum tíðina, sérlegur klaufi á því sviði reyndar. Í næstu þáttum heimsækjum við falleg hestabú og ræðum við þjóðþekkt fólk sem stundar hestamennsku.”

Það kemur dagur eftir þennan dag

Ástandið í heiminum í dag er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt, en hvað er Telma Tómasson að aðhafast í ástandi dagsins í dag?

,,Nú þegar kórónuveiran leikur enn lausum hala held ég mér mikið til hlés, hitti fáa, er mikið heima, í hesthúsinu og fer í vinnuna. Kennsla liggur alveg niðri. Við tökum vaktir í hesthúsinu til að takmarka samskiptin. Einnig held ég áfram að þjálfa hestana mína en við hestamenn erum heppnir, vinirnir okkar ferfættu hjálpa svo sannarlega til með geðheilsuna á erfiðum tímum. Mér finnst gott að gera margra hluti í einu og nýta tímann, þegar hestarnir eru að með tugguna sína og úti að viðra sig sit ég við að vinna næsta þátt Hestalífsins, er með starfsstöðina mína í hesthúsinu enda eru fáir á skrifstofu Stöðvar 2 við Suðurlandsbraut núna þegar samkomubann gildir. Fyrir utan þetta er ég alltaf eitthvað að bralla, með nýjar hugmyndir á teikniborðinu, enda kemur dagur eftir þennan dag og sól hækkar brátt á lofti með sumri og vellíðan landsmanna og heimsins alls.“ Það er greinilegt að Telma fer varlega og nálgast Covid-19 á skynsaman hátt. En hefur hún einhver skilaboð til hestamanna að lokum. ,,Íslenski hesturinn er eitt það dýrmætasta sem þessi þjóð á, höfuðdjásn sem okkur ber að hlúa að í nútíð og framtíð. Ég er stolt yfir því að vera hluti af hestasamfélaginu og hafa tækifæri til að fjalla um þessa einstöku skepnu. Það er mikilvægt að hafa gaman í lífinu og fást við það sem gerir mann hamingjusaman. Hestarnir eru mínir bandamenn þar.”

 

Nýjasti þáttur Hestalífsins er komin á vef Vísis en í honum ræðir Telma við Gígju D. Einarsdóttur ljósmyndara og má horfa á  og lesa um þáttinn með því að smella hér.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar